Askja Vökin sést sem dökkur blettur á hrímhvítu vetrarríkinu.
Askja Vökin sést sem dökkur blettur á hrímhvítu vetrarríkinu. — Ljósmynd/Sentinel-gervitungl ESA
Nýjar gervitunglamyndir sýna afbrigðilega stórar vakir í Öskjuvatni, sem annars er ísilagt. Frá þessu greindi rannsóknarstofa HÍ í eldfjallafræðum og náttúruvá í gær. Töluverður órói hefur verið í eldfjallinu frá því árið 2012

Nýjar gervitunglamyndir sýna afbrigðilega stórar vakir í Öskjuvatni, sem annars er ísilagt. Frá þessu greindi rannsóknarstofa HÍ í eldfjallafræðum og náttúruvá í gær.

Töluverður órói hefur verið í eldfjallinu frá því árið 2012. Það ár bræddi fjallið af sér ísinn á vatninu um miðjan vetur.

„Mælingar það ár sýndu mikinn jarðhita á botni vatnsins er skýrt gat bráðnun íssins. Mælingar eftir skriðuföllin 2014 sýndu aftur á móti að mikið hafði dregið úr jarðhitanum frá mælingum 2012. Ísinn á Öskjuvatni er undir eðlilegum kringumstæðum viðvarandi fram í lok júní, byrjun júlí,“ segir í tilkynningu frá stofunni.

Vakirnar eru mun stærri en venjulega og geta einungis skýrst af auknum jarðhita undir niðri. Bent er á að þetta rími við önnur merki sem mælst hafi við fjallið, á borð við landris og skjálfta. Eins og greint var frá á síðasta ári hefur land tekið að rísa við eldstöðina, en það hefur ekki gerst í fleiri áratugi. Rishraðinn í Öskju þykir óvenjumikill, ef miðað er við sambærileg eldfjöll í heiminum.