Til stendur að gera framhald á hinum sígildu gamanþáttum Fawlty Towers sem sýndir voru upphaflega á sjónvarpsstöð breska ríkisútvarpsins, BBC2, á árunum 1975 og 1979 og einnig á RÚV.
John Cleese mun sem fyrr leika hóteleigandann vitgranna Basil Fawlty og mun hann skrifa handrit þáttanna nýju með dóttur sinni Camillu, að því er fram kemur á vef BBC.
Í þáttunum gömlu sagði af hjónum sem reka saman hótel, þeim Basil og Sybil, og gekk iðulega allt á afturfótunum út af heimskulegum ákvörðunum eiginmannsins. Í framhaldsþáttunum fyrirhuguðu verður Basil í aðalhlutverki og þarf hann að takast á við samtímann með sínum einstaka hætti. Mun hann reka gistiheimili með dóttur sinni sem verður þá líklega leikin af dóttur Cleese, Camillu fyrrnefndri.