Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon
Einar Ingvi Magnússon: "Venjulegt fólk vill ekki stríð. Venjulegt fólk vill frið."

Um þessar mundir eiga ungir menn í Evrópu yfir höfði sér að vera kallaðir í herinn til að berjast í stríði við Rússland. Þeir geta búist við herkvaðningu hvenær sem er næstu daga og vikur; ungir menn um tvítugt sem eru í námi og í því að stofna fjölskyldu. Þeir bestu hvað líkamshreysti varðar eru venjulega þeir sem sendir eru á vígvöllinn.

Víða um Evrópu eru minnismerki og grafir fallinna hermanna sem létu lífið í seinni heimsstyrjöldinni 1939-1945. Hundruð þúsunda þeirra voru ungir strákar frá 18 ára aldri og yfir tvítugt. Enn er fólk á lífi sem upplifði þessa hörmungartíma þegar milljónir manna féllu vegna hugmyndafræði pólitíkusa sem lögðu Evrópu í rúst. Þetta fólk og afkomendur þess vill frið.

Í dag er hótað að beita vopnum sem hafa munu enn meiri eyðingarmátt en þau sem notuð voru í Evrópu í seinni heimsstyrjöld. Hver er tilgangur þessa stríðs sem ungum, hraustum og heilbrigðum mönnum skal nú att út í? Eru það landvinningar á landi sem í raun og veru enginn á? Eru það duttlungar ríkra yfirstétta sem vilja meir en eiga þó nóg? Hví þetta stríð? Venjulegt fólk vill ekki stríð. Venjulegt fólk vill frið. Meirihluti fólks.

En það er herskylda og ungir menn eru kallaðir í herinn. Sumir þeirra skila inn beiðni til stjórnvalda um að fá að starfa við hjúkrunarstörf í staðinn fyrir að bera vopn og drepa meðbræður sína hér á jörð. Fyrir marga hverja er þetta tilgangslaust stríð, algjörlega ónauðsynlegt.

Hvenær ætlar mönnum þessarar plánetu að skiljast að mannkynið er ein fjölskylda og okkur mönnunum farnast best þegar við hugsum vel til náungans og þjónum honum. Við ættum að lifa með farsæld allra manna í huga og biðja Guð um frið á jörð.

Höfundur er áhugamaður um samfélagsmál. einar_ingvi@hotmail.com

Höf.: Einar Ingvi Magnússon