Listahátíðin List í ljósi hefst í dag á Seyðisfirði og stendur yfir út morgundaginn en með henni er komu sólar fagnað og nú í áttunda sinn. Þegar rökkva tekur verður slökkt á götuljósum og bærinn lýstur upp með fjölbreyttum listaverkum

Listahátíðin List í ljósi hefst í dag á Seyðisfirði og stendur yfir út morgundaginn en með henni er komu sólar fagnað og nú í áttunda sinn. Þegar rökkva tekur verður slökkt á götuljósum og bærinn lýstur upp með fjölbreyttum listaverkum. Verkin eru bæði eftir innlenda og erlenda listamenn og í ólíkum formum, m.a. skúlptúrar, myndvarpanir og vídeóverk. Meðal hápunkta eru verkin Fuser eftir Sigurð Guðjónsson á Seyðisfjarðarkirkju, Freeze Frame sem eru þrjú verk eftir Hrafnkel Sigurðsson og Skaftfell mun opna sýningu á myndbandsverkum sem kallast VIDEO verk í fimm þáttum. Allar sýningar, gjörningar og viðburðir eru gestum að kostnaðarlausu og má finna upplýsingar á listiljosi.com.