Elísabet Karlsdóttir, aðstoðarleikskólastjóri í leikskólanum Bjarkalundi á Völlunum, segir margt spennandi og jákvætt að gerast í skólamálum í Hafnarfirði og bæjaryfirvöld eigi hrós skilið fyrir að sjá mikilvægi þess að bæta starfsskilyrði í skólum og jafna þau á milli leik- og grunnskólastigs.
„Nýtt fyrirkomulag á skólaári leikskóla hefur kallað á mikla skipulagsvinnu sem stendur enn yfir. Við sjáum alveg ákveðna kosti nú þegar en gerum okkur vel grein fyrir að þetta er langhlaup,“ segir Elísabet.
Hún segir mikla umræðu hafa átt sér stað í gegnum árin meðal leikskólakennara um samanburð við grunnskóla og t.d. á Bjarkalundi hafi fagfólk farið þaðan til starfa í grunnskólum. Þetta hafi gerst í mörgum leikskólum. Einkum hafi fólk viljað öðlast meiri frítíma og sveigjanlegri vinnutíma. Átak Hafnarfjarðar í að samræma þetta milli skólastiganna sé því mjög jákvætt og muni skila árangri með tímanum.
„Það er almennt búið að gera margt hér í Hafnarfirði til að bæta kjör kennara og starfsaðstæður í leikskólum. Þannig hefur Hafnarfjarðarbær til að mynda aukið við stjórnunarhlutfall aðstoðarleikskólastjóra og undirbúningstíma deildarstjóra, umfram það sem er í gildandi kjarasamningum,“ segir Elísabet. Hún segir það göfugt og gott markmið að laða fleira fagfólk til starfa og gott að bærinn upphugsi leiðir til þess. Einnig sé mikilvægt að hvetja ófaglærða starfsmenn til dáða, sem vilja auka við menntun sína og réttindi. Þannig takist að halda í gott starfsfólk og gera starfið í leikskólunum enn öflugra.
Næstu skref spennandi
Elísabet bindur miklar vonir við vinnu starfshóps sem bærinn skipaði til að skoða hvernig bæta megi vinnuumhverfið í skólunum fyrir starfsmenn og nemendur. Spennandi verði að sjá næstu skref í þeirri vinnu.
Elísabet hefur starfað á Bjarkalundi frá 2016, þegar skólinn tók til starfa á Völlunum. Áður var hún m.a. grunnskólakennari á unglingastigi.
„Ég lít fyrst og fremst á mig sem kennara og geri ekki greinarmun á stigunum. Mér finnst leikskólinn frábært skólastig, gaman að sjá börnin vaxa og dafna. Þau læra eitthvað nýtt á hverri mínútu. Starfið okkar er sveigjanlegt. Við getum mætt hverju barni mjög vel þar sem færri börn eru á hvern kennara en í grunnskólanum,“ segir Elísabet og bætir við aðspurð að hún sé ekki á leið aftur til starfa í grunnskóla. „Ég hef fundið mína fjöl í leikskólastarfinu.“