[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Allt gegnsætt! Föt sem sést í gegnum eru gríðarsmart. Fólk gæti þurft hjartastuðtæki þegar þetta er nefnt en málið er að það skiptir máli hvað er notað við. Það er enginn að stinga upp á því að fólk sé nakið undir gegnsæju fötunum heldur finni sér eitthvað undir sem passar

Allt gegnsætt!

Föt sem sést í gegnum eru gríðarsmart. Fólk gæti þurft hjartastuðtæki þegar þetta er nefnt en málið er að það skiptir máli hvað er notað við. Það er enginn að stinga upp á því að fólk sé nakið undir gegnsæju fötunum heldur finni sér eitthvað undir sem passar. Hjólabuxur og toppur gætu til dæmis verið góð hugmynd ef fólk er ekki mjög spéhrætt.

Frjálslegar dragtir!

Það er ekki hægt að minnast á ferska tískustrauma án þess að minnast á dragtir með frjálslegu sniði. Buxurnar eiga að vera víðar og síðar og jakkinn á að vera flaksandi. Til þess að þetta geti gengið upp fyrir venjulega líkama þarf efnið að vera svolítið eftirgefanlegt og mjúkt. Ef buxurnar og jakkinn eru úr of stífu efni næst ekki nægileg mýkt og eiginleikarnir tapast. Við þessar mjúku og þægilegu dragtir þarf fólk að vera í þunnum, mjúkum topp undir.

Barbie-bleikt!

Bleiki liturinn var vinsæll á síðasta ári en hann verður enn vinsælli í ár. Tilveran kallar á bleikt við bleikt og má þá nota ólíkar flíkur saman en til þess að bleikt við bleikt gangi upp þarf hitatónninn í litnum að vera svipaður. Hlýr bleikur við hlýtt og kaldur bleikur við kalt.

Litlar glys- töskur!

Litlar partítöskur verða arfavinsælar í ár. Þessar töskur passa sérlega vel þegar fólk bregður undir sig betri fætinum og reimar á sig partískóna. Ekki er verra ef glystöskurnar eru svolítið leiftrandi, úr glansefnum eða pallíettuskreyttar.

Buxur í anda Britney!

Eitt af því sem ekki hefur sést lengi eru buxur með lágri mittislínu. Þetta á bæði við um laugardagsbuxur og gallabuxur. Þessar buxur eru ekta Britney Spears í kringum 2002. Þessar buxur eiga að vera lausar í mittið – ekki níðþröngar. Nema um gallabuxur sé að ræða, þá mega þær vera þröngar en með útvíðum skálmum. Ef þú ert enn þá í tískuáfalli síðan þarna um árið þá gætir þú prófað að fara í slíkar buxur og fara svo aftur og aftur í þær þangað til þú ert komin yfir mesta sjokkið.

Blátt við blátt og ýktur varalitablýantur!

Cardi B. stal þrumunni á Grammy-verðlaununum í kóngabláu dressi. Þessi blái litur verður áberandi í vortískunni í ár. Til þess að leggja áherslu á bláa þemað var hún með bláan augnblýant sem rammaði inn augun. Hún var líka með þykkan varalitablýant sem var töluvert dekkri en varaliturinn sjálfur. Við höfum líklega allar prófað þetta einhvern tímann í kringum árið 2000 og héldum örugglega að við myndum aldrei gera þetta aftur. Nú getum við andað léttar því þetta er skemmtilegt og hressandi. Kannski gætir þú bara keypt þér nýjan varalitablýant eins og Cardi B. til að verða flottust á árshátíðinni eða bara fyrir framan kaffivélina í vinnunni.

Höf.: Marta María Winkel Jónasdóttir |