Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir
Það kann kannski að koma einhverjum á óvart en starf stjórnmálamanna er alla jafna skemmtilegt. Jú, það eru alls konar ummæli um okkur á samfélagsmiðlum og sjálfsagt er ýmislegt sagt á kaffistofum landsins, en það er gaman að sjá árangur af starfinu …

Það kann kannski að koma einhverjum á óvart en starf stjórnmálamanna er alla jafna skemmtilegt. Jú, það eru alls konar ummæli um okkur á samfélagsmiðlum og sjálfsagt er ýmislegt sagt á kaffistofum landsins, en það er gaman að sjá árangur af starfinu og vita til þess að hægt er að hafa áhrif sem eru til þess fallin að auka lífsgæði fólks.

Skemmtilegasti og um leið mikilvægasti þáttur starfsins er að hitta og hlusta á hvað brennur þeim í brjósti, skilja aðstæður þeirra, heyra af nýjum hugmyndum og þannig mætti áfram telja. Af þeirri ástæðu fer þingflokkur Sjálfstæðisflokksins í hringferð um landið. Hringferðin hefst í dag og næstu átta daga fær fólk færi á milliliðalausu samtali við þingmenn flokksins. Í hringferðinni heimsækjum við tugi bæja, vinnustaði og höldum opna fundi. Við munum hlusta á fjölbreyttan hóp fólks, einstaklinga í sjálfstæðum rekstri, frumkvöðla, námsmenn, bændur, sjómenn og stjórnendur.

Það skiptir máli að heyra og skilja hvað brennur á þeim sem reka fyrirtæki, stór og smá, hvort sem er á landsbyggðinni eða á höfuðborgarsvæðinu. Það skiptir máli að vita hvað brennur á þeim sem búa við skertar samgöngur eða lélegt netsamband. Það skiptir máli að heyra væntingar fólks til námstækifæra, þekkingarsetra og fjarnáms. Það skiptir máli að vita hvað má gera betur og hvernig við bætum líf fólks, bæði í félagslegu og efnahagslegu tilliti.

Það var einmitt í einni af þessum hringferðum sem ég sem þingmaður hitti lögreglumenn sem höfðu starfað sem slíkir um áraskeið án þess að hafa komist inn í lögregluskólann því þeir höfðu ekki stúdentspróf. Ég lagði í framhaldinu til breytingar á því og þær gengu eftir. Það er bara eitt dæmi af mörgum þar sem við höfum hlustað á og sett okkur inn í raunverulegar aðstæður fólks og í kjölfarið lagt okkar af mörkum til að knýja fram breytingar.

Við ætlum að halda áfram að ná árangri fyrir Ísland, auka lífsgæði og skapa fleiri tækifæri. Stærsta efnahagsmálið er að tengja háskólana, vísindin, nýsköpun og þekkingariðnað til að skapa ný störf og ný tækifæri. Lykillinn að lausninni er að við virkjum miklu betur okkar ótakmörkuðu en um leið vannýttustu auðlind, hugvitið. Þegar hugmyndir fólks verða að veruleika aukum við verðmætasköpun og aukum samkeppnishæfni Íslands.

Það er mikið tilhlökkunarefni að eiga samtal við fólk í öllum landsfjórðungum og leysa þá krafta sem þar búa úr læðingi. Með þessi samtöl í farteskinu snúum við aftur til starfa okkar með betri yfirsýn yfir það hvað brennur helst á landsmönnum. Þannig höldum við fókus og forgangsröðum í takti við þau málefni sem þjóna best fólkinu í landinu. Við hlustum þannig að við getum tekist á við helstu áskoranir fólksins í landinu og tekið ákvarðanir sem gera samfélagið okkar betra.

Höfundur er háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. aslaugs@althingi.is

Höf.: Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir