Samkeppniseftirlitið á ekki að valda atvinnulífi og almenningi tjóni

Íslenskar eftirlitsstofnanir hafa með árunum fært sig mjög upp á skaftið og stafar það ekki síst af því að þær virðast sjálfar ekki undir neinu eftirliti í störfum sínum, sem augljóslega gengur ekki upp. Slíkar stofnanir hafa mikil völd og verða að beita þeim af yfirvegun og skynsemi en eiga það til að tapa áttum og þá er voðinn vís.

Samkeppniseftirlitið er eftirlitsstofnun sem iðulega gengur of langt og er vandséð að starfsemi þeirrar stofnunar skili nokkrum ávinningi. Eitt af því sem stofnunin reynir að flækjast fyrir er framþróun í íslenskum landbúnaði, en stofnunin beitir sér mjög fyrir því að hér séu sem strangastar reglur á þessu sviði atvinnulífsins, mun strangari en þekkist erlendis, þegar ástæða væri til, í ljósi fámennis og dreifbýlis, að veita meira svigrúm hér en erlendis til hagræðingar í greininni.

Samkeppniseftirlitið lætur sér ekki nægja að beita sér innan gildandi laga, það vill líka hafa áhrif á lagasetningu, jafnvafasamt og það er. Þannig hefur stofnunin lagst hart gegn frumvarpi sem hefði getað aukið svigrúm til hagræðingar í landbúnaði með því að veita undanþágur frá samkeppnislögum. Dæmi um hve langt stofnunin gengur í þessu efnum var nefnt í grein hér í blaðinu í gær eftir formann Samtaka fyrirtækja í landbúnaði. Í greininni segir að umsögn eftirlitsins, ásamt viðauka, sé samtals 56 blaðsíður. „Þar er m.a. komið inn á fæðuöryggi, byggðastefnu og fleira sem er Samkeppniseftirlitinu óviðkomandi. Til samanburðar má vísa til umsagnar norska samkeppniseftirlitsins þegar núgildandi undanþága norskra laga frá samkeppnisreglum var samþykkt. Umsögn norska samkeppniseftirlitsins var tæplega tvær blaðsíður að lengd,“ segir í greininni, þar sem enn fremur kom fram að norska eftirlitið lýsti ánægju með frumvarpið.

Samkeppniseftirlitið íslenska fer ekki aðeins út fyrir verksvið sitt, það gerir það mjög gróflega og ítrekað. Löngu tímabært er að stjórnvöld taki þessa starfsemi til endurskoðunar og tryggi að þessi stofnun, eins og aðrar, sinni því sem henni er ætlað og öðru ekki.