Uppbygging Tölvumynd sýnir hvernig myndver REC Studio gætu litið út við Hellnahraun í Hafnarfirði. Fyrsti áfangi kvikmyndaversins gæti verið tilbúinn eftir 2-3 ár ef áætlanir ganga eftir og fleiri fylgt í kjölfarið.
Uppbygging Tölvumynd sýnir hvernig myndver REC Studio gætu litið út við Hellnahraun í Hafnarfirði. Fyrsti áfangi kvikmyndaversins gæti verið tilbúinn eftir 2-3 ár ef áætlanir ganga eftir og fleiri fylgt í kjölfarið.
Höskuldur Daði Magnússon hdm@mbl.is „Við erum ekki að fara í samkeppni við önnur kvikmyndaver hérna, við lítum á þetta sem viðbót,“ segir Þröstur Sigurðsson, ráðgjafi hjá Arcur og einn aðstandenda nýs kvikmyndavers sem áformað er að reisa í Hafnarfirði.

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við erum ekki að fara í samkeppni við önnur kvikmyndaver hérna, við lítum á þetta sem viðbót,“ segir Þröstur Sigurðsson, ráðgjafi hjá Arcur og einn aðstandenda nýs kvikmyndavers sem áformað er að reisa í Hafnarfirði.

Rósa Guðbjartsdóttir bæjarstjóri greindi frá því á Facebook-síðu sinni í gær að ákveðið hefði verið á fundi bæjarráðs að veita fyrirtæki Þrastar og Halldórs Þorkelssonar, REC Studio ehf., vilyrði fyrir lóð í Hellnahrauni 4, iðnaðarsvæði til móts við álverið í Straumsvík.

Kvikmyndaver REC Studio á að verða hið stærsta hér á landi. „Þetta er gríðarlega spennandi fyrir okkur Hafnfirðinga. Hér geta orðið til hundruð góðra starfa, ýmis afleidd áhrif á fyrirtæki og aðra í bæjarfélaginu, aukin athygli og viðskipti í Hafnarfirði,“ segir Rósa.

Þröstur segir að þeir Halldór hafi fengist við ýmiss konar verkefni og fjármögnun þeirra. Halldór hafi til að mynda unnið í sprotafyrirtæki við fjármögnun kvikmyndaverkefna og þar verið í samstarfi við erlenda aðila sem hafi haft mikinn áhuga á að koma inn í verkefnið. „Þegar breytingin verður á styrkjakerfinu hér heima og þörfin verður augljósari fyrir nýtt kvikmyndaver fer þetta af stað hjá okkur,“ segir Þröstur og vísar til hækkunar á endurgreiðslu vegna kvikmyndagerðar úr 25% í 35% á stærri verkefnum í fyrra.

Aðspurður segir Þröstur að samstarfsaðilar séu bæði Bandaríkjamenn og evrópskt fyrirtæki. Ekki sé tímabært að gefa upp hverjir það eru. „Við vonumst til að það taki ekki nema 2-3 ár að koma einhverju upp. Fyrsti áfangi verður um fimm þúsund fermetrar. Þar af verða tvö svokölluð „soundstage“ eða myndver og svo þjónustubyggingar í kringum það. Ef vel tekst til má búast við að það verði fleiri myndver byggð á lóðinni. Ef við getum leigt þessi fyrstu tvö fljótlega út myndum við nota afraksturinn í frekari uppbyggingu. Kostnaður við fyrsta áfanga verður í kringum 5-7 milljarða króna.“

Hið tíu milljarða verkefni með tökum True Detective hefur sýnt að þau fáu myndver sem eru á Íslandi anna ekki eftirspurn. Ljóst er að kvikmyndaiðnaðurinn býr sig undir að fleiri slík stórverkefni rati hingað. Þröstur segir að það hafi vantað stórt, sérbyggt kvikmyndaver hér.

„Það hefur verið skortur á kvikmyndaverum um allan heim. Okkar kerfi hér heima vinnur hratt, það eru allir fljótir að undirbúa og koma þessu af stað. Það tók okkur tiltölulega stuttan tíma að græja lóð og land á meðan það tekur lengri tíma úti í heimi, jafnvel einhver ár. Við ættum því að geta komið vel inn á markaðinn,“ segir Þröstur.

Góður staður

Staðsetning þykir góð, mitt á milli flugvallarins og þjónustu á höfuðborgarsvæðinu. Í kynningu er rakið að hvert sérútbúið myndver skapi að jafnaði um 110 störf en sá fjöldi geti margfaldast tímabundið við gerð stórmynda.

Ákveðið var að verið yrði grænt, það er að eftir fremsta megni verði stuðst við sjálfbærar lausnir við uppbygginguna og rekstur myndversins. Þá verði stefna um lágmarkskolefnisspor ráðandi við val byggingarefna og gróður nýttur til skjólmyndunar og aukinna lífsgæða. „Þetta mun hjálpa okkur við markaðssetningu á verinu,“ segir Þröstur.