Guðný Ingibjörg Hjartardóttir fæddist 28. febrúar 1928 á Mýrum í Eyrarsveit á Snæfellsnesi. Hún lést 1. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Kristín Sveinbjörnsdóttir, f. 7.9. 1887, d. 14.6. 1970, og Hjörtur Rósmann Jónsson, f. 21.7. 1883, d. 15.5. 1973. Systkini Guðnýjar voru: Ágúst Breiðfjörð, f. 30.3. 1914, d. 3.10. 1973. Rósbjörg Anna, f. 9.9. 1916, d. 17.3. 2002. Sveinbjörn f. 6.5. 1919, d. 3.4. 1994. Hrefna f. 31.7. 1922, d. 30.9. 1988. Jón Bjarni f. 18.12. 1924, d. 20.5. 1982. Ragnar f. 27.6. 1929, d. 2.2. 1930.

Árið 1954 giftist Guðný Halldóri Guðnasyni, f. 26.8. 1922, d. 10.11. 2009, frá Berserkseyri í Eyrarsveit, Snæfellsnesi. Foreldrar hans voru Guðni Elísson, f. 31.10. 1897, d. 15.3. 1976, og Sigríður Guðrún Halldórsdóttir, f. 4.10. 1900, d. 14.5. 1981.

Guðný og Halldór hófu sinn búskap í Grundarfirði 1948 og bjuggu þar í rúm 30 ár. Þau fluttu til Reykjavíkur 1979. Börn Guðnýjar og Halldórs eru: 1) Guðrún, f. 1.2. 1949, d. 15.6. 2020, maki Pétur Haraldsson, f. 4.7. 1949. Börn þeirra eru: Haraldur, f. 1974. Börn hans Kolfinna Ósk og Kristófer Pétur Örn. Guðný, f. 1985, maki Michael Refstrup. Dóttir þeirra Emilía Guðrún. Sigrún, f. 1987, sambýlismaður Jón Anton Jóhannsson. 2) Kristín, f. 1.3. 1950, maki Haukur Sigurðsson, f. 1.11. 1949. Dætur þeirra eru: Brynja, f. 1976, sambýlismaður Halldór B. Emmuson Ívarsson. Klara, f. 1981, maki Jón Ingi Ingibergsson. Börn þeirra eru Haukur Ingi og Helga Kristín. Íris Hrund, f. 1989, maki Kristinn Sveinn Ingólfsson. Synir þeirra eru Arnar Snær og Aron Breki. 3) Guðni, f. 26.1. 1956, sambýliskona Hildur Mikkaelsdóttir, f. 1.12. 1957. Synir þeirra eru: Halldór, f. 1978, maki Ragna Richter. Börn þeirra eru Ingþór Logi, Arnór Guðni og Margrét Sóley. Mikael, f. 1978, unnusta Erla Sif Árnadóttir, börn hennar: Karen Sif og Rakel Sif. Davíð, f. 1981, maki Heidi Bjarkhamar. Dætur þeirra eru Embla Bjarkhamar og óskírð dóttir. Bragi, f. 1983, maki Ásdís Lilja Guðmundsdóttir. 4) Hjálmtýr Sæmundur, f. 2.12. 1958, d. 29.10. 2022. Sonur hans er Kári, f. 1990. Fósturbörn Sæmundar eru Jenný Bára Sigurðardóttir, f. 1982, d. 2021, synir hennar eru Elías Aron, Gunnlaugur Örn og Brynjar Pálmi. Jóhann Sigurðarson, f. 1986. Fyrir átti Guðný Hjört Mýrdal Sigurjónsson, f. 11.8. 1945, maki Guðrún Kolbrún Guðnadóttir, f. 26.9. 1952. Synir þeirra eru Sigurjón, f. 1971. Dóttir hans er Stefanía Veiga, f. 1998, sambýlismaður Benóný Dagur Brynjarsson. Dóttir þeirra er Emma Katrín og stjúpdóttir Benónýs Dags er Sara Ósk. Dóttir hennar er Helen Una. Hilmar f. 1972, maki Sif Stanleysdóttir. Synir hans úr fyrra sambandi eru Henrik Máni og Hrannar Þór. Hjörtur f. 1981.

Guðný starfaði við ýmis störf í Grundarfirði. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur starfaði hún í fatahreinsuninni Úðafossi.

Guðný verður jarðsungin frá Seljakirkju í dag, 9. febrúar 2023, kl. 15.

Í dag kveðjum við elsku mömmu og tengdamömmu okkar, hana Guðnýju Ingibjörgu Hjartardóttur. Við erum svo þakklát fyrir að hafa átt þig að og fyrir allar minningarnar og stundirnar sem við höfum upplifað saman. Nú ert þú búin að fá hvíldina þína en minningin um þig lifir áfram í hjörtum okkar.

Hetja varst' til hinstu stundar

heilbrigð lundin aldrei brást.

Vinamörg því við þig funda

vildu allir, glöggt það sást.

Minningarnar margar, góðar

mikils nutum, bjarminn skín.

Bænir okkar heitar hljóðar

með hjartans þökk við minnumst þín.

(María Helgadóttir)

Við minnumst þín með hlýju í hjarta og þakklæti fyrir að hafa átt þig að. Blessuð sé minning þín.

Kristín og Haukur.

Mig langar til þess að skrifa nokkur orð um ömmu sem kvaddi okkur hinn 1. febrúar síðastliðinn. Allar minningarnar fljúga fram í huga minn þessa dagana og ég finn fyrir svo miklu þakklæti fyrir að hafa átt svona góða ömmu. Ég minnist þess þegar ég var lítil og heimsótti ömmu og afa í Kóngsbakkann, þegar við spiluðum saman kana við eldhúsborðið, hvernig amma var oft búin að reikna út hvaða spil allir væru með á hendi og gat svo rakið upp allt spilið þegar því var lokið. Ég hugsa líka til þess þegar ég fór með ömmu og afa í bústað til Benna frænda, þegar hún kenndi mér að baka pönnukökur og fleiri minninga sem ég geymi í hjarta mínu. Amma var alveg einstök, hún sá alltaf það góða í öllum og sýndi alltaf svo mikinn styrk og dugnað. Ömmu var umhugað um alla afkomendur sína og fylgdist hún vel með þeim öllum. Ég er þakklát fyrir allar stundirnar sem synir mínir fengu með ömmu Guðnýju, eins og þeir kölluðu hana alltaf. Amma ég sakna þín. Ég ylja mér við minningarnar og ég veit að það verður vel tekið á móti þér uppi á himnum.

Ég þakka þau ár sem ég átti,

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Íris Hrund Hauksdóttir.

Góðar minningar streyma fram nú þegar við kveðjum elsku ömmu í síðasta sinn. Amma var lífsglöð, dugleg og félagslynd kona. Amma fylgdist alla tíð vel með afkomendum sínum og bar ætíð hag fjölskyldu sinnar fyrir brjósti. Hún hafði unun af því að vera úti í náttúrunni og var dugleg að ferðast meðan heilsan leyfði. Amma var fróð kona, hún fylgdist vel með þjóðmálum og þekkti landið sitt vel.

Amma og afi heitinn áttu fallegt heimili í Kóngsbakka þar sem ævinlega var tekið vel á móti okkur, góðgæti borið á borð og oftar en ekki voru svo spilin dregin fram og spilaður kani. Eftir að heilsan fór að bresta eignaðist amma fallegt heimili í Boðaþingi á Hrafnistu þar sem notalegt var að heimsækja hana og eiga saman dýrmætar stundir.

Börnin þín og barnabörnin

blessa og þakka liðinn dag,

þakka alla ástúð þína,

allar fórnir þeim í hag.

Liðnar stundir ljúft við geymum,

leiðir hér þá skilja nú.

Frelsarans í faðminn blíða

felum þig í bjartri trú.

(Ingibjörg Sigurðardóttir)

Elsku amma, við þökkum þér fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman. Góður guð geymi þig.

Brynja og Klara.

Elskuleg amma Guðný okkar er nú fallin frá á nítugasta og fimmta ári sínu.

Amma var ein sú ástríkasta og ljúfasta amma sem hægt var að hugsa sér og erum við bræður fullir þakklætis fyrir þann dýrmæta tíma sem við áttum með henni.

Það var ávallt tekið vel á móti okkur í Kóngsbakkanum en amma átti það líka til að birtast óvænt heima hjá okkur til að elda eða koma með kræsingar og taka þannig á móti okkur eftir skóla. Þar voru pönnukökurnar hennar vinsælastar.

Hún sýndi ávallt ást sína og væntumþykju í verki enda var hún sérlega barngóð, fylgdist vel með afkomendum sínum og var stolt af þeim.

Amma hafði ætíð mikið dálæti á allri samveru og tók þátt í ýmiskonar félagsstarfi og ferðaðist með ýmsum hópum um landið. Fengum við bræður að fara með henni í nokkrar af þeim ferðum sem voru mikið ævintýri.

Amma elskaði alla útiveru og hreyfingu og hélt sér ávallt í góðu formi. Hún hélt fallegt heimili fullt af hlýju og gleði þar sem spilaður var kani og maður gæddi sér á marengskökunni hennar sem við bræðurnir kölluðum Heimsins bestu enda var hún búin til af heimsins bestu ömmu.

Við gleðjumst yfir yndislegum minningum um okkar ástkæru ömmu og öllum skemmtilegu samverustundunum sem við áttum, minning þín mun lifa í hjörtum okkar. Takk fyrir allt.

Halldór, Mikael, Davíð, Bragi og fjölskyldur.