Kröftug „Uppfærslan stendur og fellur með leikurunum tveimur sem túlka Thomas og Vöndu,“ segir í rýni.
Kröftug „Uppfærslan stendur og fellur með leikurunum tveimur sem túlka Thomas og Vöndu,“ segir í rýni. — Ljósmynd/Grímur Bjarnason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tjarnarbíó Venus í feldi ★★★½· Eftir David Ives. Íslensk þýðing: Stefán Már Magnússon. Leikstjórn: Edda Björg Eyjólfsdóttir. Leikmynd: Brynja Björnsdóttir. Búningar: María Ólafsdóttir. Tónlist og hljóðmynd: Halldór Eldjárn. Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson og Jóhann Friðrik Ágústsson. Aðstoð við danshreyfingar: Sveinbjörg Þórhallsdóttir. Dramatúrg og aðstoð við leikstjórn: Hafliði Arngrímsson. Leikarar: Sara Dögg Ásgeirsdóttir og Sveinn Ólafur Gunnarsson. Edda Productions frumsýndi í Tjarnarbíói fimmtudaginn 26. janúar 2023.

Leiklist

Silja Björk

Huldudóttir

Leikritið Venus í feldi eftir David Ives var frumflutt í Bandaríkjunum 2010 og rataði vegna vinsælda ári síðar á Broadway. Í framhaldinu hefur það verið sett upp m.a. í Ástralíu, Kanada og Bretlandi. Árið 2013 frumsýndi Roman Polanski kvikmynd sem gerð var eftir leikritinu og sýnd á frönsku kvikmyndahátíðinni hérlendis ári síðar. Fyrir skemmstu var leikritið frumsýnt í Tjarnarbíói í afbragðsleikstjórn Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur og íslenskri þýðingu Stefáns Más Magnússonar sem fer vel í munni leikenda.

Verkið hverfist um tvær persónur. Í upphafi leiks kynnumst við leikstjóranum Thomasi Novachek sem skrifað hefur eigin leikgerð upp úr nóvellunni Venus im Pelz (Venus í feldi) eftir austurríska höfundinn Leopold von Sacher-Masoch sem út kom 1870. Líkt og eftirnafnið gefur til kynna er masókismi eða sjálfspíslarhvöt nefnd eftir höfundinum og mun það sérstaklega vera vegna umræddrar nóvellu.

Thomas (Sveinn Ólafur Gunnarsson) er einn eftir í leikhúsinu að loknum árangurslausum leikprufum, því honum gengur ekkert að finna leikkonu sem hentar í hlutverk Vöndu von Dunajev fyrir væntanlega sviðsetningu leikgerðarinnar. Þegar hann er við það að pakka saman birtist leikkonan Vanda Jordan (Sara Dögg Ásgeirsdóttir) óvænt. Thomasi líst ekkert á leikkonuna, sem að hans mati er allt of óhefluð til að túlka hina fáguðu nöfnu sína. Leikkonan gefur sig hins vegar ekki fyrr en hún fær að prófa að leiklesa hlutverkið og fyrr en varir er Thomas farinn að leiklesa hlutverk Severins von Kusiemski á móti henni. Kusiemski er mótaður af atviki þegar eldri frænka hans, í vitna viðurvist, niðurlægði hann kynferðislega með birkihríslu með þeim afleiðingum að hann upplifir í framhaldinu sársauka sem nautn og sækist eftir því að láta drottna yfir sér. Í því skyni gerir hann samning við Vöndu von Dunajev um að hún kúgi hann sem þræl sinn. Ástargyðjan Venus svífur síðan yfir vötnum í nóvellunni, því ónefndan sögumann dreymir samræður um ástina sem hann á við gyðjuna.

Framan af sýningu er Thomas sá sem virðist hafa töglin og hagldirnar, enda hefur hann valdið til að hafna Vöndu standist hún ekki kröfur hans og væntingar hvort heldur sem leikkona eða starfskraftur, kyntákn eða möguleg hjásvæfa. Eftir því sem leiknum vindur fram og Thomas og Vanda renna saman við hlutverk sín sem Severin von Kusiemski og Vanda von Dunajev breytist valdajafnvægi þeirra með þeim hætti að Vanda Jordan nær sömu stjórn á Thomasi og nafna hennar hefur yfir Kusiemski í nóvellunni. Áður en yfir lýkur fara áhorfendur, líkt og Thomas, að efast um að Vanda sé af þessum heimi enda virðist hún búa yfir yfirnáttúrlegum krafti, eiginleikum og vitneskju, en vísbendingum þessa efnis er reglulega laumað inn í framvinduna.

Fyrir uppfærsluna hefur rýminu í Tjarnarbíói verið snúið við þannig að áhorfendur sitja aftast á sviðinu og horfa á persónur verksins ýmist leiklesa og leika leikritið í leikritinu á sviðinu eða fara um hina hefðbundnu áhorfendabekki í samtölum sínum. Þessi viðsnúningur virkar vel. Stílhreina og einfalda umgjörð sýningarinnar hannar Brynja Björnsdóttir á smekklegan og áhrifaríkan hátt. Í búningum sínum vísar María Ólafsson í leður og ólar í anda BDSM. Báðar persónur verksins klæðast svörtum leðurflíkum, hann buxum en hún pilsi og lífstykki. Svarti liturinn er brotinn upp af hvítum 19. aldar hefðarkjól sem Vanda klæðist til að túlka nöfnu sína, en hvíti litur sakleysisins gengur einnig aftur í feldinum sem gyðjan skartar undir lokin.

Uppfærslan stendur og fellur með leikurunum tveimur sem túlka Thomas og Vöndu. Óhætt er að segja að Edda Björg hafi valið vel í hlutverkin, því það gneistar af Söru Dögg Ásgeirsdóttur og Sveini Ólafi Gunnarssyni í samleiknum. Þau sýna vel þá breytingu sem verður í dýnamík persónanna og valdatafli. Bæði hafa þau leiktæknilega einstaklega gott vald á því að sýna hvenær þau eru í hlutverkum Vöndu Jordan og Thomasar Novachek og hvenær í hlutverkum Vöndu von Dunajev og Severins von Kusiemski. Þar eru þau studd frábærri lýsingu Ólafs Ágústs Stefánssonar og Jóhanns Friðriks Ágústssonar, sem og góðri tónlist og hljóðmynd Halldórs Eldjárn. Þannig leikur mjúk birta um persónurnar í leikritinu í leikritinu, meðan lýsingin er harðari og ágengari þegar leikkonan og leikstjórinn takast á. Krafturinn springur síðan út í lokadansinum þar sem gyðjan tekur völdin. Rýnir minnist þess ekki að hafa séð Söru Dögg áður á sviði þó hún hafi gert góða hluti í ýmsum sjónvarpsþáttum, en vonandi fær hún fleiri tækifæri á leiksviðinu enda býr Sara Dögg yfir miklu sviðsöryggi og góðri nærveru.

Í Venus í feldi nýtir Ives sér sem leikskáld nóvelluna til að gera sér mat úr valdabaráttu kynjanna í fortíð og nútíð. Átökin skoðar hann ekki í stéttalegu eða samfélagslegu samhengi líkt og August Strindberg gerði svo meistaralega í Fröken Julie, sem er eitt þeirra verka sem Ives kinkar kolli til ásamt með Bakkynjunum eftir Evripídes og Vinnukonunum eftir Jean Genet, heldur einskorðar sig við hina kynferðislegu spennu sem lituð er kynórum gagnkynhneigðs karlmanns á miðjum aldri. Þegar leikkonan mætir á svæðið korseletklædd og sprangar léttklædd fyrir framan leikstjórann neyðir verkið áhorfendur til að horfa á Vöndu Jordan með augum Thomasar Novachek. Heimur verksins er heimur þar sem konur eru hlutgerðar og geta bara annaðhvort verið glyðrur eða gyðjur. Spurningin sem eftir situr er hvort Thomas hafi lært eitthvað af þeirri kennslustund sem hann var óvænt tekinn í hjá gyðjunni. Eins má velta fyrir sér hvort og hvað megi yfirfæra af samskiptum manna og goða yfir á samspil karla og kvenna.

Í nóvellu Sacher-Masoch mun Kusiemski á endanum hafa orðið afhuga því að gefa sig Dunajev á vald og komist að þeirri niðurstöðu að konan geti ekki orðið jafnoki karlsins fyrr en hún hljóti sömu réttindi og hann og hafi jafnframt sömu tækifæri til mennta og atvinnu. Sú niðurstaða á jafnt við í dag sem og árið 1870.