Kolbrún Ingólfsdóttir fæddist í Vestmannaeyjum 22. október 1938. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar á Landspítalanum 31. janúar 2023.

Foreldrar hennar voru Ingólfur Símon Matthíasson skipstjóri, f. 17. desember 1916, d. 18. október 1999, og Pálína Ingibjörg Björnsdóttir, f. 12. maí 1918, d. 4. júní 1990. Systkini Kolbrúnar eru Ægir Rafn Ingólfsson, f. 12. nóvember 1948, og Inga Dís Ingólfsdóttir, f. 26. nóvember 1960.

Börn Kolbrúnar eru: 1) Birna Dögg Gränz, f. 4. janúar 1969, gift Sigurjóni Frey Valberg, f. 24. apríl 1974, dætur þeirra eru Guðrún Lind og Ólöf María, f. 18. mars 2010, fyrir átti Birna dótturina Kolbrúnu Evu Gränz sem er í sambandi með Jóni Otta Antonsyni, f. 8. september 1997. 2) Carl Gränz, f. 17. desember 1969, giftur Guðrúnu Ósk Gunnarsdóttur, f. 17. desember 1974, og saman eiga þau börnin Ólaf Carl, f. 22. október 1998, í sambandi með Kötlu Margréti Aradóttur, f. 22. febrúar 2000, Ingva Davíð, f. 13. október 2001, Guðna Hlyn, f. 12. maí 2003, og Bjarnveigu Söru, f. 1. janúar 2011. 3) Sonja Gränz Ólafsdóttir, f. 4. október 1971, gift Sigurði Ólafssyni, f. 9. ágúst 1973, saman eiga þau börnin Ágúst Óla, f. 16. desember 1996, í sambúð með Sólborgu Guðbrandsdóttur, f. 15. nóvember 1996, og Rut, f. 28. júlí 2000, í sambandi með Adam Snæ Benediktssyni, f. 27. október 2000. Barnabarn Emil Óli Ágústsson, f. 27. mars 2018.

Útförin fer fram frá Hvítasunnukirkjunni Fíladelfíu í dag, 9. febrúar 2023, klukkan 13.

Elsku mamma, ég trúi því ekki að þú sért farin frá okkur og ég muni ekki eiga fleiri símtöl við þig á leiðinni heim úr vinnu eins og ég gerði svo oft. Ég er oft búin að taka upp símann til að segja þér frá einhverju en fatta svo að það svarar enginn. Það er svo sárt að hugsa til þess að þú sért ekki hjá okkur lengur og ekki hægt að kíkja í heimsókn og stelpurnar mínar geti ekki fengið knús í ömmufaðmi sem þær elskuðu svo mikið allar þrjár. Kolbrún Eva mín átti svo einstaka tengingu við nöfnu sína og svo bjuggum við mæðgur hjá þér í tæpt ár, sem styrkti ennþá betur tenginguna. Mér er svo minnisstætt þegar þú leyfðir henni fimm ára að skreyta jólatréð með þér og þú skreyttir svo guðdómlega fallega. Ég spurði þig „ertu viss mamma að þú viljir að hún hjálpi þér“ og fékk svarið „þetta verður bara svona kósístund hjá okkur nöfnunum“. Ég skildi þær eftir. Þegar ég kem aftur þá er Kolbrún Eva sofnuð og mamma horfir á jólatréð. Þar var mikið skraut öðrum megin og neðarlega og lítið annars staðar og alls konar skraut, ekki bara gull og rautt eins og þú hafðir svo lengi. Þú fórst að laga það aðeins til; tókst ekki allt fígúruskrautið af en breyttir aðeins og gerðir að fallegu tré. Mín skotta var nú fljót að sjá það daginn eftir og var ekki sátt, en þú náðir að snúa henni á svo fallegan hátt og þið hreyfðuð aðeins við og elsku mamma þurfti að lifa við það að horfa á „ekki“ fallegasta jólatré þessi einu jól! Þetta sýnir svo vel hvað mamma var yndisleg og gerði allt fyrir okkur og barnabörnin sín sem hún elskaði svo mikið og var einstaklega stolt af.

Í hvert einasta skipti sem ég fór í foreldraviðtal heyrði ég í ömmu og alveg sama hvað var í gangi hjá skottunum mínum, þá var hún svo stolt af barnabörnunum sínum og sagði „þetta eru nú meiri snillingarnir“.

Mamma var minn styrkur og stoð í lífinu og var alltaf til staðar fyrir mig, alveg sama hvað var í gangi. Hún stóð með mér í blíðu og stríðu á meðan ég var að feta mig áfram í lífinu og fyrir það verð ég henni ævinlega þakklát. Hjarta úr gulli var einkenni mömmu, hún var ekki einungis boðin og búin fyrir okkur systkinin, tengdabörn, barnabörn eða barnabarnabörn heldur bara alla í kringum sig og gerði það svo vel.

Það var svo yndislegt að geta átt stundir með mömmu þessar vikur áður en hún lést, hún ætlaði sko að verða 90 ára sagði hún við okkur. Við vorum svo lánsöm systkinin og systkini mömmu að fá að sitja saman hjá henni síðasta sólarhringinn í lífi hennar og kvaddi hún þessa jörð umvafin ást og umhyggju.

Mér er svo minnisstætt að stuttu eftir að mamma lést og við vorum beðin að fara inn í setustofu og bíða á meðan þau löguðu mömmu til, þá horfði ég út um gluggann upp í himininn, sem var alveg hvítur fyrir utan eitt nokkuð stórt gat sem sólin skein í gegnum. Gatið minnkaði svo smátt og smátt þangað til það lokaðist alveg og þarna er ég viss um að verið var að taka á móti henni á himnum og sýna okkur að hún væri að fara friðsamlega inn í ljósið.

Elska þig alltaf, mamma mín.

Þín dóttir,

Birna.

Nú ertu búin að kveðja, elsku heimsins besta mamma mín og besta vinkona, hjarta mitt er í þúsund molum af sorg og söknuði. Þú kvaddir fallega og friðsællega í faðmi fjölskyldunnar eftir stutt en erfið veikindi. Ég sá aldrei fyrir mér, þegar þú lagðist inn á spítala í nóvember, að þetta myndi fara svona en hjartað þitt var þá því miður farið að erfiða of mikið. Það er svo skrítið að heyra ekki lengur í þér í síma daglega, hittast og spjalla saman um lífið og tilveruna. Það var enginn eins og þú elsku mamma, þú ert mín fyrirmynd í svo mörgu í lífinu. Þú gerðir allt fallegra og betra í kringum þig. Talaðir alltaf fallega um náungann, komst fallega fram við alla og var traustari en klettur enda elskuðu þig allir sem þér kynntust. Varst alltaf til staðar, endalaust að gleðja aðra í kringum sig og settir alltaf alla aðra í fyrsta sæti. Það lýsti þér svo vel elsku mamma og sýndi hvaða manneskju þú hefur að geyma þegar Jói, hundurinn okkar, veiktist um daginn. Þrátt fyrir að vera sjálf mjög lasin inni á spítala þá hringdir þú 3-4 sinnum á dag bara til að tékka hvernig Jóa þínum liði en ekki til að tala um þig né til að segja mér frá þínum veikindum.

Þú varst svo einstök, elsku mamma, og betri ömmu hefði ég ekki getað eignast fyrir börnin mín, alltaf til staðar fyrir þau og gafst þeim allan þinn tíma frá fyrsta degi. Varst alltaf að biðja um að fá þau lánuð til að krúttast með þeim, baka piparkökur fyrir jólin saman, ísrúnta, lúlla og kósíheit hjá ömmu, gefa öndunum og endalaust fleira skemmtilegt sem þið áttuð saman. Þú hefur átt hjartað þeirra frá upphafi enda syrgja þau þig bæði mjög sárt og langömmudúllan þín hann Emil Óli okkar man líka vel eftir hlýju langömmu Kollý. Við munum halda fallegu minningunum þínum á lífi áfram hjá honum og þeim sem munu bætast við í fjölskylduna í framtíðinni. Það er sagt að tíminn lækni öll sár. Ég er að reyna að hugga mig við það núna en það er mjög erfitt. Það eitt að tala um þig í þátíð er mjög erfitt að sætta sig við.

Þig langaði svo fá meiri tíma með okkur og þráðir heitt að verða 90 ára. Ég hefði gefið mikið fyrir að geta haft þig hjá okkur áfram, það er sárara en nokkur orð fá lýst að þurfa kveðja þig. Skilur eftir þig mikið og stórt tómarúm sem verður mjög erfitt að fylla í. Ég reyni að hugga mig við að þú er hjá englunum núna elsku mamma, þar mun ljósið þitt skína skært áfram.

Hvíl í friði elsku besta mamma mín, þú ert farin frá okkur en minning þín mun lifa sterkt áfram í hjörtum okkar. Takk fyrir að vera mér besta mamma í heimi, með fallegasta hjartað og að auki dýrmæt vinkona mín alla tíð. Aldrei fallið skuggi á okkar nána vinskap, elsku mamma.

Elska þig út af lífinu, alla daga, alltaf, elsku mamma mín.

Þín dóttir og vinkona,

Sonja.

Nú ert þú búin að kveðja þetta líf, elsku amma mín, það er svo tómlegt án þín. Ég trúi þessu varla enn þá, trúi því ekki að ég fái engin fleiri hlý ömmuknús. Þú varst alltaf til staðar þegar að ég þurfti á þér að halda.

Þú vildir alltaf gleðja alla í kringum þig og settir alltaf alla aðra í fyrsta sæti.

Þú varst einstök kona og ert fyrirmyndin mín.

Þú spilaðir risastórt hlutverk í lífi mínu og verð ég ævinlega þakklát fyrir það og alla þá tíma sem við áttum saman. Ég mun varðveita allar þær góðu minningar sem ég á um þig á sérstökum stað í hjarta mínu.

Hvíldu í friði elsku amma mín.

Englarnir munu hugsa vel um þig, ég elska þig að eilífu.

Þín ömmustelpa

Rut.

Elsku besta amma mín.

Orð geta ekki lýst því hversu sárt þín verður saknað. Við áttum svo mikið af dýrmætum samverustundum sem ég mun varðveita í hjarta mínu að eilífu. Alltaf svo gaman þegar þú sóttir mig í leikskólann þegar þú varst búin að vinna í blómabúðinni. Öll löngu símtölin sem við áttum um allt á milli himins og jarðar. Alltaf tilbúin að hjálpa öllum og svo hjartahlý. Ég gæfi allt fyrir eitt ömmuknús í viðbót.

Ég elska þig elsku amma mín, og veit að englarnir munu passa vel upp á þig.

Ég elska þig amma,

þú ert mér svo kær.

Til tunglsins og til baka,

ást mín til þín nær.

Sögur þú segir,

og sannleikann í senn.

Þú gáfuð og góð ert,

en það vita flestir menn.

Ég elska þig amma,

þú færir mér svo margt.

það er ætíð hægt að sanna,

að um þig sé ljós bjart.

(Rósin, af ljod.is)

Þín nafna

Kolbrún.

Elsku amma, þetta ljóð segir svo mikið um þig:

Þú varst okkur amma svo undur góð

og eftirlést okkur dýran sjóð,

með bænum og blessun þinni.

Í barnsins hjarta var sæði sáð,

er síðan blómgast af Drottins náð,

sá ávöxtur geymist inni.

Við allt viljum þakka amma mín,

indælu og blíðu faðmlög þín,

þú vafðir oss vina armi.

Hjá vanga þínum var frið að fá

þá féllu tárin af votri brá,

við brostum hjá þínum barmi.

Við kveðjum þig elsku amma mín,

í upphæðum blessuð sólin skín,

þar englar þér vaka yfir.

Með kærleika ert þú kvödd í dag,

því komið er undir sólarlag,

en minninga ljós þitt lifir.

Leiddu svo ömmu góði guð

í gleðinnar sælu lífsfögnuð,

við minningu munum geyma.

Sofðu svo amma sætt og rótt,

við segjum af hjarta góða nótt.

Það harma þig allir heima.

(Halldór Jónsson frá Gili)

Guðrún Lind og

Ólöf María Valberg.

Amma mín var góðhjörtuð og besta amma sem nokkur gæti átt. Ég er svo heppin að hafa átt ömmu eins og hana, hún er alltaf í hjartanu okkar því hún var góð við alla í kringum sig. Mín ósk er að hitta hana aftur. Þetta er búinn að vera erfiður tími fyrir okkur öll en eina sem maður verður að muna eru góðu stundirnar með ömmu. Sem voru alltaf þegar maður var hjá henni, ég mun aldrei gleyma góðu stundum hjá okkur elsku amma.

Þær verða alltaf í hjartanu mínu.

Þín ömmustelpa,

Ólöf María.