Norður
♠ G105
♥ DG7
♦ ÁKD10
♣ G86
Vestur
♠ KD4
♥ 10954
♦ G872
♣ 43
Austur
♠ Á987
♥ 2
♦ 954
♣ K10972
Suður
♠ 632
♥ ÁK863
♦ 63
♣ ÁD5
Suður spilar 4♥.
Strax daginn eftir bridshátíð var slegið upp alþjóðlegu æfingamóti fyrir íslenska landsliðshópinn. „Þetta tók dálítið á,“ sagði einn úr hópnum við kassann í Bónus nokkru síðar. „Fyrst fjórir dagar í Hörpu og svo tveir dagar í Hraunseli.“
„Jájájá. Það kostar klof að ríða röftum. Þú getur hvílt þig í vinnunni.“ Gölturinn hefur litla samúð með þreyttum spilurum. En hann skildi Sigurbjörn Haralds vel í þessu spili æfingamótsins. Bessi varð sagnhafi í 4♥. Vörnin tók fyrst þrjá slagi á spaða og svo spilaði austur laufi í gegn. Bessi stakk upp ás og treysti á að tígulgosinn kæmi niður í þrjá efstu eða að sami mótherji ætti laufkóng með tígulvaldinu. Líkur á slíku eru í kringum 70%, segja sérfræðingar, sem er auðvitað töluvert betra en 50% svíning. „Right in theory, wrong in practice,“ eins og Billy Eisenberg sagði gjarnan þegar hann tapaði spili.