Við störf 40% sögðust hafa alltaf eða oft of mikið að gera í vinnunni.
Við störf 40% sögðust hafa alltaf eða oft of mikið að gera í vinnunni. — Morgunblaðið/Eggert
Ætla má að um þriðjungur fólks á vinnumarkaði sé oft eða alltaf andlega úrvinda eftir vinnudaginn og að einn af hverjum fimm sé líkamlega úrvinda eftir vinnuna ef marka má niðurstöður ítarlegrar rannsóknar Félagsvísindastofnunar HÍ á einkennum…

Ætla má að um þriðjungur fólks á vinnumarkaði sé oft eða alltaf andlega úrvinda eftir vinnudaginn og að einn af hverjum fimm sé líkamlega úrvinda eftir vinnuna ef marka má niðurstöður ítarlegrar rannsóknar Félagsvísindastofnunar HÍ á einkennum starfa, vinnuumhverfi og ástæðum brotthvarfs af vinnumarkaði. Þriðjungur svarenda í könnun Félagsvísindastofnunar sögðust oft eða alltaf vera andlega úrvinda eftir vinnudaginn og 22% líkamlega úrvinda.

Það voru félags- og vinnumarkaðsráðuneytið og Vinnueftirlitið sem fólu Félagsvísindastofnun að gera rannsóknina, sem fram fór frá nóvember 2021 og fram í maí á síðasta ári. Ráðuneytið hefur nú birt ítarlegar niðurstöður hennar og falið Vinnueftirlitinu að vinna áfram með þær.

„Sé litið til ólíkra starfa má sjá að starfsfólk við umönnun, háskólamenntaðir sérfræðingar í kennslu og uppeldisfræði og sérfræðingar í heilbrigðisvísindum voru líklegri til að vera andlega úrvinda að loknum vinnudegi en aðrir hópar og bændur og fiskimenn og ósérhæft starfsfólk voru líklegri en aðrir starfshópar til að vera líkamlega úrvinda eftir vinnudaginn,“ segir í skýrslu um niðurstöðurnar.

Verulegur kynjamunur kom einnig í ljós. 39% kvenna sagðist oft eða alltaf vera andlega úrvinda en 28% karla. 25% kvenna voru oft eða alltaf líkamlega úrvinda samanborið við 20% karla. Fram kemur að af erlendum ríkisborgurum sögðu 45% að þeir væru oft eða alltaf líkamlega úrvinda eftir vinnu en hlutfallið var 21% meðal þeirra sem höfðu verið íslenskir ríkisborgarar alla ævi.

Í frétt ráðuneytisins er bent á að rannsóknin sýni skýrt að vinnumarkaðurinn sé mjög kynjaskiptur. Álag í starfi reyndist t.d. töluvert ólíkt eftir því hvort um konur eða karla var að ræða. „Konur voru til dæmis líklegri en karlar til að þurfa að kljást við erfiða viðskiptavini, þjónustunotendur eða nemendur í starfi. Þegar litið er til ólíkra starfahópa var þessi upplifun algengust á meðal fólks sem starfar við umönnun (55%), sérfræðinga í kennslu og uppeldisfræði (43%) og sérfræðinga í heilbrigðisvísindum (37%). Sömu hópar voru líklegri til að segjast vera í tilfinningalega erfiðum aðstæðum í vinnunni,“ segir í umfjöllun. Fram kom að tæpur fjórðungur hafði orðið fyrir hunsun eða afskiptaleysi á vinnustað. 40% erlendra ríkisborgara sögðust hafa orðið fyrir hunsun og afskiptaleysi en 24% íslenskra ríkisborgara. „Konur töldu sig frekar en karlar hafa orðið fyrir orðbundinni áreitni, niðurlægingu, einelti, kynferðislegri áreitni/ofbeldi og líkamlegu ofbeldi á vinnustað.“ omfr@mbl.is