Páll Gunnar Pálsson
Páll Gunnar Pálsson
Eins og kunnugt er bannaði Samkeppniseftirlitið (SKE) mögulegan samruna á majónesmarkaðnum víðfeðma eftir að sérfræðingar SKE höfðu brotið kaldsósumarkaðinn til mergjar í 130 síðna opinberri skýrslu, líkust BA-ritgerð sem farið hefði úr böndunum.

Eins og kunnugt er bannaði Samkeppniseftirlitið (SKE) mögulegan samruna á majónesmarkaðnum víðfeðma eftir að sérfræðingar SKE höfðu brotið kaldsósumarkaðinn til mergjar í 130 síðna opinberri skýrslu, líkust BA-ritgerð sem farið hefði úr böndunum.

Það var ófyndin lesning en sprenghlægileg og óhætt að mæla með upplestri Magnúsar Ragnarsonar leikara á útdrætti skýrslunnar í hlaðvarpi Þjóðmála. Eins reit Örn Arnarson magnaða fréttaskýringu um málið í Viðskiptablað liðinnar viku, sem rakti söguna frá landnámsmajónesinu til vorra daga.

Páll Gunnar Pálsson, hinn grínaktugi forstjóri SKE, sagðist átta sig á því að þetta hljómaði fyndið, en hagsmunir neytenda hefðu verið í húfi. Ekki síst væri þar gefið mikilvægt fordæmi, því eftirlitið gæti átt eftir að fjalla um markaði annarrar matvöru, „sem fólki fyndist ekki eins fyndið að fjalla um“.

Sem sagt, sífellt fleiri örmarkaðir og enginn þeirra SKE óviðkomandi: súkkulaði með lakkrís og súkkulaði með hrískúlum, frosnar flatbökur með ananas og án. Og vei þeim sem öðlast 30% markaðshlutdeild á óteljandi örmörkuðum á örmarkaðnum íslenska. Öll fyrirtæki dæmd til þess að vera smá, nema auðvitað SKE sem þarf sífellt fleiri „sérfræðinga“.

Alveg rétt hjá Páli, þetta er ekki fyndið, þetta er óhugnanlegt.