Steinunn Guðrún Geirsdóttir, kölluð Lillý, fæddist 31. janúar 1930 í Reykjavík. Hún andaðist 27. janúar 2023. Foreldrar hennar voru Rebekka Konstantína Þorsteinsdóttir húsmóðir, f. 1899, d. 1945, og Geir Magnússon verkamaður, f. 1897, d. 1954. Bræður Steinunnar eru Magnús, f. 1931, d. 2010; Ágúst, f. 1933; Valgeir, f. 1935, d. 1963; Geir, f. 1939; Þorsteinn, f. 1941, d. 2010; og Sigurður, f. 1943, d. 2022.
Steinunn giftist Ingvari Þorsteinssyni húsgagnasmíðameistara árið 1951, f. 1929, d. 2019. Börn þeirra eru: 1) Rebekka, f. 1951, d. 2008, eftirlifandi eiginmaður er Einar Ágúst Kristinsson. Börn þeirra eru Ingvar Örn, f. 1981, sambýliskona Íris. Anna Kristrún, f. 1991, eiginmaður Jóhannes. Þeirra börn eru Anton Einar, Rebekka Rún og Brynjólfur Erik.
2) Bergljót Erla, f. 1954. Dóttir hennar og Markúsar Sigurbjörnssonar er Steinunn Guðrún, f. 1974, sambýlismaður Gunnar. Börn Steinunnar eru Bergljót Sunna og Markús Sólon. Dætur Bergljótar Sunnu eru Isabella Karin og Talía Móeiður.
Ásta Bjarndís, f. 1985, eiginmaður Guðmundur Helgi. Faðir Ástu er Bjarni Eyvindsson, f. 1957, d. 2014. Börn Ástu Bjarndísar eru Jasmín Ósk, Auður Ýr og Bjarni Thor.
3) Ásta, f. 1955, d. 2008. Eftirlifandi eiginmaður hennar er Brynjólfur Eyvindsson. Börn þeirra eru Auður, f. 1976, börn hennar eru Hákon og Ásta Kristín. Inga Lillý, f. 1979. Eiginmaður Þorsteinn, börn þeirra eru Ásta Rebekka, Gunnar Freyr og Brynjólfur Þór. Bjarni, f. 1985. Sambýliskona Sigrún, börn þeirra eru Ívar Óli og Brynjar Þór.
4) Þorsteinn, f. 1960, eiginkona Ragna Gústafsdóttir. Börn þeirra eru Ingvar, f. 1994, sambýliskona Rebekka Helga. Sigríður Alexandra, f. 1996, sambýlismaður Andri, börn þeirra eru Amilía og Adrían.
5) Geir Örn, f. 1967, sambýliskona Anný Lára Emilsdóttir. Börn hans eru Gunnar Ingi, f. 1992, eiginkona Ásdís, börn þeirra eru Esther og Viggó. Steinunn Gróa, f. 1996, sambýlismaður Aron, börn Kristófer Örn og Daníel Rafn. Móðir Gunnars Inga og Steinunnar Gróu er Hallveig Ragnarsdóttir.
Lillý gekk í Miðbæjarskólann en hætti námi 15 ára þegar móðir hennar lést til að aðstoða við heimilsstörf og uppeldi bræðra sinna. Lillý og Ingvar kynntust á unglingsárum og voru alla tíð mjög samheldin. Þau ferðuðust um heiminn og ávallt var gestkvæmt á heimili þeirra. Lillý stundaði nám í málaralist í Myndlistarskóla Rvk frá fimmtugsaldri og eftir hana liggja fjölmörg verk. Hún saumaði rúmfatnað fyrir Ingvar og Gylfa, síðar Ingvar og syni í áratugi.
Síðustu stundirnar dvaldi hún á hjúkrunarheimili.
Steinunn verður jarðsungin frá Bústaðakirkju í dag, 9. febrúar 2023, kl. 15.
Ég fæddist á afmæli ömmu og var fyrsta barnabarnið, því kom ekkert annað til greina hjá foreldrum mínum en að skíra mig í höfuðið á henni.
Fyrir það er ég afar þakklát því betri fyrirmynd er vandfundin og ber ég nafn hennar stolt.
Hún var ekki bara amma mín, heldur önnur móðir og besta vinkona í næstum hálfa öld.
Minningarnar eru óteljandi, en ég ólst upp fyrstu sjö árin mín í kjallaranum í Kvistalandi 1 hjá ömmu og afa, þar sem stórfjölskyldan öll bjó.
Það voru útbúnar tvær íbúðir þar fyrir þær systurnar, mömmu, Ástu og maka þeirra og fyrstu börn. En amma, afi og móðurbræður mínir bjuggu á efri hæðinni.
Þar var mikið líf og fjör, enda voru þau amma og afi bæði mikið fjölskyldufólk og vinamörg, en það var mikið um veisluhöld, þar sem grillað var á pallinum, sungið og spilað á píanó.
Þau hjónin afi Ingvar og amma Lillý áttu mjög farsælt hjónaband allt frá unglingsárum til æviloka, enda voru þau alltaf bestu vinir og afar samheldin.
Þau ferðuðust víða um heiminn og söfnuðu í minningabankann ógleymanlegum stundum saman.
Amma var mikil barnagæla og passaði okkur barnabörnin mikið, mig sjálfa á daginn frá tveggja vikna aldri, svo mamma gæti lokið námi sínu á réttum tíma.
Ömmu þótti það dásamlegt, því við barnabörnin voru augasteinarnir hennar og sóttum í hana öll sem eitt.
Amma var alltaf smart og vel tilhöfð og fór vikulega í lagningu, en eftir að ég byrjaði að læra hárgreiðslu þá hlotnaðist mér sá heiður í rúm 33 ár að gera hárið hennar fínt.
Hún klæddi sig í hámóðins fatnað til æviloka og átti skósafn sem var svo flott að við mamma fengum báðar lánaða hjá henni skó.
Amma var líka mikil lista- og handverkskona, hún saumaði og prjónaði á börnin sín og allt í nýjustu tísku, en hún fylgdist ávallt vel með tískustraumum og dætur hennar þrjár nutu heldur betur góðs af, því þær fengu saumaðar flíkur eftir pöntun.
Öll dressin hvert öðru flottari!
Saumaskapurinn rataði síðan í húsgagnaverslanir afa, fyrst í Ingvar og Gylfa og svo síðar í Ingvar og syni, þar sem hún saumaði teygjulök í áratugi, sem ekki voru til á landinu á þeim tíma.
Hún stundaði málaralist í Myndlistarskólanum í Reykjavík frá fimmtugsaldri með vinkonu sinni og málaði í 30 ár. Mörg glæsileg málverk liggja eftir hana og við stórfjölskyldan eigum flestöll verk frá henni.
Amma átti margar góðar vinkonur og mágkonur sem oft hittust í kaffibolla, þar var mikið spjallað og hlegið.
Enda var amma svo skemmtileg og mikil húmoristi.
Heimsókn til ömmu og afa var alltaf gleðistund og þar voru oftar en ekki margir fjölskyldumeðlimir og gestir sem gaman var að hitta.
Hún var börnum mínum Beggu Sunnu og Markúsi Sólon einstök langamma og þau langafi Ingvar bæði miklar fyrirmyndir þeirra.
Mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég fékk leyfi frá Beggu Sunnu til þess að segja ömmu að ég væri að verða amma.
Afi var þá orðinn alvarlega veikur og amma var döpur og hrædd um hann.
Ég fór að heimsækja hana og sagði henni fréttirnar.
Fyrstu viðbrögð voru risastórt bros og svo fylgdi eftir hlátur yfir því að ég væri að verða amma og svo: „Bíddu, er dóttir mín að verða langamma?“ svo skellihló hún!
Næst kom: „Hvað verð ég eiginlega löng?“
Sem uppskar enn meiri hlátur.
Þvílík gleðistund.
Við náðum að verða 6 konur með Isabellu og Talíu ömmustelpunum mínum og 5 ættliðir í beinan kvenlegg.
Það er heldur betur afrek.
Ég er sorgmædd í dag, en veit að sorg er ást sem ekki lengur kemst til skila.
Ég ylja mér við að nú er hún farin að hitta ástkæra afa og dæturnar tvær Rebekku og Ástu sem hún saknaði svo mikið og sárt.
Minningin um einstaka ættmóður og dásamlega ömmu mun lifa með mér um ókomna tíð.
Steinunn Guðrún Markúsdóttir.
Mikil viðbrigði urðu fyrir fjölskylduna þegar hún flutti í nýbyggt hús á Langholtsvegi 152. Í húsinu voru þrjár rúmgóðar íbúðir. Ingvar og Lillý bjuggu í kjallaraíbúðinni og Viðar, næstelsti bróðir minn, í risinu ásamt Gunnu, kærustu sinni. Við Björgvin bróðir vorum á miðhæðinni ásamt foreldrum okkar. Brátt fjölgaði í húsinu. Lillý og Ingvar eignuðust fljótt þrjár stúlkur og tvo drengi síðar. Viðar og Gunna eignuðust tvo drengi og tvær stúlkur. Í húsinu var því oft mikið líf og fjör, haldnar voru margvíslegar fjölskylduskemmtanir og afmælisveislur. Það varð því fljótt í mörgu að snúast fyrir Lillý sem var orðin heimavinnandi húsmóðir. Henni féll aldrei verk úr hendi. Hún var mjög listræn og skapandi. Hún saumaði afar falleg föt á dæturnar og gerði heimili þeirra Ingvars hlýlegt og smekklegt. Við undruðumst mörg í húsinu hvað hún gat verið með marga matargesti og haldið vel utan um stækkandi fjölskylduna. Ingvar bauð oft vinum og félögum heim í hádegismat og aldrei kvartaði Lillý en galdraði fram mat handa öllum. Mér fannst húsið strax vera mjög stórt, eins konar höll þar sem móðir mín var drottningin og Lillý prinsessan. Ég hafði víst orð á því einhvern tíma við móður mína að ég vildi eignast eins glæsilega og klára konu og hana Lillý.
En lífið er ekki alltaf sanngjarnt og atvikin eru oft afar dapurleg. Lillý og Ingvar fengu svo sannarlega að reyna það þegar tvær dætur þeirra létust úr krabbameini í blóma lífsins. Þrátt fyrir ýmis veikindi og kvilla báru þau hjónin höfuðið hátt. Lillý var einstaklega umhyggjusöm og fundum við það mörg okkar, vinir og vandamenn. Þegar móðir mín lést árið 1963 vildi Lillý ekki heyra annað en að faðir minn og ég yrðum í fæði hjá henni. Okkur fannst nóg um og vorum oft hikandi því að Lillý hafði í nógu að snúast og í mörg horn að líta. Lillý var mér ævinlega einstaklega góð. Þegar kona mín dó sýndi hún mér mikla umhyggju og eins þegar ég kynntist annarri konu og við eignuðumst litlar dætur var eins og umhyggjan yxi um allan helming.
Ég kveð elskulega mágkonu mína og minnist hennar sem afar hlýrrar og tignarlegrar atorkukonu.
Blessuð sé minning hennar. Ég votta börnum hennar og barnabörnum innilega samúð mína, sem og öllum vinum og vandamönnum.
Þorsteinn H.
Þorsteinsson.
Hún Lillý náði háum aldri og tilheyrði elstu kynslóð þessa lands, en var samt eitthvað svo tímalaus, bæði í hugsun og klæðaburði. Alltaf var hún svo yfirveguð að eftir var tekið. Hún var ekki laus við áföll á sinni ævi, þau voru nokkur og sum ansi þung, en aldrei hafði maður á tilfinningunni að hún léti þau skilgreina sig, en vissulega lifðu þau með henni.
Hún fékk snemma að axla mikla ábyrgð sem elsta systir í stórum systkinahópi þegar mamma þeirra féll frá, en Lillý var þá einungis fimmtán ára. Alla tíð var henni umhugað um sína bræður og þeirra fjölskyldur. Allt sem hún gerði var svo átakalaust og maður gat ekki annað en dáðst að viðbrögðum hennar og framkomu við allt og alla. Hún lifði vel og kunni að gleðjast og samgleðjast.
Lillý og Ingvar voru samtaka í lífinu, þau töldu ekki eftir sér að halda stærstu boðin, alltaf nóg pláss og allir velkomnir. Þeirra heimili stóð ætíð opið og var í raun eins og félagsmiðstöð fyrir fjölskylduna.
Lillý unni ferðalögum og talaði oft um það hvað hún hefði haft gaman af því að skoða sig um og kynnast öðrum löndum. Ekki skemmdi fyrir ef veðráttan var skapleg. Þau Ingvar náðu að fara í ótal ferðir um dagana, m.a. til Kanada ásamt foreldrum mínum til að heimsækja Sigrúnu systur mína og minntist hún oft á þá ferð við mig þar sem hún vissi að ég þekkti umhverfið.
Hún var mikil handavinnukona og saumavélin jafnan uppi við, en einnig listræn mjög og ræktaði hún þann hæfileika. Eftir hana liggja mörg listaverkin.
Tíminn líður hratt og minningarnar eru dýrmætar. Ég kveð hana frænku mína með söknuði, en fyrst og fremst þakklæti og væntumþykju, hún gaf meira en margur og lagði ætíð gott til samferðafólks síns. Ég hef alla tíð verið svo ánægð að heita í höfuðið á henni og uni glöð ef ég hef náð að tileinka mér eitthvað örlítið af hennar góðu kostum.
Hvíl í friði elsku Lillý og takk fyrir allt þitt.
Steinunn Geirsdóttir.
Eftir langa samleið er margs að minnast og margt að þakka.
Fyrst þegar ég kom inn á heimili þeirra Lillýjar og Ingvars bjuggu þau í sannkölluðu fjölskylduhúsi, sem stóð við Langholtsveginn, en þar hafði fjölskylda Ingvars reist sér hús fyrir þrjár fjölskyldur.
Ég minnist þess sem nýbökuð móðir hversu gott það var að leita til Lillýjar. Hún leiðbeindi mér með ýmislegt og alltaf hafði hún tíma fyrir okkur mágkonurnar, en allar vorum við heimavinnandi. Við vorum tíðir gestir hjá Lillý, tókum með okkur prjónana og skröfuðum.
Seinna byggðu þau sér heimili í Kvistalandi í Fossvogi. Oft kom það fyrir þegar Ingvar kom heim í hádegismat að gluggakistan í eldhúsinu var þéttsetin börnum, en þar var gott að vera og komust margir fyrir enda hændust öll börn að þeim hjónum. Ingvar lét þetta nú ekki trufla sig, alltaf jafn jákvæður og barnelskur, hann var einstakur maður, greiðvikinn og fús til að leysa allra vanda.
Á þessum árum var algengt að konur saumuðu fatnað á börnin og það gerði Lillý af list, það virtist allt leika í höndunum á henni, hvort heldur sem var að sníða eða sauma.
Stórfjölskyldan fór í margar skemmtilegar sumarferðir bæði erlendis og innanlands og þá gjarnan í tjaldferðir.
Lillý hafði mjög gaman af að ferðast og fóru þau hjónin í margar ferðirnar bæði á fjarlæga staði sem og til nærliggjandi landa.
Heimili þeirra var gestkvæmt og gestrisni í fyrirrúmi. Á jóladag ár hvert var stórfjölskyldunni boðið í sannkallað jólaboð, þar var sungið og dansað í kringum jólatréð sem yngsta kynslóðin kunni svo sannarlega að meta. Auk þess voru haldnar afmælisveislur bæði barna og fullorðinna á hverju ári, þar var ævinlega glatt á hjalla og gestrisnin sönn og heil.
Lillý og Ingvar eignuðust fimm mannvænleg börn, þrjár dætur og tvo syni. Það var mikið reiðarslag fyrir fjölskylduna þegar tvær af dætrum þeirra, Ásta og Rebekka, féllu frá með mánaðar millibili. Það var aðdáunarvert hvað fjölskyldan stóð þétt saman og sýndi mikið æðruleysi á þessum tíma.
Með mágkonu minni er gengin einstaklega hlý kona, sem mætti hverjum og einum af kærleika og fordómaleysi. Hafi hún þökk fyrir allt og allt.
Blessuð sé minning hennar.
Kristín (Kiddý).