Eldisgarður Stöðin verður byggð í eldhrauni. Yfir 200 eldisker verða í henni fullbyggðri, bæði fyrir seiði og lax í áframeldi. Kerin verða yfirbyggð, að hluta grafin í jörðu til að draga úr breytingum á ásýnd svæðisins.
Eldisgarður Stöðin verður byggð í eldhrauni. Yfir 200 eldisker verða í henni fullbyggðri, bæði fyrir seiði og lax í áframeldi. Kerin verða yfirbyggð, að hluta grafin í jörðu til að draga úr breytingum á ásýnd svæðisins. — Tölvumynd/Samherji fiskeldi
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Eldisgarður, stór landeldisstöð sem Samherji fiskeldi undirbýr að koma upp á Reykjanesi, er talinn hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á umhverfið. Í umhverfismatsskýrslu sem lögð hefur verið fram segir að bygging og rekstur fiskeldisstöðvar af þessari stærðargráðu muni hafa áhrif á umhverfið með auðlindanotkun og myndun aukaafurða. Á móti komi að fyrirtækið hafi lagt áherslu á að draga úr umhverfisáhrifum með því að hanna og reka fiskeldisstöðina í anda hugmyndafræði um hringrásarhagkerfið.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Eldisgarður, stór landeldisstöð sem Samherji fiskeldi undirbýr að koma upp á Reykjanesi, er talinn hafa bæði jákvæð og neikvæð áhrif á umhverfið. Í umhverfismatsskýrslu sem lögð hefur verið fram segir að bygging og rekstur fiskeldisstöðvar af þessari stærðargráðu muni hafa áhrif á umhverfið með auðlindanotkun og myndun aukaafurða. Á móti komi að fyrirtækið hafi lagt áherslu á að draga úr umhverfisáhrifum með því að hanna og reka fiskeldisstöðina í anda hugmyndafræði um hringrásarhagkerfið.

Laxeldisstöðin verður í Auðlindagarði HS Orku í nágrenni Reykjanesvirkjunar. Aðstæður þar eru taldar afar hagstæðar vegna aðgengis að jarðsjá, ylsjó og rafmagni. Allt frárennsli verður hreinsað til að lágmarka mengun en sterkir straumar og mikill sjógangur við útrás munu einnig tryggja hraða þynningu næringarefna í frárennsli.

250 þúsund fermetrar

Í stöðinni verður seiðaeldisstöð, áframeldisstöð og vinnsluhús ásamt stoð- og tæknibyggingum, alls um 250 þúsund fermetrar. Mjölvinnsla verður sett upp til að framleiða dýrafóður úr dauðum fiski og úrgangi úr fiskvinnslu. Í seiða- og áframeldishlutanum verða yfir 200 ker, sum með stærstu eldiskerjum sem nú eru byggð. Stefnt er að því að framleiðslugeta nýrrar eldisstöðvar verði 40 þúsund tonn á ári. Framkvæmdir við fyrsta áfanga, fyrir 10 þúsund tonna framleiðslu, eiga að hefjast í ár og komast í gagnið eftir tvö ár, annar áfangi komist í gagnið 2028 og stöðin verði fullbyggð 2032.

Til framleiðslunnar áætlar félagið að nota að hámarki 30 þúsund lítra á sekúndu af jarðsjó, um 50 lítra af ferskvatni og um 3.200 sekúndulítra af ylsjó frá Reykjanesvirkjun sem nú rennur að hluta ónýttur til sjávar. Grunnvatnslíkan sem unnið var af ÍSOR sýnir að vinnsla á Norðurslóð sem er aðalvalkostur Samherja fiskeldis við staðsetningu stöðvarinnar, hefur í för með sér allt að 1,5 metra niðurdrátt vatnsborðs við Litlu-Sandvík þar sem mesta lækkunin verður. Líkanið sýnir að vinnslan muni valda 20 sentímetra niðurdrætti vatnsborðs á sjótökusvæði Reykjanesvirkjunar og 40-50 sm við vatnstökuholur við Sýrfell. Þá breytist seltustig grunnvatns á svæðinu við vinnslu Samherja fiskeldis. Vegna skorts á ferskvatni fyrir seiðaeldið verður sett upp fullkomið vatnsendurnýtingarkerfi í stöðinni.

Jákvæð áhrif á samfélagið

Niðurstaða umhverfismats sýnir að neikvæð áhrif eldisstöðvar verða mest á grunnvatn, landslag og ásýnd, fornleifar og jarðmyndanir og eru þau áhrif metin óveruleg til talsvert neikvæð. Mestu áhrifin eru á landslag, ásýnd og jarðmyndanir. Hins vegar eru áhrif fullbyggðrar stöðvar á samfélag metin talsvert jákvæð. Heildaráhrifin eru á bilinu talsvert jákvæð til talsvert neikvæð.

Fram kemur í matsskýrslunni að Samherji fiskeldi áformi að vinna að mótvægisaðgerðum og vöktun til að draga úr neikvæðum áhrifum framkvæmdarinnar. Þannig hyggst fyrirtækið vinna náið með HS Orku að rannsóknum á áhrifasvæði sjóvinnslunnar. Við útfærslu verklegra framkvæmda verður dregið úr beinu raski á eldhrauni og jarðminjum eins og mögulegt er og gætt að frágangi.

Höf.: Helgi Bjarnason