Störf Helmingur kvenna á vinnumarkaði starfar hjá hinu opinbera.
Störf Helmingur kvenna á vinnumarkaði starfar hjá hinu opinbera. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga fjölgaði um 11.400 á árunum 2015 til 2021. Það er rúmlega 20% fjölgun, en á sama tíma fjölgaði fólki á almennum vinnumarkaði um 4.200, eða um 3%. Þetta kemur fram í skýrslu Intellecon, sem unnin var fyrir Félag atvinnurekenda (FA) og birt í gær

Starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga fjölgaði um 11.400 á árunum 2015 til 2021. Það er rúmlega 20% fjölgun, en á sama tíma fjölgaði fólki á almennum vinnumarkaði um 4.200, eða um 3%. Þetta kemur fram í skýrslu Intellecon, sem unnin var fyrir Félag atvinnurekenda (FA) og birt í gær. Skýrslan ber yfirskriftina: Er ekki bara best að vinna hjá ríkinu?

Í skýrslunni kemur fram að hlutfall opinberra starfa á vinnumarkaðinum í heild er með því hæsta sem þekkist meðal OECD-ríkja. Það er eingöngu hærra í Danmörku, Svíþjóð og Noregi.

Þá kemur einnig fram að mun hærra hlutfall kvenna en karla á vinnumarkaði vinna hjá hinu opinbera. Þannig eru 73% af starfsmönnum sveitarfélaganna konur en 66% ríkisstarfsmanna. Á árunum 2008-2021 fjölgaði vinnandi konum í starfi hjá hinu opinbera hlutfallslega úr 43% í 47%. Því má ætla að tæplega helmingur kvenna á vinnumarkaði vinni hjá hinu opinbera.

Önnur meginniðurstaða skýrslunnar er að laun hjá hinu opinbera eru orðin samkeppnisfær við almenna markaðinn. Greidd laun í opinberri stjórnsýslu eru almennt hærri en í flestum öðrum starfsgreinum. „Að þessu gefnu má ætla að eftirsóknarverðara sé en áður að vinna hjá hinu opinbera,“ segir í kynningu FA á skýrslunni.

Ýmislegt annað kemur fram í skýrslunni. Til að mynda hefur starfsfólki af erlendum uppruna fjölgað mjög á vinnumarkaði en aðeins 16% erlendra starfsmanna störfuðu hjá hinu opinbera árið 2021. Einnig eru vísbendingar um að vinnustundum hjá vinnandi fólki hafi fækkað verulega. Sú þróun hófst áður en samið var um styttingu vinnuviku í kjarasamningum, segir í niðurstöðum skýrslunnar.