Á dögunum var ég stödd í París til að kynna mér helstu strauma og stefnur hjá heimsþekktu erlendu tískuhúsi sem var stofnað af konu rétt eftir næstsíðustu aldamót. Á sama stað var fólk frá öllum heimshornum í sömu erindagjörðum

Á dögunum var ég stödd í París til að kynna mér helstu strauma og stefnur hjá heimsþekktu erlendu tískuhúsi sem var stofnað af konu rétt eftir næstsíðustu aldamót. Á sama stað var fólk frá öllum heimshornum í sömu erindagjörðum. Það eru forréttindi að fá innsýn í tískuheim sem þennan, fá að skyggnast inn í innsta kjarna. Að fá að heyra, sjá og finna lyktina af aldagamalli menningu er gott fyrir fólk. Sérstaklega fyrir fólk sem er alið upp í litlu samfélagi þar sem allir þekkja alla, vita allt um alla og eru bara tveimur kynslóðum frá búsetu í torfkofum. Það er auðvitað hægt að ferðast út um allan heim í gegnum sjónvarpið eða samfélagsmiðla. En upplifunin verður aldrei eins.

Óperuhúsið í París, Palais Opéra, var formlega opnað 1669 og varð fljótt miðpunktur skemmtanalífs Parísarbúa. Fólk mætti í óperuna þrisvar í viku til að lyfta andanum upp. Það er auðvelt í slíku umhverfi því íburðurinn á óperuhúsinu er yfirgengilegur. Á þessum tíma klæddu menn sig upp á, hittu aðrar manneskjur og töluðu um lífið, drauma og þrár. Þetta fólk nennti ekki alltaf inn í óperusalinn sjálfan, enda kannski fullmikið að sjá sömu sýninguna þrisvar í viku. Það var hinsvegar fjör á göngum óperuhússins. Þegar Parísarbúar skemmtu sér innan um alla þessa dýrð vorum við hér á Íslandi að reyna að lifa af matarskort og náttúruhamfarir. Við þurfum að muna eftir því þegar við pirrum okkur á því hvað við sem þjóð getum verið öfugsnúin út af litlu og mikið á röngunni ef það er leiðinlegt veður dag eftir dag. Jafnvel urrandi pirruð yfir því að það hafi verið gott veður í gulri viðvörun.

Í fyrrnefndri Parísarferð voru blaðamenn frá öllum heimshornum. Þar á meðal voru tveir tískublaðamenn frá Úkraínu. Önnur er lífsstílsritstjóri Úkraínska Vogue og hin er í sambærilegu starfi hjá Úkraínska ELLE. Þessar sterku konur voru ekkert að spá í veðrið eða hvað það væri leiðinlegt að þær kæmust ekki til Tenerife vegna stýrivaxtahækkana. Þær voru að drekka í sig menningu og sögu og upplifa töfra glansheimsins. Þeim fannst það fín tilbreyting því flesta aðra daga eru þær að reyna að lifa af í heimalandi sínu og halda sínu striki. Sama hvað á dynur og hvernig sem veðrið er.

Stríðið í Úkraínu snertir alla heimsbyggðina og því lentu þær í spurningavagni af minni hálfu. Ég vildi fá að vita hvernig líf þeirra væri. Hvernig það hefði breyst eftir að stríðið braust út og hvort lífsstílsblaðamenn ættu ekki erfitt uppdráttar þegar stríð geisar. Það sem kom mér á óvart er hvað þær voru yfirvegaðar og í miklu jafnvægi. Þær voru þakklátar fyrir að hafa ekki misst neinn nákominn í stríðinu og að enginn úr þeirra fjölskyldu hefði verið kallaður í herinn. Þótt þær séu bjartsýnar og sterkar þá hefur stríðið haft mikil áhrif á líf þeirra. Oft er raunveruleiki þeirra sá að þær hafa bara aðgang að rafmagni í fjóra tíma á dag. Það gerir það að verkum að þær neyðst til að skipuleggja sig betur en áður. Þegar ég spurði þær um innihald vinnunnar sögðu þær að það væri blæbrigðamunur - ekki umbylting. Þær hefðu eftir að stríðið braust út skrifað um það sem nýttist fólki í raunveruleikanum sem það lifir. Eins og hvernig megi stöðva blæðingu úr sárum og fleira í þeim dúr.

Þótt þær skrifi um hvernig stöðva megi blæðingu úr sárum hafa þær alls ekki misst áhugann á helstu tískustraumum, húðvörum og förðunarvörum. Það hafa samlandar þeirra heldur ekki gert. Fólk hættir ekki að eiga áhugamál og reyna að hressa sig við þótt stríð geisi. Þegar ég spurði þær um það hvort það hefði ekki hvarflað að þeim að flýja land sögðu þær nei. Þær vilja vera með fólkinu sínu og búa þar sem rætur þeirra liggja. Þær sögðu mér að Úkraínumenn væru harðgerðir og ætluðu ekki að gefast upp. Þær neituðu að lúffa fyrir eldri manni með mikilmennskubrjálæði. Þær eru stoltar af uppruna sínum og ætla aldrei að gefast upp.

Það hafa allir gott af því að hitta annað fólk með sterkan lífsvilja. Það að hitta þær ýtti við mér. Ég ætla aldrei að kvarta eða pirra mig á smámunum. Ég ætla frekar að hringja í vin, fara út í göngutúr, blása á mér hárið og prófar nýjar aðferðir í því að bera augnskugga á augnlok. Fólk hættir ekki að draga andann þótt lífið geti verið ósanngjarnt og erfitt. Svo vona ég heitt og innilega að kollegar mínir í Úkraínu fái frið sem fyrst svo þær geti haldið áfram að sigra heiminn og verið sterkar. Jafnvel þótt þær séu ógurlega mikið málaðar með blásið hár.