Handrit Vasare Rastonis og Svanhildur Óskarsdóttir blaða í Flateyjarbók.
Handrit Vasare Rastonis og Svanhildur Óskarsdóttir blaða í Flateyjarbók. — Morgunblaðið/Hanna
Málþing með yfirskriftinni Flateyjarbók: forn og ný verður haldið í Húsi Vigdísar á morgun, föstudag, milli kl. 13 og 17. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stendur fyrir þinginu. Svanhildur Óskarsdóttir handritafræðingur segir aðdragandann …

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Málþing með yfirskriftinni Flateyjarbók: forn og ný verður haldið í Húsi Vigdísar á morgun, föstudag, milli kl. 13 og 17. Stofnun Árna Magnússonar í íslenskum fræðum stendur fyrir þinginu.

Svanhildur Óskarsdóttir handritafræðingur segir aðdragandann að málþinginu í raun hafa verið langan því hann tengist miklum viðgerðum á Flateyjarbók. „Það kom í ljós fyrir síðustu aldarmót að það þyrfti að ráðast í meiriháttar viðgerð á handritinu. Það var vegna þess að fyrr á öldinni, fyrir 1930, var handritið tekið úr bandinu sem það var í og ljósmyndað. Svo var það bundið inn aftur og þá var sett mikið lím á það og það var þetta lím sem var farið að valda því miklum skaða því það var orðið mjög erfitt að opna handritið almennilega. Það var of mikið álag á skinnblöðin,“ segir hún.

„Þá var farið í að leggja upp viðgerðarplan sem er mjög flókið því það þarf að gera þetta allt eftir kúnstarinnar reglum. Það var fenginn ráðgjafi frá Englandi sem lagði línurnar og síðan er þessi vinna búin að fara fram í tveimur aðalatrennum. Núna er henni eiginlega alveg lokið. Flateyjarbók er komin í sitt nýja band og þess vegna ætlum við að halda þetta málþing.“

Hvað kostaði handritið?

„Auðvitað er Flateyjarbók fræg fyrir að innihalda merkilega texta, sögur af Noregskonungum og margt fleira. En á þessu málþingi ætlum við ekki að tala um textana heldur um handritið sem grip. Þarna verður auðvitað fjallað um viðgerðina. Forvörðurinn Vasare Rastonis ætlar að tala um hana. En svo verður líka fjallað um bókfellið, skinnið í handritinu og litarefni og lýsingar.“

Jiri Vnoucek, annar forvörður sem vann að viðgerðinni en starfar annars á Konunglega bókasafninu í Kaupmannahöfn, mun tala um bókfellið og doktorsnemi í sagnfræði, Lea Pokorny, mun fjalla um litina í verkinu, litarefnið og lýsingarnar. Trésmiðurinn Ketill Guðfinnsson mun síðan flytja erindi um þátt trételgju af Hornströndum í viðgerð Flateyjarbókar.

Þá verður fjallað um sögu handritsins eftir að það fór frá Íslandi á 17. öld og var í Konungsbókhlöðu. Þar var það lengi geymt áður en það kom aftur heim 1971. Daninn Johnny Finnssøn Lindholm kannaði sögu handritisins í Kaupmannahöfn. „Hann fór í skjalasöfnin í Kaupmannahöfn til þess að reyna að finna út hvenær þessu handriti var skipt í tvær bækur, því þegar það kom hingað til lands aftur var það í tveimur bindum og okkur langaði svo að vita hvort bókin hefði verið í tvennu lagi þegar hún fór til Danmerkur eða hvort þetta hefði gerst þar. Svo það var spurning sem hann var að leita svara við.“

Hagfræðingurinn Daði Már Kristófersson mun velta fyrir sér kostnaðinum við gerð Flateyjarbókar, þar sem það þurfti skinn af ótal kálfum og alls kyns fín litarefni. „Daði ætlar að velta fyrir sér hversu massív fjárfesting þetta var að láta útbúa svona bók, hvað kostaði það eiginlega mikið.“

Alþjóðleg bylgja

Svanhildur segir að sérstakur áhugi sé um þessar mundir á efnislegum rannsóknum á handritum. „Þó auðvitað haldi textarnir áfram að vera mikilvægir og fólk rannsaki þá þá hefur orðið mikil vakning undanfarna áratugi í því að skoða þessa heild sem handrit eru og einmitt að reyna að skilja efnahagslegar forsendur fyrir gerð þeirra. Og líka að skilja betur af hverju þau líta út eins og þau líta út. Það er ótrúlega heillandi svið og við erum mjög glöð að vera þátttakendur í alþjóðlegri bylgju.“

Svanhildur opnar sjálf málþingið með inngangsorðum um handritið og Guðrún Nordal, forstöðumaður Árnastofnunar, mun flytja lokaorð. Erindin eru ýmist á íslensku eða ensku. Málþingingu verður streymt en nánari upplýsingar er að finna á vef Árnastofnunar, arnastofnun.is.

Höf.: Ragnheiður Birgisdóttir