Barátta Hjálmtýr Alfreðsson, Heimir Ó. Heimisson og Tandri M. Konráðsson.
Barátta Hjálmtýr Alfreðsson, Heimir Ó. Heimisson og Tandri M. Konráðsson. — Morgunblaðið/Kristinn
Haukar og Stjarnan skildu jöfn, 33:33, í æsispennandi leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi. Haukar leiddu með einu marki þegar Stefán Rafn Sigurmannsson hindraði að Stjarnan tæki aukakast er örfáar sekúndur lifðu leiks

Haukar og Stjarnan skildu jöfn, 33:33, í æsispennandi leik í úrvalsdeild karla í handknattleik, Olísdeildinni, á Ásvöllum í Hafnarfirði í gærkvöldi.

Haukar leiddu með einu marki þegar Stefán Rafn Sigurmannsson hindraði að Stjarnan tæki aukakast er örfáar sekúndur lifðu leiks. Dómarar leiksins studdust við VAR-skjáinn og dæmdu vítakast. Úr því skoraði Gunnar Steinn Jónsson á lokasekúndunni og sættust liðin því á jafnan hlut.

Haukar færðu sig upp í sjöunda sæti þar sem liðið er nú með 14 stig, jafnmörg og ÍBV, sem á þó tvo leiki til góða. Stjarnan fór þá upp í fjórða sæti þar sem liðið er með 17 stig, jafnmörg og Afturelding í þriðja sæti og Fram í fimmta sæti.

Andri Már Rúnarsson var markahæstur í liði Hauka með átta mörk og Tandri Már Konráðsson var markahæstur hjá Stjörnunni, einnig með átta mörk.

Haukar endurheimtu í gær tvo reynslubolta sem hafa báðir glímt við langvarandi meiðsli. Aron Rafn Eðvarðsson sneri aftur í markið eftir alvarleg höfuðmeiðsli og varði fimm skot. Línumaðurinn Þráinn Orri Jónsson skoraði þá eitt mark eftir að hafa slitið krossband í hné með íslenska landsliðinu á EM 2022. gunnaregill@mbl.is