Þýskaland Hólmbert Aron Friðjónsson á að baki 6 A-landsleiki.
Þýskaland Hólmbert Aron Friðjónsson á að baki 6 A-landsleiki. — Morgunblaðið/Eggert
Forráðamenn sænska knattspyrnufélagsins Hammarby hafa mikinn áhuga á íslenska framherjanum Hólmberti Aroni Friðjónssyni. Þetta herma heimildir mbl.is og þá hefur sænski miðillinn Sportbladet einnig fjallað um málið

Forráðamenn sænska knattspyrnufélagsins Hammarby hafa mikinn áhuga á íslenska framherjanum Hólmberti Aroni Friðjónssyni.

Þetta herma heimildir mbl.is og þá hefur sænski miðillinn Sportbladet einnig fjallað um málið.

Hólmbert, sem er 29 ára gamall, er samningsbundinn Holstein Kiel í þýsku B-deildinni en hann lék með Lilleström í Noregi á láni á síðustu leiktíð þar sem hann skoraði 13 mörk í 36 leikjum.

Framherjinn gekk til liðs við Holstein Kiel frá Brescia sumarið 2021 en hann hefur fengið fá tækifæri með þýska félaginu og aðeins komið við sögu í fimm leikjum með liðinu í öllum keppnum.

Hólmbert hefur einnig leikið með Celtic, Bröndby, Aalesund og Brescia á atvinnumannaferli sínum en hann sló í gegn hjá Aalesund í Noregi á árunum 2018 til ársins 2020 þar sem hann skoraði alls 38 mörk fyrir félagið í 76 leikjum í öllum keppnum.

Samkvæmt heimildum mbl.is hefur Hammarby lagt fram tvö tilboð í framherjann, sem báðum hefur verið hafnað, en alls á hann að baki sex A-landsleiki þar sem hann hefur skorað tvö mörk. Þá á hann að baki 91 leik í efstu deild hér á landi með Fram, KR og Stjörnunni þar sem hann hefur skorað 27 mörk.

Hammarby hafnaði í þriðja sæti sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð með 56 stig, átta stigum minna en meistaralið Häcken. bjarnih@mbl.is