Straumur Farfólk, aðallega frá Afganistan, býr um sig á brautarpallinum í bænum Rijeka í Króatíu og bíður þess að komast lengra vestur á bóginn.
Straumur Farfólk, aðallega frá Afganistan, býr um sig á brautarpallinum í bænum Rijeka í Króatíu og bíður þess að komast lengra vestur á bóginn. — Denis Lovrovic / AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Andrés Magnússon andres@mbl.is Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins (ESB) hylltu Volodimír Selenskí Úkraínuforseta þegar hann kom til Brussel í gær eftir velheppnaðar heimsóknir til Lundúna og Parísar daginn áður. Hann var fullvissaður um frekari stuðning, þó aðild að ESB væri ekki í boði í bráð.

Baksvið

Andrés Magnússon

andres@mbl.is

Leiðtogar ríkja Evrópusambandsins (ESB) hylltu Volodimír Selenskí Úkraínuforseta þegar hann kom til Brussel í gær eftir velheppnaðar heimsóknir til Lundúna og Parísar daginn áður. Hann var fullvissaður um frekari stuðning, þó aðild að ESB væri ekki í boði í bráð.

Þrátt fyrir að málefni Úkraínu hafi verið efst á baugi á fundinum voru þau þó ekki hið eina sem leiðtogarnir ræddu, því útlendingamál kraumuðu upp á yfirborðið í tengslum við fundinn og ljóst að þau eiga eftir að vefjast fyrir ESB enn um hríð.

Flóttamannavandinn blossaði upp í Evrópu árið 2015 og mátti upphaflega rekja til stríðs straums Sýrlendinga, sem flúðu borgarastyrjöldina heima fyrir og leituðu til Vestur-Evrópu í von um betra líf. Við bættist fólk austar úr Asíu og einnig frá Afríku, sem margt – en engan veginn allt – flúði óöld og örbirgð og vildi freista gæfunnar í allsnægtum og öryggi Evrópu, þó sá draumur hafi ræst misvel.

Evrópa var hins vegar illa í stakk búin til þess að taka við fjöldanum og hefur reynt að stöðva för fólks á bátum yfir Miðjarðarhaf með ýmsum aðferðum. Þær hafa hins vegar ekki reynst mjög árangursríkar og hafa sætt gagnrýni, enda torvelda þær einnig (og kannski helst) för eiginlegs flóttafólks, sem raunverulega á lífi og limum að bjarga. Og áfram hrannast upp fólk í sérstökum búðum og borgum Evrópu.

Þolinmæði á þrotum

Þolinmæði almennings í Evrópu hefur víða farið þverrandi síðustu ár, einkum í Miðjarðarhafslöndunum og Austur-Evrópu, sem eru fyrstu áfangastaðir farfólksins og talsvert að gert til þess að það komist ekki lengra. Sambýlið við farfólkið hefur oft reynst örðugt, móttaka þess afar kostnaðarsöm og efnahagsþrengingar auka ekki þolgæði heimamanna. Ekki síst er stjórnmálastéttinni legið á hálsi fyrir að vilja ekki eða geta ekki gert eitthvað til þess að stemma stigu við straumnum, og það sem meira er, að „elítan“ kæri sig kollótta.

Nú virðist það vera að breytast, því í aðdraganda leiðtogafundarins í Brussel skrifuðu átta ríkjaleiðtogar ESB sameiginlegt bréf til framkvæmdastjórnar og leiðtogaráðs ESB, þar sem sagt var að „stjórnlaus“ straumur innflytjenda til Evrópu væri enn á ný einn helsti vandi álfunnar og ástandið í sumum löndum verra en árið 2015.

Evrópska stjórnmálastéttin leit lengi vel á slík sjónarmið sem jaðarskoðanir, jafnvel öfgar, sem ekki mætti virða viðlits. Upp á síðkastið hefur hún hins vegar séð hvernig pópúlistaframboð með slíkar áherslur hafa sópað til sín fylgi í Frakklandi, Ítalíu, Austurríki, Svíþjóð og víðar, sem gefur til kynna að vænn hópur kjósenda deili þeim áhyggjum. Á sama tíma hefur fylgi margra gróinna flokka dalað eða hrunið, svo miðjusæknir hófsemdarflokkar eiga mjög í vök að verjast og kvíða næstu kosningum.

Nýr tónn á miðjunni

Upp á síðkastið hafa því fjölmargir hefðbundnir flokkar um alla Evrópu tekið upp mun eindregnari afstöðu í útlendinga- og innflytjendamálum en áður, ekki ósvipað og danski Jafnaðarmannaflokkurinn gerði eftir að hann missti stjórnarmeirihlutann og Mette Frediksen varð leiðtogi hans 2015.

Þannig hafa gömlu, stóru flokkarnir á Evrópuþinginu sumir tekið að enduróma málflutning Viktors Orbáns, forsætisráðherra Ungverjalands, í innflytjendamálum, en stutt er síðan ESB beitti hann hörðu vegna þeirra. Það er þó ekki síður eftirtektarvert að í aðdraganda leiðtogafundarins lagði Ursula von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar ESB, fram tillögur um hvernig efla skyldi landamæravörslu Evrópsambandsins til muna. Fyrir aðeins nokkrum misserum hefði það verið nánast óhugsandi, en þetta gerir von der Leyen án þess að þurfa að standa nokkrum kjósendum reikningsskil stjórnarathafna sinna.

Frekari aðgerðir ESB í þessa veru gætu þó reynst erfiðar. Þó að valdhafarnir þar þurfi ekki að óttast dóm kjósenda, þá ganga hertar aðgerðir gagnvart farfólki gegn viðteknum skoðunum stjórnmálastéttarinnar þar og í heimaríkjunum. Ekki síður veit Brusselvaldið að breytt afstaða mun kalla á mikla andstöðu áhrifamikilla samtaka, þrýstihópa og stjórnmálamanna sem helgað hafa sig málstað farfólks. Leiðtogar ESB vita að sú gagnrýni yrði skefjalaus og þeim borin á brýn grimmd, kynþáttahatur og mannréttindabrot af fólki, sem það hefur til þessa talið sín megin í tilverunni.

Það mun reynast erfitt val. Vilja þeir hætta á það eða útrýmingu flokka sinna í komandi kosningum?

Höf.: Andrés Magnússon