Hatay Hin sextán ára Melda hafði verið grafin í rústunum frá því á mánudag þar til hún fannst loksins á lífi í gær.
Hatay Hin sextán ára Melda hafði verið grafin í rústunum frá því á mánudag þar til hún fannst loksins á lífi í gær. — AFP/Bulent Kilic
Mannfall eftir jarðskjálftana í Tyrklandi og Sýrlandi fer stöðugt hækkandi og í gærkvöldi var staðfest mannfall komið yfir 21 þúsund manns og meira en 70 þúsund hafa slasast. Vonir um að finna fólk á lífi í rústunum dvínar með hverri klukkustund

Mannfall eftir jarðskjálftana í Tyrklandi og Sýrlandi fer stöðugt hækkandi og í gærkvöldi var staðfest mannfall komið yfir 21 þúsund manns og meira en 70 þúsund hafa slasast. Vonir um að finna fólk á lífi í rústunum dvínar með hverri klukkustund.

Nístingskuldi hefur hamlað leitinni í rústum þúsunda bygginga og kuldinn ógnar enn frekar lífi margra fórnarlamba skjálftans sem eru án húsaskjóls og drykkjarvatns. Nú þegar 72 klukkustundir eru liðnar frá stærsta skjálftanum á mánudag eru líkur á að finna fólk á lífi í rústunum hverfandi, en það er viðmiðið sem sérfræðingar telja líklegasta tímabilið til að bjarga mannslífum. Þrátt fyrir erfiðleikana hafa þúsundir innlendra og erlendra leitarmanna ekki gefist upp á leitinni í þeirri von að fleiri finnist á lífi.

Heyrðu hljóð frá rústunum

Rúmum 80 klukkustundum eftir stærsta skjálftann var hinni 16 ára gömlu Meldu Adtas bjargað úr rústum í Hatay héraði og grátandi faðir hennar og sorgmædd þjóðin fagnaði þessum góðu fréttum í gær. Björgunin vakti von í brjóstum margra sem voru að missa móðinn.

Það tók björgunarmennina fimm klukkustundir að bjarga lífi hennar eftir að nágrannar sögðu að þeir hefðu heyrt hljóð frá rústunum. Eftir langan tíma, þar sem björgunarmenn unnu hljóðlega til að halda sambandi við Meldu og fjarlægja varlega hverja hindrunina á fætur annarri, sáu þeir Meldu sem var köld, marin og blá en lifandi! Hún sat föst undir vegg sem hafði hrunið og björgunarmennirnir fluttu hana varlega á teppi út í sjúkrabílinn. Þegar þeir sem fylgdust með björguninni sáu að Melda væri heil á húfi brutust út mikil fagnaðarlæti. Fólk faðmaðist og óskaði björgunarmönnum til hamingju. Margir gátu ekki haldið aftur af tárunum.

„Guð blessi ykkur öll!“ hrópaði faðir hennar.

En ekki eru allar fréttir góðar. Í borginni Antakya í suðurhluta Tyrklands var líkpokum raðað upp á bílastæði þar sem fólk leitaði ættingja sinna. „Við fundum frænku mína, en ekki frænda minn,“ sagði Rania Zaboubi, sýrlenskur flóttamaður sem missti átta fjölskyldumeðlimi.

Hiti í tyrknesku borginni Gaziantep fór niður í mínus fimm stig á í gærmorgun en þúsundir fjölskyldna eyddu nóttinni í bílum og gerðu bráðabirgðatjöld. Foreldrar gengu um götur borgarinnar með börn sín í fanginu vafin í teppi því það var hlýrra en að sitja í tjaldi. Sumir hafa fundið griðastað hjá nágrönnum eða ættingjum. Aðrir hafa yfirgefið svæðið en margir hafa ekki í neitt hús að venda.

Hjálp berst loks til Sýrlands

Hjálparsveitir Sameinuðu þjóðanna náðu til uppreisnarmanna í norðvesturhluta Sýrlands í gær, í fyrsta sinn síðan jarðskjálftar gengu yfir. Fréttaritari AFP sá sex flutningabíla aka frá Tyrklandi yfir landamærin við landamærastöðina Bab al-Hawa. Í yfirlýsingu Alþjóða fólksflutningastofnunarinnar sagði að verið væri að flytja teppi, dýnur, tjöld og grunnhjálpargögn til að mæta þörfum að minnsta kosti 5.000 manns. „Við vinnum mjög náið með yfirvöldum og vonum að aðstoðin nái fljótt til þeirra sem eiga undir högg að sækja,“ sagði Antonio Vitorino, yfirmaður stofnunarinnar.

En björgunarsveitarmenn Hvítu hjálmanna sem starfa á svæðum uppreisnarmanna sögðust hafa orðið fyrir vonbrigðum með aðstoðina, sem þeir sögðu hluta af „hefðbundnum“ hjálparsendingum. „Þetta er sannarlega ekki sérstök aðstoð né búnaður fyrir leitar- og björgunarsveitir,“ sögðu þeir í yfirlýsingu á Twitter. „Þetta veldur okkur miklum vonbrigðum þegar okkur sárlega vantar slíkan búnað til að bjarga mannslífum.“

Erlendar leitarsveitir og hjálpargögn eru þegar komin á vettvang. Auk hræðilegs mannfalls virðist líklegt að efnahagslegur kostnaður skjálftanna gæti numið 4 milljörðum dollara eða meira, að mati Fitch Ratings.