Grimmd Unnið er að því að bera kennsl á lík þeirra rúmlega 450 almennra borgara sem myrtir voru af Rússum í Karkív og hent í fjöldagröf úti í skógi. Þangað til bíða þessir krossar skammt frá þeim stað sem líkin fundust.
Grimmd Unnið er að því að bera kennsl á lík þeirra rúmlega 450 almennra borgara sem myrtir voru af Rússum í Karkív og hent í fjöldagröf úti í skógi. Þangað til bíða þessir krossar skammt frá þeim stað sem líkin fundust. — AFP
Binda þarf enda á Úkraínustríðið og stöðva útþenslustefnu Rússlands í Evrópu áður en hersveitir Moskvuvaldsins sækja enn vestar. Eina leiðin til þess er að flýta vopnasendingum Vesturlanda og tryggja úkraínska hernum þungavopn á borð við langdrægar…

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Binda þarf enda á Úkraínustríðið og stöðva útþenslustefnu Rússlands í Evrópu áður en hersveitir Moskvuvaldsins sækja enn vestar. Eina leiðin til þess er að flýta vopnasendingum Vesturlanda og tryggja úkraínska hernum þungavopn á borð við langdrægar eldflaugar, öflug loftvarnakerfi og orrustuþotur af fjórðu kynslóð, m.a. hina bandarísku F-16. Þetta sagði Júrí Sak, einn helsti ráðgjafi varnarmálaráðherra Úkraínu.

„Eitt helsta vopn Rússlands er tíminn. Sem bandalag frjálsra þjóða verðum við að herða enn róðurinn svo hægt sé að sigra óvininn á þessu ári – 2023,“ sagði Júrí Sak í viðtali við Times Radio. Orrustuskriðdrekar þeir sem Vesturlönd hafa þegar heitið Kænugarði munu vissulega valda miklum usla á vígvellinum en til að endurheimta megi landsvæði úr klóm Rússa verða bryntækin að njóta stuðnings annarra vopnakerfa, m.a. þeirra sem minnst hefur verið á. Án fjölbreyttrar flóru vopna í miklu magni mun sókn Úkraínu reynast erfið.

„Við þurfum á öllum þeim stuðningi að halda sem völ er á til að verja heimkynni okkar og sameiginleg gildi Evrópu. Og til þess að sigra þennan fjandmann,“ sagði hann.

Flókið að afhenda flugvélar

Forsætisráðherra Bretlands hefur beðið um mat á því hvort útvega megi Úkraínu fleiri vopnakerfi og þá hvaða kerfi það eru sem helst koma til greina. Gerði hann það strax í kjölfar heimsóknar Úkraínuforseta til Bretlands í vikunni.

Eigi Bretland að útvega orrustuþotur yrði Eurofighter Typhoon fyrir valinu, en flugherinn á um 140 slíkar vélar. Hins vegar er sá hængur á að breski flugherinn á fáar sem engar þotur til vara. Eigi hann að afhenda vélar kæmu þær úr herþjónustu og myndu um leið skerða getu flughersins.

Þá verður þjálfun úkraínskra flugmanna og viðhaldsmanna á Typhoon-vélina bæði kostnaðarsöm og tímafrek. Þotan er mun tæknilegri og flóknari rekstrarlega en vélar Úkraínu. Bretar gætu sjálfir sinnt viðhaldinu en til þess þyrfti að koma upp aðstöðu í Póllandi.