Heimsókn Erdogan forseti Tyrklands fór á jarðskjálftasvæðin í Kahramanmaras í Suðaustur-Tyrklandi í gær. Tyrknesk yfirvöld hafa legið undir ámæli fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við hamförunum í landinu.
Heimsókn Erdogan forseti Tyrklands fór á jarðskjálftasvæðin í Kahramanmaras í Suðaustur-Tyrklandi í gær. Tyrknesk yfirvöld hafa legið undir ámæli fyrir að hafa ekki brugðist nógu hratt við hamförunum í landinu. — AFP/Adem Altan
Meira en 90 prósentum þeirra sem lifa af jarðskjálfta er bjargað á fyrstu þremur dögunum, að sögn Ilans Kelmans, prófessors í slysa- og heilsufarsfræðum við University College-skólann í Lundúnum, en í dag eru þrír dagar liðnir frá því að fyrsti…

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Meira en 90 prósentum þeirra sem lifa af jarðskjálfta er bjargað á fyrstu þremur dögunum, að sögn Ilans Kelmans, prófessors í slysa- og heilsufarsfræðum við University College-skólann í Lundúnum, en í dag eru þrír dagar liðnir frá því að fyrsti stóri skjálftinn reið yfir Tyrkland í yfirstandandi hrinu. Rúmlega 12.000 manns hafa látist og þúsundir slasast. Fleiri þættir hafa áhrif, svo sem veður, samgöngur og hraði björgunaraðgerða, allt þættir sem vinna gegn björgunarstarfinu á hamfarasvæðunum. Kelman bendir á að lykilatriði sé að ná fólki sem fyrst úr rústunum, áður en aðrir ytri þættir eins og ofkæling eða vatnsskortur geti dregið það til dauða.

Dýrt að sinna ekki forvörnum

Það tekur að jafnaði minnst 24 klukkustundir fyrir alþjóðlegar björgunarsveitir að koma á staðinn, koma sér fyrir og hefja störf segir Kelman. „Þá gætu margir þeirra sem hefðu getað lifað af þegar hafa farist,“ segir Kelman. Sérstakir björgunarhundar eru nú á leiðinni frá Mexíkó, en þeir hafa reynst mjög öflugir í að finna fórnarlömb í rústum.

Einnig er hægt að nota dróna og vélmenni við að komast að svæðum sem fólk kemst illa að. Í alþjóðlegum björgunaraðgerðum á borð við þær sem gripið er til í Tyrklandi og Sýrlandi kostar það að meðaltali eina milljón bandaríkjadala á hvert mannslíf sem er bjargað segir Kelman. „Ef við sæjum jafn miklar fjárfestingar í hamfaravörnum og við erum að sjá í hamfaraviðbrögðum værum við ekki í þessari stöðu.“

Forseti Tyrklands, Recep Tayyip Erdogan, heimsótti tvö héruð í Tyrklandi í gær sem verst urðu úti, en stjórnvöld hafa legið undir ámæli fyrir að bregðast ekki nógu hratt við. Hann viðurkenndi að ekki hefði verið brugðist nógu hratt við en hét því að setja miklu meiri kraft í aðstoðina til að hjálpa fórnarlömbunum. „Það er ekki hægt að vera búinn undir hamfarir eins og þessar,“ sagði hann í heimsókninni í Hatay-hérað, sem er nálægt upptökum skjálftanna.

Í kjölfar heimsóknar Erdogans á hamfarasvæðin var samfélagsmiðlinum Twitter lokað hjá öllum helstu farsímaveitum Tyrklands, en þar hafði mikil gagnrýni komið fram á viðbrögð stjórnvalda við jarðskjálftunum. Fréttamenn AFP sögðu að einungis væri hægt að komast á miðilinn með VPN-þjónustum sem dulbyggju staðsetningu viðkomandi. Talið er að lokun Twitter geti haft áhrif á björgunarstarfið því miðillinn hefur verið mikið notaður til að senda skilaboð um þarfir fórnarlamba skálftanna. Auk þessa hefur tyrkneska lögreglan fangelsað 18 manns vegna neikvæðs umtals á samfélagsmiðlum um viðbrögð stjórnvalda.

Heilbrigðiskreppa í sjónmáli

Frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni WHO kom viðvörun í gær um að heilbrigðiskreppa í kjölfar skjálftans gæti orðið enn verri en skjálftarnir sjálfir. Nú væri kapphlaup við tímann að bjarga fólki úr rústunum og ekki síður að halda því síðan á lífi. „Við erum með fullt af fólki sem hefur lifað af núna úti á víðavangi, í versnandi og hræðilegum aðstæðum,“ útskýrði Robert Holden, framkvæmdastjóri jarðskjálftasviðs stofnunarinnar, á blaðamannafundi í Genf í gær og sagði að skortur á aðgengi að vatni, eldsneyti, rafmagni og fjarskiptum væri gríðarlegt vandamál þeirra sem hefði verið bjargað. Michael Ryan neyðarstjóri WHO sagði langvarandi áfallahjálp fyrir fórnarlömb jarðskjálftanna nauðsynlega. „Sálræna álagið sem þessi samfélög hafa gengið í gegnum á síðustu 60 klukkustundum mun lifa með þeim næstu 60 ár.“

Höf.: Dóra Ósk Halldórsdóttir