Kattliðug Þórunn leggur mikið upp úr því að halda skrokknum í lagi, en ekki síður huganum.
Kattliðug Þórunn leggur mikið upp úr því að halda skrokknum í lagi, en ekki síður huganum. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég er víðóma og sagnfræðin hefur gert mig sterka, ég sé í gegnum hugmyndasöguna og get rakið allt bullið og vitleysuna. Ég er loksins búin að fatta eitt og annað, einhvern kjarna, og þá datt mér í hug að skrifa pínulitla bók með hugleiðingum um það…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég er víðóma og sagnfræðin hefur gert mig sterka, ég sé í gegnum hugmyndasöguna og get rakið allt bullið og vitleysuna. Ég er loksins búin að fatta eitt og annað, einhvern kjarna, og þá datt mér í hug að skrifa pínulitla bók með hugleiðingum um það litla sem lífið hefur kennt mér,“ segir Þórunn Jarla Valdimarsdóttir rithöfundur og sagnfræðingur en í dag kemur út Lítil bók um stóra hluti, sem hún er höfundur að. Þar tekst Þórunn með sínum hætti á við stórar spurningar, ýmist stríðin, blíð, alvörugefin, ögrandi eða frumleg. Hún fjallar þar um „hlutskipti okkar mannanna og framferði á jörðinni, innblásin af tilvistarheimspeki og sagnfræði, náttúrulífsmyndum og eigin lífsreynslu sem kona, fræðimaður, rithöfundur, móðir, eiginkona, skáld og manneskja. Hún fjallar líka um ræktun sálarinnar og orkustöðvar líkamans, kynlíf og önnur ástarsambönd okkar, Guð, vísindi og Tilveru, fjarveru og nánd – og „ævintýrið að vera maður“,“ eins og segir á bókarkápu.

„Ég skrifaði þessa bók af því mér þykir vænt um lífið og jörðina, steinaríkið og fólk. Mér finnst alveg hryllilegt hvað við erum mannmiðjuð í nútímanum, að við skulum ekki vera komin yfir í að skynja öll dýr sem skynmiðjur. Þetta gerist því miður hægt og sama er að segja um viðbrögð okkar við hamfarahlýnun, við viljum öllu halda en engu sleppa, við viljum eiga bíla og halda áfram að fljúga um allan heim.“

Einvera pínir mig til að hugsa

Bók Þórunnar er bland af almennum hugleiðingum og persónulegum. Meðal annars kemur hún inn á sorgina og einveruna, hvernig hún tókst á við að venjast því að vera ein eftir óvæntan missi eiginmanns, Eggerts Bernharðssonar, fyrir nokkrum árum.

„Ekki var það átakalaust en ég hef lært að njóta þess að vera ein. Ég er þakklát fyrir alla þessa dásamlegu miðla, til dæmis fésbók sem opnar gáttir út í samfélagið og gefur færi á rafrænum samskiptum við fólk. Ef ég á erfitt með svefn þá segi ég stundum við sjálfa mig: Mikið er ég heppin að vera andvaka inni í svona skemmtilegri manneskju,“ segir Þórunn og hlær. „Einveran pínir mann til að hugsa, og það er gott. Ég hefði aldrei skrifað þessa bók ef ég hefði ekki verið ein og þurft að hugsa.“

Umskurður hugarfarsins

Að eldast er eitt af því sem Þórunn fjallar um í bókinni litlu, en hún verður sjötug á næsta ári.

„Ég er ekkert gömul, svo ég legg til nýtt hugtak, að við tölum um síðaldra fólk en ekki gamalt, ekki fyrr en það er orðið háaldrað. Fólk þarf að hætta að hugsa að það sé komið á grafarbakkann þótt talan hækki. Þótt ekki séu allir svo heppnir að fá að eldast, þá fleygir læknavísindum fram og sjötugt fólk gæti átt eftir fjölda ára. Við þurfum líka að hætta að vera með fordóma gagnvart eigin hækkandi aldri, fögnum því frekar að fá að lifa. Maður er jafn sætur og manni finnst sjálfum, hrukkur og annað skipta engu máli. Karlar vilja ekki leiðinlegar kerlingar, og þeim er miklu meira sama en við höldum um snoppufríðleika og önnur smáatriði varðandi líkamann. Mér finnst æðislegt að eldast, því fylgir slökun, en við þurfum vissulega að vera dugleg að hreyfa okkur, litlu æðarnar í líkamanum skipta öllu máli. Stress er mesti óvinurinn á öllum aldri, ungt fólk með börn er undir miklu álagi, ekki aðeins vegna barnauppeldis heldur líka vegna starfsframa, kynjabaráttu og annars. Flestir læra ósjálfrátt þegar þeir verða síðaldra að draga saman seglin til að draga úr streitu. Öllu máli skiptir að halda í gleðina með hækkandi aldri, ekki hleypa gremjunni að. Þetta er umskurður hugarfarsins, að tileinka sér jákvætt hugarfar, því það er þreyta á öllum æviskeiðum, við þurfum bara að muna eftir að hvíla okkur. Ekkert mark er takandi á haus okkar og hugsunum þegar við erum þreytt.“

Biblían er mannanna verk

Þórunn fjallar í litlu bókinni heilmikið um kristna trú og áhrif hennar á okkur mannfólkið og umhverfið.

„Ég bæði elska kirkju og hata. Við Íslendingar höfum alltaf haft einn góðan Guð, hvort sem við erum heiðin eða kristin, en það er sá Guð sem kemur þegar snjóflóð fellur, hafís leggst að landi eða aðrar náttúruhamfarir ríða yfir,“ segir Þórunn og bætir við að það hafi galopnað hana á sínum tíma að skrifa um kristni á Íslandi.

„Ég skrifaði um nítjándu öldina með Pétri Péturssyni í einni af fjórum bókum sem Alþingi gaf út. Upp úr því fékk ég ofboðslegan áhuga á Matthíasi Jochumssyni og ég skynjaði hvað hann var mikill uppreisnarmaður og bjargaði kristinni trú hér á landi. Matthías var sigldur og hann galopnaði íslenska kristni með því að segja okkur og nýguðfræðingunum sem tóku við af honum, að Biblían er mannanna verk. Hann missti næstum hempu fyrir að segja að útskúfunarlærdómurinn ljóti væri þvættingur, og að það væri þvættingur að börn færu í limbó í helvíti ef þau væru ekki skírð fyrir dauðann, enda er viðbjóður að telja fólki trú um slíkt. Þetta er allt saman táknmál og ef það er einhvers staðar helvíti, þá er það í lífinu, en í lífinu er líka himnaríki,“ segir Þórunn og bætir við að smám saman hafi hún séð hversu eðlilegt það var að Ísendingar tóku fagnaðarerindið um eilíft líf alvarlega.

„Fólk hafði mikla þörf fyrir það, af því lífið var svo stutt hér áður, meðalaldur var ekki hár, mikið um barnadauða og hungurdauða. Þá var fagnaðarerindið um eilíft líf dásamlegt. Mér finnst það reyndar enn dásamlegt, að við sjálf og ástvinir okkar förum inn í ljósið. Ég og mín kynslóð erum heppin að hafa fengið kristið uppeldi, því á örvæntingarstundum getum við gripið til þess. Það er misskilningur hjá fólki að halda að það þurfi ekki á trú að halda, það hefur þá ekki lent í neinu. Ekki gera börnum það að láta þau fara á mis við trúarlegt uppeldi, allir þurfa þennan kjarna til sálarheilla.“

Kynferðisleg bæling og skömm

Þórunn segir að kirkjufeður hafi á sínum tíma bannað útburð stúlkubarna, því hann var í grófri mótsögn við kenningu Krists. „Fyrir vikið getum við sagt að það sé að einhverju leyti Kristi að kenna að jörðin er troðfull af fólki og aðrar tegundir að deyja út,“ segir Þórunn og bætir við að kynferðisleg bæling kristninnar hafa farið af stað við bannið á útburði stúlkubarna.

„Þá þurfti að búa til allar þessar ströngu reglur í kynlífi til að sporna við of miklum mannfjölda, því ef vel áraði eignuðust hjón kannski fimm dætur sem svo eignuðust aðrar fimm dætur, og þá var hreppurinn fullur og komið stríð,“ segir Þórunn og bætir við að kynferðislega bælingin og skömmin sé komin svo djúpt í okkur að við séum enn að vinda ofan af.

„Ýmislegt gott hlaust þó af því að kirkjan setti á einkvæni, þá fengu miklu fleiri karlar konu. Þannig séð er kristnin ótrúlega væn fyrir mjúka manninn, þann sem er ekki bardagavera og ekki yfirgangssamur. Þannig er kristnin með sérhannað hugmyndafræðikerfi til að lyfta mjúka karlinum. Eftir 2.000 ár fór loksins að koma að okkur konum.“

Konur berjast um karlana

Þórunn segir að í öllum spendýraheimi komist aðeins eitt af hverjum fjórum karldýrum í kvendýr. „Við konur höfum því í einkvænissamfélagi neyðst til að berjast um þessa karla. Svo má ekki einu sinni fá þá lánaða, þessa fráteknu,“ segir hún og hlær. „Ætli ég verði ekki drepin fyrir að segja þetta. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar fólk heldur að það eigi maka sína. Í kringum hvert einasta lauslæti eða framhjáhald fer af stað hatursbatterí, en ef slíkt batterí hjaðnar og fólk hættir að trúa að það eigi maka sína, þá kannski verður það betra hvert við annað.“

Þórunn segir góðan grunn í bernsku skipta öllu máli. „Ég var svo lánsöm að fyrstu tvö árin í lífi mínu voru átta manns að hossa mér á mínu heimili, foreldrar mínir, amma og afi, tveir föðurbræður og tvö eldri systkini mín. Allir voru að kjassa mig og fyrir vikið varð ég troðfull á trú á sjálfa mig og lífið. Vísindin hafa sýnt fram á að atlætið fyrstu árin leggur grunn að manneskju út hennar líf. Mér finnst merkilegt að viðbrögð við andlegum sárum og líkamlegum eru á sama stað í heilanum. Að hlúa að andlegri heilsu skiptir miklu máli. Rannsóknir hafa sýnt að skortur á ástúð skaðar kanínur meira en hungur. Þetta á augljóslega líka við um spendýrin mannfólk.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir