Viðskiptaþing Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, sagði Ísland mundu geta notað aðeins sjálfbæra orku.
Viðskiptaþing Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, sagði Ísland mundu geta notað aðeins sjálfbæra orku. — Morgunblaðið/Eggert
Björn Leví Óskarsson blo@mbl.is Vandséð er hvort Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar og markmið um kolefnishlutleysi. Seinleg stjórnsýsla, skortur á regluverki og hömlur á erlendri fjárfestingu eru allt hindranir sem ryðja þarf úr vegi svo markmiðin standist. Orkumálin voru á dagskrá Viðskiptaþings sem fór fram á Nordica í gærdag, þar sem farið var yfir helstu áskoranir og mögulegar lausnir í orkumálum.

Björn Leví Óskarsson

blo@mbl.is

Vandséð er hvort Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar og markmið um kolefnishlutleysi. Seinleg stjórnsýsla, skortur á regluverki og hömlur á erlendri fjárfestingu eru allt hindranir sem ryðja þarf úr vegi svo markmiðin standist. Orkumálin voru á dagskrá Viðskiptaþings sem fór fram á Nordica í gærdag, þar sem farið var yfir helstu áskoranir og mögulegar lausnir í orkumálum.

Lögfest loftslagsmarkmið Íslands er að árið 2030 hafi útblástur gróðurhúsalofttegunda dregist saman um 55%, og að árið 2040 verði landið orðið kolefnishlutlaust. Tvöfalda þarf raforkuframleiðslu til að standa undir skuldbindingum. Umtalsverðar hindranir standa þó í veginum. Jafnframt er mikilvægt að draga úr hömlum á erlenda fjárfestingu í orkuframleiðslu. Hömlurnar eru þær þriðju mestu meðal OECD-ríkja.

Virða ekki tímafresti

Fram kemur í skýrslu Viðskiptaráðs, sem gefin var út samhliða þinginu, að fyrsta skrefið til úrbóta sé að stjórnsýslan virði lögbundna tímafresti. Ekki þarf að leita lengi eftir dæmum þess efnis að lögbundnir frestir, t.d. í flutningsverkefnum, séu ekki virtir. Þannig tók til að mynda undirbúningur fyrir Kröflulínu III tæplega sjö ár, um tvöfalt lengri tíma en ef allir frestir hefðu staðist. Helsta ástæðan fyrir því að verkefnið dróst á langinn var að ákvarðanir, úrskurðir og álitsgerðir opinberra stofnana fóru langt umfram lögbundna tímafresti.

Sjálfbærasta land í heimi

Ísland hefur tækifæri til að vera sjálfbærasta land í heiminum, sagði Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs, sem hélt fyrsta erindið á þinginu. Þar benti hann á að orkuskiptin væru ekki aðeins mikilvæg til þess að standa við loftslagsmarkmið og -skuldbindingar, heldur búi Ísland yfir tækifærum til að vera fyrsta landið sem notar aðeins sjálfbæra orku, og einnig út frá viðskiptahagsmunum Íslands. Það gæti laðað að landinu nýsköpunarfyrirtæki og haft jákvæð áhrif gagnvart ferðamönnum. Skortur væri á ákvörðunum í þessum efnum, og benti hann á að ekki væri nóg að vera með sýn og áætlanir meðan ákvarðanir „deyja í kerfinu“.

Verðmæti í ósnortinni náttúru

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra ávarpaði þingið. Hún sagði orkunýtingu vera eitt stærsta pólítíska ágreiningsefnið á þessari öld, sem jafnvel meiri deila er um en fiskveiðistjórnunarkerfið. Einnig varpaði hún fram þeirri spurningu hvaða verðmæti fælust í ósnortinni náttúrunni, og þó ekki væri hægt að meta fegurð til fjár, þá þyrfti að meta hana til einhvers. Skapa þurfi sátt um forgangsröðun orku sem notuð er í orkuskipti. Einnig kom fram í ávarpi ráðherrans að orkuskiptin væru ekki eina leiðin í átt að markmiðum um kolefnishlutleysi, heldur eru einnig tækifari falin í minni sóun og betri nýtingu orku. Nefndi hún matarsóun sérstaklega í því samhengi.

Loðnuvertíðin kostnaðarsöm

Sæmundur Sæmundsson, formaður sjálfbærnihóps Viðskiptaráðs, kynnti skýrslu þingsins. Lagði hann áherslu á í sinni ræðu að mikilvægt væri að velja virkjanakosti, þó það væri erfitt val. Hins vegar væri seinagangur í kerfinu og nauðsynlegt væri að velja hvar ætti að taka af skarið og virkja. Nefndi hann máli sínu til stuðnings að rafmagnsskortur í síðustu loðnuvertíð hefði orðið til þess að allur ávinningur af notkun rafmagnsbíla frá upphafi hefði þurrkast út. Svifasein stjórnsýsla og kærumál stoppi ferli og tefji framkvæmdir svo árum skipti. Regluverkið sé sömuleiðis þungt og regluverk skorti um vindorkuframkvæmdir. Úr þessu þurfi að bæta.

Fjöldi lausna

Það eru þó ekki bara vandamál og neikvæðar fréttir af orkumálum. Dr. Paul Turner, forstjóri Hecate Wind, fjallaði um möguleika og ráðagerðir um nýtingu vindorku á hafi úti. Nái hugmyndir hans fram að ganga gæti það staðið undir allt að helmingi þeirrar orku sem þarf að framleiða. Einnig kynnti Íris Baldursdóttir, annar stofnenda og framkvæmdastjóri Snerpu Power, lausn sem dregur úr sóun í flutningskerfum rafmagns.

Í hnotskurn

Tvöfalda þarf raforkuframleiðslu svo Ísland geti staðið við skuldbindingar sínar og markmið um kolefnishlutleysi

Svifasein stjórnsýsla og takmarkað regluverk tefur fyrir fjárfestingu og framkvæmdum

Mikil tækifæri í vindorkuverkefnum, þá sérstaklega á hafi úti, sem geta staðið undir helmingi orkuframleiðslunnar