Ósætti Á skjáskoti úr myndbandinu má sjá starfsmenn hótelsins eiga við Sólveigu, sem kom ásamt nokkrum öðrum verkfallsvörðum Eflingar.
Ósætti Á skjáskoti úr myndbandinu má sjá starfsmenn hótelsins eiga við Sólveigu, sem kom ásamt nokkrum öðrum verkfallsvörðum Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hrópaði á gesti sem sátu í móttöku Fosshótelsins í Bríetartúni í gær. Birt var myndskeið af atvikinu á mbl.is í gær. Samtök ferðaþjónustunnar fordæma framkomu verkfallsvarða

Inga Þóra Pálsdóttir

ingathora@mbl.is.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, hrópaði á gesti sem sátu í móttöku Fosshótelsins í Bríetartúni í gær. Birt var myndskeið af atvikinu á mbl.is í gær. Samtök ferðaþjónustunnar fordæma framkomu verkfallsvarða.

Í myndbandinu sést Sólveig hrópa á gesti á ensku og segja hótelið fremja verkfallsbrot. Starfsmaður hótelsins segir Sólveigu að tala ekki við gesti hótelsins. Sólveig hlítir því ekki og heldur áfram.

Segist ekki vera að áreita

Loks ræðir Sólveig við fulltrúa hótelsins á íslensku. Þeir segja við hana að hún hafi ekki rétt til að áreita gesti hótelsins. Sólveig hafnar því að vera áreita gestina. Segist hún vera að miðla upplýsingum um stöðuna og sé það stjórnarskrárvarinn réttur hennar.

Segir Sólveig augljóst að verið sé að fremja verkfallsbrot þar sem ekki eigi að vera hægt að halda hótelinu opnu án Eflingarfólks. Fulltrúar hótelsins benda á að ekki séu allir starfsmenn hótelsins í verkfalli.

Að lokum lætur Sólveig undan og gengur út af hótelinu ásamt hópi sínum. Eftir að myndbandið birtist í fjölmiðlum sendu Íslandshótel frá sér tilkynningu.

Segjast virða verkfallið

Í tilkynningunni saka Íslandshótel Eflingu um að hafa viðhaft ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki og yfirmönnum Íslandshótela. Þá er því hafnað að verkfallsbrot hafi verið framin.

„Áreiti við gesti og ógnandi hegðun forystu Eflingar við starfsfólk hótelanna hefur mikil áhrif á það samstarf sem Íslandshótel vilja eiga við stéttarfélagið og verkfallsverði þess. Eins og fram hefur komið hefur forystufólk Eflingar viðhaft ógnandi hegðun gagnvart starfsfólki og yfirmönnum Íslandshótela, krafist þess að starfsfólk í öðrum stéttarfélögum leggi niður vinnu sína, áreitt gesti hótelanna og sakað Íslandshótel um verkfallsbrot, án þess að nokkuð slíkt hafi átt sér stað,“ segir í tilkynningunni.

„Forsvarsmenn Íslandshótela hafa lagt sig fram um að taka á móti verkfallsvörðum Eflingar með gestrisni, virða verkfallsrétt Eflingarfólks og gætt þess í hvívetna að engin verkfallsbrot séu framin. Því miður hafa forystumenn Eflingar ítrekað slegið á útrétta sáttahönd Íslandshótela varðandi eftirlit með slíku,“ segir enn fremur í tilkynningunni.

Yfirvegun borgi sig

Samtök ferðaþjónustunnar hafa fordæmt framkomu verkfallsvarða Eflingar. „Við teljum að markmiðum um verkfallsvörslu verði náð með yfirveguðum hætti,“ sagði Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, í samtali við mbl.is í gær.

Jafnframt sagði Jóhannes að erlendir gestir hótelanna ættu ekki að þurfa að sitja undir því að hópur fólks valsi um hótelið og trufli fólk í kringum það.

„Íslandshótel voru tilbúin að vinna með verkfallsvörðunum og fara með þeim um hótelin, en þeir hafa þurft að draga úr þeim vilja vegna þessarar framkomu. Við munum ekki una því þegar þessi framganga verkfallsvarðanna er farin að skaða upplifun og valda gestum hótelanna vanlíðan. Þá er þetta ekki í boði.“