Drangsnes Byggja þarf fleiri hús fyrir nýja íbúa sveitarfélagsins.
Drangsnes Byggja þarf fleiri hús fyrir nýja íbúa sveitarfélagsins. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Húsnæðisskortur hefur verið aðalvandamálið hjá okkur. Mikil ásókn er í húsnæði og mikil hreyfing á fólki,“ segir Finnur Ólafsson á Svanshóli, oddviti Kaldrananeshrepps á Ströndum. Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði um sjö frá 1

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

„Húsnæðisskortur hefur verið aðalvandamálið hjá okkur. Mikil ásókn er í húsnæði og mikil hreyfing á fólki,“ segir Finnur Ólafsson á Svanshóli, oddviti Kaldrananeshrepps á Ströndum. Íbúum sveitarfélagsins fjölgaði um sjö frá 1. desember síðastliðnum til 1. febrúar, samkvæmt upplýsingum Þjóðskrár, eða um 6,2% sem er mesta hlutfallslega fjölgunin í sveitarfélögum á þessu tveggja mánaða tímabili.

Íbúum landsins fjölgaði um 0,4% á þessu tímabili, samkvæmt yfirliti Þjóðskrár. Mesta fjölgunin í hausum talið er í Reykjavík, þar sem 601 íbúi bættist við, en hlutfallslega mesta fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu var í Hafnarfirði, 0,5%. Á Suðurnesjum fjölgaði um 257 íbúa, eða 0,8% sem er mesta hlutfallslega fjölgunin þegar litið er til landshluta.

Góð staða í atvinnumálum

Finnur Ólafsson segir að staðan í atvinnulífinu sé góð í Kaldrananeshreppi en þar er Drangsnes aðalbyggðakjarninn. Vaxtarbroddarnir eru í ferðaþjónustu, fiskeldi og fiskrækt.

Rekstur er að hefjast í seiðastöð fyrir regnbogasilung sem byggð hefur verið í Ásmundarnesi við Bjarnarfjörð. Fyrirhugað er að hefja þar landeldi á bleikju í seinni áfanga. Þá eru stundaðar tilraunir með ræktun á þorski í sjó, rétt utan við höfnina á Drangsnesi við Steingrímsfjörð. Þorskurinn er ræktaður í búrum og fylgst með vexti hans með myndavélakerfi. Hann er ekki fóðraður heldur lifir á ljósátu í sjónum. „Allar helstu vísbendingar eru mjög jákvæðar og það er spennandi að fylgjast með þessari tilraun,“ segir Finnur.

Sveitarfélagið hefur byggt nokkur hús á undanförnum árum og það hafa einnig einstaklingar gert. Nú er staðan sú að byggja þarf meira. Meðal annars liggur fyrir umsókn frá fólki sem Finnur segir að vilji tryggja búsetu sína á svæðinu og þurfi húsnæði, annars gæti það þurft að flytja í burtu. Málið er til umfjöllunar í sveitarstjórn. Finnur segir að skipuleggja þurfi byggingasvæði til að halda í við þessa þróun.

Góð viðbót

109 manns bjuggu í Kaldrananeshreppi undir lok síðasta árs og þegar sjö bætast við verður hlutfallsleg fjölgun talsverð. Finnur nefnir að góð viðbót hafi orðið í desember þegar fjölskylda frá Sviss flutti í hreppinn og vekur athygli á því að íbúatalan geti sveiflast á milli mánaða og því verði að skoða lengra tímabil en tvo mánuði til að sjá þróunina.

Höf.: Helgi Bjarnason