Aldrei hefur skráning í World Class-barþjónakeppnina verið eins mikil og nú. 73 keppendur skráðu sig til leiks frá 40 kokteilbörum. Ljóst er að keppninnar hefur verið beðið með eftirvæntingu en þrjú ár eru síðan hún var haldin síðast. World Class er ein stærsta og virtasta barþjónakeppni heims en fyrirkomulagið er þannig að haldin er vinnustofa þar sem virtur leiðbeinandi sér um kennslu og hafa þátttakendur tvær vikur að henni lokinni til að skila inn drykk þar sem þema vinnustofunnar er í forgrunni. Markmiðið er að vinna sér inn nógu mörg stig til að halda áfram í næstu vinnustofu sem fram fer í apríl. Að henni lokinni etja tíu stigahæstu þátttakendurnir kappi í lokakeppni sem fram fer í maí. Þar kemur í ljós hver keppir fyrir Íslands hönd í São Paulo í Brasilíu síðar á árinu.
Fyrsta vinnustofan fór fram nú á dögunum og það var Dennis Tamse frá Ketel One vodka sem sá um kennsluna. Þemað var sjálfbærni eða „Garnish for Good“ þar sem lögð var áhersla á að nota aðföng beint frá býli eða bæta samfélagið og hjálpa náunganum til að gera heiminn að betri stað. Vinnustofan fór fram á Héðni Kitchen&Bar og var mikill mannfjöldi mættur til að fylgjast með þrátt fyrir að veðrið léki gesti grátt.