Á sýningunni Petra Björnsdóttir með Elísu Petru, barnabarni sínu.
Á sýningunni Petra Björnsdóttir með Elísu Petru, barnabarni sínu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hannyrðakonan Petra F. Björnsdóttir á Egilsstöðum nýtir tímann vel og prjónar af kappi. „Ég sit ekki iðjulaus ein hér heima og alltaf er handhægt að hafa vettlinga á prjónunum,“ segir hún

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Hannyrðakonan Petra F. Björnsdóttir á Egilsstöðum nýtir tímann vel og prjónar af kappi. „Ég sit ekki iðjulaus ein hér heima og alltaf er handhægt að hafa vettlinga á prjónunum,“ segir hún.

Í tilefni 90 ára afmælis Petru 12. janúar sl. ákváðu dætur hennar, Jóna Pála og Björg, að setja upp sýningu á Egilsstöðum með verkum eftir hana í eigu fjölskyldunnar. Halla Ormarsdóttir, klæðskeri og hönnuður, var sýningarstjóri og skráðu um 400 manns sig í gestabókina. „Á sýningunni var allt sem ég hef unnið að og fjöldi fólks kom, meira að segja úr Reykjavík,“ segir hún. Fjölbreytnin var enda mikil. Sjá mátti útsaum, bæði dúka og myndir, sauðskinnsskó og leppa í þá, fléttaðar gjarðir og tauma með sylgjum, prjónavörur af ýmsu tagi og þar fram eftir götunum. „Dætur mínar geyma allt sem ég hef unnið fyrir þær og á börnin, henda því ekki, eins og nú er lenska,“ segir Petra.

Nafnaklútur gaf tóninn

Fyrsta handverk Petru var nafnaklútur, sem hún gerði átta ára gömul í heimsókn hjá ömmu sinni í Jökulsárhlíðinni. „Ég var heppin í barnaskólanum í Hlíðinni og fékk góðan kennara, Guðríði Guðmundsdóttur. Hún leiðbeindi mér strax með útsaum. Góðir kennarar eru gulls ígildi.“ Þaðan lá leiðin í Kvennaskólann á Löngumýri í Skagafirði. „Þar lærði ég heilmikið, bæði til handar og matar, meðal annars hjá Björgu Jóhannesdóttur.“ Eftir það var hún einn vetur á Akranesi og saumaði á saumaverkstæði hjá frænku sinni, Ingu Pétursdóttur. „Þar saumaði ég dragtir og kápur og kjóla.“

Eftir að þau Björn Þór Pálsson, sem lést 2012, rugluðu saman reytum sínum, stofnuðu heimili og eignuðust þrjú börn, dæturnar tvær og Björn Magna, sem andaðist fyrir um þremur árum, tók við prjóna- og saumaskapur fyrir fjölskylduna. „Þegar stelpurnar uxu úr grasi vildu þær alltaf fá ný föt eða eitthvað fallegt og ég saumaði á þær.“ Þess á milli vann hún ýmis störf utan heimilis, meðal annars sem matráðskona og í um þrjú ár hjá Prjónastofunni Dyngju. „Þegar ég varð gömul fór ég í handavinnu hjá eldri borgurum og þar fékk ég líka góðan kennara, Helgu Jónu Þorkelsdóttur, sem kenndi mér mikið.“ Nú prjónar hún bara heima en spilar bridds með eldri borgurum, gengur út með hund Bjargar, þegar veður leyfir, og mokar snjóinn frá útidyrunum, þegar þörf er á. „Ég fæ oft hjálp frá góðum höndum en heilsan er annars góð miðað við aldur.“

Eins og sýningin bar með sér hefur ekkert verið Petru óviðkomandi þegar hannyrðir eru annars vegar. Hún segir að handavinnan hafi alla tíð verið gefandi og leggur áherslu á að eitt hafi ekki verið skemmtilegra en annað. „Ég hef alltaf sagt að ég geri ekki upp á milli hlutanna. Ef ég get gert eitthvað sæmilega finnst mér gaman að eiga við það.“

Petra prjónaði um 100 vettlingapör á liðnu ári og fóru þau víða. Meðal annars voru mörg þeirra seld í Þjóðminjasafninu. „Ég er farin að safna fyrir þetta ár, en ég set mér engin markmið. Nú hugsa ég mest um heimsóknina til augnlæknisins míns í Reykjavík. Ekkert getur maður ef maður missir sjónina.“

Höf.: Steinþór Guðbjartsson