Fjölskyldan Hrafnhildur, Þorsteinn og börn árið 2019.
Fjölskyldan Hrafnhildur, Þorsteinn og börn árið 2019.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir er fædd 10. febrúar 1973 í Reykjavík, bjó fyrst í Grænuhlíð 22 en fjölskyldan fluttist fljótlega að Sigtúni 31, að heimili Benedikts Gíslasonar afa hennar, honum til stuðnings en hann var þá orðinn ekkill

Hrafnhildur Sif Hrafnsdóttir er fædd 10. febrúar 1973 í Reykjavík, bjó fyrst í Grænuhlíð 22 en fjölskyldan fluttist fljótlega að Sigtúni 31, að heimili Benedikts Gíslasonar afa hennar, honum til stuðnings en hann var þá orðinn ekkill. Þar bjó hún til fimm ára aldurs en þá flutti hún í Seljahverfið í Breiðholti.

„Faðir minn var skrifstofustjóri á Kirkjusandi og foreldrar mínir tóku að sér þrif á frystihúsinu til 17 ára frá því ég var tveggja ára til að fjármagna byggingu einbýlishúss fyrir barnahópinn, en ég er yngst sjö systkina. Það má segja að Kirkjusandur hafi verið mitt annað heimili en þar bjó á vist Gísli Ólafsson ekkill frá Kirkjubóli í Arnarfirði sem var fæddur árið 1913. Hann annaðist mig og bróður minn á meðan foreldrar mínir sinntu kvöldvinnunni og í gegnum hann og foreldra mína hef ég meiri innsýn í eldri tíma en flestir jafnaldrar mínir.

Móðir mín erfði sumarhús foreldra sinna í Neðra-Dal undir Vestur-Eyjafjöllum en landamerki jarðarinnar liggja að Gljúfurá sem fellur í Gljúfrabúa. Þar dvaldi fjölskyldan löngum á uppvaxtarárum mínum. Það var lítið og einfalt sumarhús, án rafmagns og rennandi vatns, kynnt upp með kabyssu, vatn sótt í bæjarlækinn, pabbi sló með orfi og ljá og þar var dýrðin ein.“

Grunnskólagönguna var Hrafnhildur í Ölduselsskóla, og hún var líka á þeim tíma í ballettskóla Eddu Scheving. Hún tók stúdentspróf frá Verslunarskólanum, er viðskiptafræðingur frá Háskólanum á Bifröst og tók einnig fasteignasalapróf.

Þrettán ára gömul hóf Hrafnhildur störf í rækjuvinnslunni Ingimundi hf. við Súðarvog í Reykjavík og vann þar nokkur sumur og tók einnig að sér þrif á veturna. Hún vann einnig í bókabúðum Eymundson og Pennans með skóla. Tvö sumur vann hún sem bílfreyja hjá Norðurleið hf. og önnur tvö í Grasagarði Reykjavíkur.

Hrafnhildur réðst til starfa hjá Íbúðalánasjóði í markaðsdeild og gegndi síðar stöðu markaðsstjóra þar. Hún vann í nokkur ár að útlánaeftirliti og gagnagreiningu lánasafnsins þar sem hún undi vel við myndræna framsetningu gagna og gerð kynninga. Hún hefur m.a. gegnt stöðu ritara lánanefndar og greiðsluerfiðleikanefndar, átti sæti í úthlutunarnefnd stofnframlaga og var verkefnisstjóri stórra innleiðingarverkefna.

„Ég tók að mér að innleiða árangursstjórnunarkerfi og var formaður árangurs- og öryggisnefndar um tíma. Meðal fleiri verkefna hjá Íbúðalánasjóði var umsjón með útgáfu ritgerðar sem Sigurður E. Guðmundsson fv. framkvæmdastjóri Húsnæðisstofnunar ríkisins lagði fram til doktorsprófs. Hún nefnist Öryggi þjóðar, frá vöggu til grafar, en þar er rakin saga velferðar á Íslandi 1887-1947.

Hrafnhildur hóf síðan störf hjá Aski – mannvirkjarannsóknasjóði. Sjóðurinn er á vegum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar, en hann hóf göngu sína 2021. „Það hafði spurst út að ég hefði náð góðum árangri í uppfærslu á flóknu umsóknarkerfi og viðskiptaáætlun fyrir stofnframlög í excel með myndrænum leiðbeiningum og það var naumur tími að setja upp umsóknarkerfi fyrir fyrstu úthlutun Asks, en stafræna umsóknarkerfið sem var í undirbúningi tafðist.

Það hefur verið gefandi að ýta Askinum úr vör og fræðast um rannsóknir og nýsköpunarverkefni styrkþega. Styrkþegar eru hæfileikamikill og fjölbreyttur hópur, uppfullur af sérfræðingum sem eru drifnir áfram af hugsjón og eru margir þeirra jafnframt reyndir fyrirlesarar sem flytja áhrifamiklar kynningar. Askurinn hefur m.a. fjármagnað gerð leiðbeiningablaða (RB blaða) og ýmis verkefni sem eru skilgreind í verkefninu Byggjum grænni framtíð en þar hefur samstarfsfólk mitt rutt brautina fyrir framtíðarmannvirkjagerð.“

Hrafnhildur kynntist manninum sínum á Bifröst og þau hófu sambúð í Lyngási, sumarhúsi við Jafnaskarð. „Við störfum bæði á fasteignamarkaði þó verkefnin séu ólík og höfum saman ansi vítt sjónarhorn á markaðinn. Þorsteinn var körfuboltamaður og hafa börnin fetað í fótspor hans en öll hafa þau verið leikmenn hjá körfuknattleiksdeild ÍR. Í dag eru eiginmaður minn og elsti sonur minn þjálfarar og dóttir mín leikmaður stúlknaflokks og meistaraflokks hjá ÍR.

Á tímabili fylgdum við elsta syni okkar í landsliðsferðalög með yngri landsliðum og dóttir mín hefur einnig tekið þátt í landsliðsverkefnum. Börnin hafa reyndar lagt stund á fleira en körfubolta eins og skák, fimleika, kórastarf og þverflautuleik og við höfum oft verið býsna upptekin að fylgja þeim eftir í öllu sem þau hafa tekið sér fyrir hendur. Börnin eru stolt okkar og gleði og í hópinn bættist líka frábær tengdadóttir fyrir nokkrum árum.“

Frá því að Hrafnhildur var ung byrjaði hún ásamt foreldrum sínum grúsk varðandi uppruna móðurleggs móðurættar sinnar. „Þórbergur Þórðarson skrifaði víða um langömmu og lét að því liggja að hann gæti átt eitthvað í dóttur hennar. Ég og foreldrar mínir vorum heimildarmenn Halldórs Guðmundssonar rithöfundar varðandi sögu Finnlaugar og Þórbergs í bókinni Skáldalíf sem kom út árið 2006. Nú hef ég fundið nýjar upplýsingar og vinn að því að púsla inn í tómið í móðurlegg í ættartré mínu en ég vil fyrst ná landi áður en ég geri grein fyrir því.

Ég hef semsagt gaman af að grúska, tek stundum spretti í bókalestri, las yfir mig af Gestgjafanum þegar ég var í barnsburðarleyfunum og legg stundum of mikið púður í veisluhöld, elska blóm, blómaskreytingar, garðyrkju og auðvitað ferðalög.“

Fjölskylda

Eiginmaður Hrafnhildar er Þorsteinn Ingi Garðarsson, f. 2.9. 1975, verkefnastjóri hjá Festi – fasteignaþróunarfélagi. „Við búum í Hléskógum 14 í Seljahverfi en við hjónin keyptum efri hæð einbýlishúss foreldra minna og þar búa þrjár kynslóðir í húsinu núna.“

Foreldrar Þorsteins eru hjónin Anna Vilhjálmsdóttir, f. 7.3. 1954, fv. handavinnukennari á Selfossi, og Garðar Eiríksson, f. 1.10. 1952, fv. framkvæmdastjóri Auðhumlu svf. Þau eru búsett á Selfossi.

Börn Hrafnhildar og Þorsteins eru 1) Ingvar Hrafn Þorsteinsson, f. 3.11. 2000, nemi í hugbúnaðarverkfræði við HÍ og þjálfari hjá körfuknattleiksdeild ÍR. Hann er í sambúð með Steinunni Guðbrandsdóttur, ferðamálafræðingi og flugfreyju, f. 15.10. 2000; 2) Elfar Ingi Þorsteinsson, f. 9.8. 2003, nemi í fjármálaverkfræði í HR; 3) Elma Finnlaug Þorsteinsdóttir, f. 20.4. 2006, nemi í MK.

Systkini Hrafnhildar: 1) Elma Ósk Hrafnsdóttir, húsmóðir og leiðbeinandi, f. 4.2. 1956, d. 2.4. 2022; 2) Geirþrúður Sólveig Hrafnsdóttir, viðurkenndur bókari og fv. framkvæmdastjóri Gerplu, f. 8.3. 1957; 3) Benedikt Hrafnsson, tæknimaður hjá Sjúkratryggingum, f. 12.9. 1960; 4) Auður Hrafnsdóttir, verslunarmaður, f. 28.5. 1962; 5) Gísli Egill Hrafnsson, leiðsögumaður, f. 11.11. 1966, og 6) Bjarni Hrafnsson, stofnandi og rekstrarstjóri Samhentra, f. 12.4. 1971.

Foreldrar Hrafnhildar eru hjónin Hrafn Benediktsson, f. 14.12. 1933, á Hofteigi á Jökuldal. Hann var m.a. kaupfélagsstjóri Kaupfélags Norður-Þingeyinga, skrifstofustjóri á Kirkjusandi og sérfræðingur hjá Húsnæðisstofnun ríkisins, og Finnlaug Guðbjörg Óskarsdóttir, húsmóðir, f. 20.2. 1938, í Reykjavík. Þau eru búsett í Reykjavík.