Aðgerð Lovísa Thompson þarf á aðgerð að halda til að fá bót meina sinna vegna langvarandi meiðsla en hún stefnir nú á næsta tímabil.
Aðgerð Lovísa Thompson þarf á aðgerð að halda til að fá bót meina sinna vegna langvarandi meiðsla en hún stefnir nú á næsta tímabil. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Heilsan er góð. Þegar þú ert búinn að átta þig á hlutunum er það ákveðinn léttir, þannig að heilsan er góð,“ sagði Lovísa Thompson, ein fremsta handknattleikskona landsins undanfarin ár, í samtali við Morgunblaðið

Handbolti

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

„Heilsan er góð. Þegar þú ert búinn að átta þig á hlutunum er það ákveðinn léttir, þannig að heilsan er góð,“ sagði Lovísa Thompson, ein fremsta handknattleikskona landsins undanfarin ár, í samtali við Morgunblaðið. „Það getur verið pirrandi að vera í sömu hringiðunni svona lengi, en svo er þungu fargi af manni létt þegar maður fær niðurstöðu,“ bætti hún við.

Lovísa hefur verið að glíma við óljós meiðsli í hásin í nokkurn tíma sem hafa aftrað henni töluvert. Nú er eðli meiðslanna komið í ljós og getur hún loksins fengið bót meina sinna. Lovísa verður hins vegar frá keppni í 5-8 mánuði vegna meiðslanna.

„Það er lítil beinflís úr hælfestunni sem er að erta hásinina. Þegar ég labba og hleyp ýtir hún í hásinina og þá finn ég fyrir verkjum. Út frá því hefur myndast krónísk bólga sem er þykk og mikil. Þegar þetta tvennt fer saman í fætinum er lítið pláss fyrir annað. Það myndast mikill þrýstingur, sem er mjög sársaukafullt,“ sagði landsliðskonan, sem er 23 ára. Hún er uppalin hjá Gróttu en hefur verið samningsbundin Val frá árinu 2018. Varð hún Íslandsmeistari með Gróttu árin 2015 og 2016 og árið 2019 með Val.

Dýrkeypt útihlaup í Covid

Meiðslin byrjuðu á meðan kórónuveiran setti stórt strik í reikninginn á íþróttalífi hér á landi og ekki mátti æfa eða spila handbolta.

„Þetta byrjaði þegar við vorum alltaf að hætta og byrja aftur í Covid. Þá vorum við mikið í útihlaupum í vetrarkuldanum hérna heima. Svo er maður alltaf með mikinn metnað og ég ætlaði mér alls ekki að vera í lélegu formi þegar við byrjuðum aftur. Ég æfði vel, en það var óvissa um hvenær ég myndi spila handbolta næst. Það var mikið álag á þeim tíma og ég byrjaði að finna fyrir meiðslunum þá,“ útskýrði Lovísa og hélt áfram:

„Ég er búin að spila og æfa í gegnum þetta í mjög langan tíma. Ég hef alltaf náð að halda þessu niðri, en það hefur verið erfitt. Ég vaknaði mjög stíf á morgnana þegar ég var búin að taka vel á því á æfingum eða leikjum. Ég rúllaði kálfana og iljarnar á morgnana og fór í göngutúr bara til að hita upp. Þetta var alls ekki eðlilegt, en einhvern veginn þrjóskaðist ég við að halda áfram.“

Þar sem meiðslin hafa versnað með tímanum er ljóst að Lovísa þarf á aðgerð að halda til að fá bót meina sinna. „Fyrst þegar ég fékk fréttirnar ætlaði ég að reyna að vera í sjúkraþjálfun til að halda þessu niðri en eftir segulómun kom í ljós að þetta leit verr út en við héldum. Eina í stöðunni var þá að fara í aðgerð,“ sagði hún. Fyrir vikið verður skyttan ekki með á þessu tímabili en vonast til að vera orðin klár þegar næsta tímabil hefst.

„Það er svo breitt bil hversu langan tíma þetta getur tekið. Þetta getur verið allt frá fimm mánuðum og upp í átta. Svo fer þetta eftir því hversu vel þetta grær og hve vel endurhæfingin gengur. Ég vonast til að geta byrjað að spila á næsta tímabili, en við sjáum hvað gerist.“

Erfitt í Danmörku

Gróttukonan uppalda er samningsbundin Val, en viðurkennir að ákveðin óvissa ríki á meðan hún jafnar sig á meiðslunum.

„Ég veit ekki hvernig það verður. Ég er samningsbundin en svo veit ég ekki hvernig endurhæfingin fer og hvort það verður áhugi fyrir hendi. Ég hef ekki grænan grun. Ég tek mikið einn dag í einu og ég ætla að sjá til. Ég hef samt fengið mjög mikinn stuðning frá Val og ég á þeim mikið að þakka. Þau hafa alltaf verið góð við mig og það er mjög gott samband þar á milli.“

Lovísa gerði lánssamning við danska félagið Ringkøbing, sem leikur í úrvalsdeildinni í Danmörku, í maí á síðasta ári en þeim samningi var rift fimm mánuðum seinna. Lovísa sagði sig og félagið ekki hafa verið á sömu braut og samskiptin þeirra á milli ekki eins og best verður á kosið.

„Þetta var sérstaklega erfitt þegar ég kom heim frá Danmörku. Það var mjög leiðinlegt. Við klúbburinn náðum ekki nógu vel saman og það voru samskipti okkar á milli sem gerðu það að verkum að ég vildi ekki vera þarna lengur. Mér finnst engin skömm að því.

Bregðast sjálfri mér

Fólk veit ekki hvað gerðist, en mér finnst fyndið að fólk sé að segja að maður hafi ekki viljað þrauka þarna. Það er eðlilegt þegar maður tjáir sig ekki um þetta. Það eru alltaf forsendur á bak við allt og þeir sem þekkja mig vita að ég gefst ekki auðveldlega upp,“ sagði Lovísa. Hún er mjög ánægð með þá ákvörðun í dag að hafa yfirgefið Ringkøbing.

„Mér fannst ég aðeins bregðast sjálfri mér þegar ég tók þessa ákvörðun. Í dag gæti ég hins vegar ekki verið fegnari, því núna veit ég líka að ég er búin að vera meidd allan þennan tíma og ég hefði ekki getað beitt mér 100 prósent. Það er eitt af því sem angraði mig á meðan ég var úti. Ég var ekki 100 prósent,“ sagði hún.

Galið að fara til Noregs

Tveimur mánuðum eftir að samningnum í Danmörku var rift var tilkynnt að Lovísa hefði gert samning við norska úrvalsdeildarfélagið Tertnes. Meiðslin héldu hins vegar áfram að hrjá hana, með þeim afleiðingum að hún spilaði aldrei með liðinu og hélt heim til Íslands.

„Í Noregi var þetta svolítið ég að vera ævintýragjörn, ekki alltaf að vera inni í kassanum og prófa eitthvað nýtt. Eftir á að hyggja var það smá galið að fara út til Noregs, en þar sem þau buðu mér að koma ákvað ég að slá til,“ sagði hún.

Hún segir forráðamenn norska félagsins hafa sýnt stöðunni mikinn skilning, en forráðamenn Ringkøbing virðast hafa sýnt henni minni skilning. Lovísa hafði í það minnsta ekki mikinn áhuga á að rifja upp samskipti sín og danska félagsins.

„Í Danmörku voru þetta samtöl tveggja aðila, en ég var ekki í því samtali. Það er eflaust erfitt fyrir fólk að skilja það. Það fór eins og það fór og ég nenni ekki einu sinni að útskýra það, því það er langt síðan, búið og gert.

Í Noregi var mikill skilningur og það var minnsta málið. Aðstæðurnar þar voru frábærar og mér leist rosalega vel á þann klúbb og að búa í Bergen. En ég vildi ekki vera þarna ef ég gat ekki beitt mér 100 prósent. Ég fann það eftir að hafa verið þar í viku að fóturinn öskraði nei. Þá kom skynsemisröddin í fyrsta skipti og sagði mér að þetta þyrfti að bíða betri tíma,“ útskýrði hún.

Fín núllstillling

Þótt fyrstu tilraunirnar til að fara í atvinnumennsku hafi ekki gengið eftir og glíma við erfið meiðsli er Lovísa ekki af baki dottin. Hún ætlar sér fleiri afrek á handboltavellinum.

„Þetta er fín núllstilling. Ég finn alveg fyrir áhuga og vilja fyrir því að vera í handbolta. Þetta er smá skref til baka til að taka tvö skref áfram. Ég á enn eftir að ná ákveðnum markmiðum. Í mínum draumi á ég eftir að spila úti í að minnsta kosti eitt tímabil og svo vil ég hjálpa liðum að vinna titla, hvort sem það verður lands- eða félagslið, því það er rosalega gaman. En eins og staðan er í dag er þetta bara einn dagur í einu og snýst um að ná sér af þessum meiðslum.“

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson