Klerkarnir geta varpað öndinni léttar – en óvíst er að það verði til langs tíma

Klerkastjórnin í útlagaríkinu Íran hefur náð að berja niður mestu mótmælin sem stóðu yfir mánuðum saman eftir að ung kona lést í fangelsi, en hún var handtekin fyrir þær „sakir“ að hylja hár sitt með ófullnægjandi hætti með slæðu. En þó að segja megi að mótmælin séu að baki og að klerkarnir hafi sloppið með skrekkinn er ekki víst að það sé til frambúðar. Þvert á móti má ætla að viðhorf í Íran hafi breyst og að líkurnar á að almenningur losi sig við ofríkið hafi aukist til muna.

Til marks um þetta má nú sjá á götum úti í Íran fjölda slæðulausra kvenna, sem áður var nánast óhugsandi. Stjórnvöld hafa dregið úr aðgerðum vegna slíkra „brota“, í stað fangelsis og misþyrminga virðast þau nú láta sér nægja sektir. Óvíst er hverju sektirnar munu skila og þess vegna er ekki ljóst hvort hert verður á aðgerðum á nýjan leik, en miðað við hve margar konur hafa nýtt tækifærið til að varpa af sér slæðunni má búast við að klerkarnir sitji á rökstólum um næstu skref, enda hefur slæðuskyldan verið þeim mikið hjartans mál.

Aðrir hafa stigið fram og hvatt til pólitískra breytinga í landinu, meðal annarra Mohammad Khatami, fyrrverandi forseti, og Mir Hossein Mousavi, fyrrverandi forsætisráðherra, sem hafður hefur verið í stofufangelsi í á annan áratug, en hann var áður náinn samstarfsmaður Ayatollah Khomeini, sem stofnaði Íranska klerkaveldið fyrir 44 árum.

Orð slíkra manna eftir öll þau mótmæli sem á undan eru gengin og breytt viðhorf landsmanna í kjölfarið geta skipt verulegu máli nú. Þau geta, ásamt áframhaldandi þrýstingi frá almenningi, leitt til löngu tímabærra umbóta í landinu. En tök klerkastjórnarinnar eru enn sterk eins og sást á því að henni tókst að ráða niðurlögum mótmælanna, þ.a. nokkur bið gæti enn orðið á því að Írönum takist að losa sig og ríki heims við stjórn klerkanna.