Gunnlaugur Snær Ólafsson
gso@mbl.is
Leyfissviptingar Fiskistofu vegna brottkasts á undanförnum misserum í kjölfar eftirlits með dróna hefur vakið athygli og sitt sýnist hverjum um aðferðir stofnunarinnar. Útgerðaraðilar sem blaðamaður hefur rætt við, en vilja ekki gagnrýna Fiskistofu opinberlega, furða sig sumir á því hvort verið sé að refsa mönnum fyrir að losa sig við ónýtan fisk og afránsfisk, t.d. fisk úr meltingarvegi veidds þorsks.
„Meginreglan er að brottkast er bannað […] en frá brottkastsbanninu eru örfáar undantekningar sem eru tilteknar í reglugerð um afla og aukaafurðir,“ segir í svari Fiskistofu við fyrirspurn er sneri að löndunarskyldu fisks úr meltingarvegi fiska og fisks sem er ekki í söluhæfu ástandi.
Bent er á að í ákvæði laga um umgengni um nytjastofna sjávar segir: „Komi afli í veiðarfæri fiskiskips sem er selbitinn eða skemmdur á annan hátt og sem ekki er unnt að komast hjá við tilteknar veiðar, skal ekki reikna þann afla til aflamarks skipsins. Þessum afla skal haldið aðskildum frá öðrum afla skipsins, hann veginn og skráður sérstaklega. Afla þennan er eingöngu heimilt að nýta til bræðslu.“
Leyfilegt er þó að varpa fyrir borð fiskitegundum sem ekki eru háðar takmörkunum á leyfilegum heildarafla, sem og innyflum, hausum og öðru slíku sem fellur til við verkun og vinnslu afla.
„Þannig er gert ráð fyrir því í regluverkinu að afli geti verið skemmdur en aðilum er gert að skrá og landa aflanum og einungis er hægt að senda þann afla í bræðslu. Benda má á að þetta ákvæði kom í lög og reglugerð á undan VS-aflaleiðinni og hefur VS-aflinn í raun tekið við af þessu ákvæði nema í sérstökum tilfellum. Í framkvæmd er það þannig að eftirlitsmaður getur metið afla skemmdan þegar verið er í veiðiferð eða ef afli mengast og er óhæfur til nýtingar og er það þá staðfest af eftirlitsmanni,“ segir í svarinu.
Bendir Fiskistofa á að það sé talsvert um að skemmdur afli sé skráður sem VS-afli. „Ef afli selst ekki eða ef fiskmarkaður metur hluta af VS-afla óseljanlegan getur viðkomandi verið í sambandi við Fiskistofu um að skrá þann hluta sem skemmdan og dregst hann þá ekki frá VS-heimildum viðkomandi skips. Örfá tilfelli af slíku hafa komið upp.“