Í Namibíu Heimamenn kveðja Steingerði, sem er þriðja fremst til hægri.
Í Namibíu Heimamenn kveðja Steingerði, sem er þriðja fremst til hægri.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ég hef sungið mig í gegnum lífið,“ segir Steingerður Þorgilsdóttir, sem á að baki víðtæka reynslu í sjávarútvegi og veitingahúsarekstri en skipti snarlega um kúrs og hefur sinnt djasssöng í frítímanum undanfarin ár, meðal annars með Kvarsbandinu

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

„Ég hef sungið mig í gegnum lífið,“ segir Steingerður Þorgilsdóttir, sem á að baki víðtæka reynslu í sjávarútvegi og veitingahúsarekstri en skipti snarlega um kúrs og hefur sinnt djasssöng í frítímanum undanfarin ár, meðal annars með Kvarsbandinu. Hún er viðskiptafræðingur með viðbótarmenntun í gæðastjórnun og starfar sem gæðastjóri Banana.

Faðir Steingerðar var togaraskipstjóri. Hún segir að hann hafi verið beðinn um að kenna Súgfirðingum togveiði um miðjan áttunda áratuginn og því hafi fjölskyldan búið á Suðureyri í tvö ár. „Þá fékk ég áhuga á sjávarútvegi, fór að vinna í fiski með skóla og eftir að við fluttum aftur suður fór ég til Suðureyrar á sumrin til að vinna.“ Það varð til þess að hún fór í Fiskvinnsluskólann í Hafnarfirði og útskrifaðist sem fiskiðnaðarmaður.

U-beygja

Að loknu námi í Fiskvinnsluskólanum var Steingerður gæðastjóri hjá Ísfiski í Kópavogi. Hún fór síðan í frekara nám, tók iðnrekstrarfræði í Háskólanum á Akureyri og löngu síðar viðskiptafræði og gæðastjórnun í Háskóla Íslands. 1994 lá leiðin til Afríku, þar sem hún kom að uppbyggingu sjávarútvegs í Namibíu í átta ár. „Ég byrjaði sem gæðastjóri og innleiddi gæðakerfi í skip og landvinnslu en var verksmiðjustjóri síðustu tvö til þrjú árin og hélt þá utan um verksmiðjuna í landi og fisksölu víða um heim.“

Áður en Steingerður fór í djasssöngnám í Tónlistarskóla FÍH hellti hún sér út í veitingageirann. Hún rak Serrano-keðjuna ásamt eigendum hennar í fimm ár, átti veitingastaðina Culiacan og Svanga Manga ásamt Sólveigu Guðmundsdóttur og þær opnuðu Mathöll Höfða í apríl 2019. „Slagurinn er mikill í þessum geira, mikil viðvera, og ég ákvað að bremsa mig af í lífinu, tók u-beygju, seldi minn hlut fyrir tveimur árum og lauk framhaldsnámi í söng.“

Söngurinn hefur fylgt Steingerði frá æskuárunum. Hún byrjaði að syngja í kór, þegar hún var 10 ára, og hefur síðan víða sungið í kórum. „Mér finnst mjög gaman að syngja og hef alltaf þefað uppi kórstarf, þar sem ég hef búið, meira að segja í Afríku.“ Söngnámið hafi dýpkað hlustunina á tónlist og Kvarsbandið, sem hún og Axel Blöndal Hauksson píanóleikari hafi stofnað fyrir 12 árum, hafi náð flugi í FÍH-skólanum. „Þar mætti bandið og spilaði undir á stigsprófunum, meðal annars í framhaldsprófinu í fyrravor.“

Allir í bandinu hafa farið í gegnum nám í FÍH, en í því eru auk fyrrnefndra Jón Hörður Jónsson sem spilar á kontrabassa, Jón Pétur Jóelsson trompetleikari, Örvar Erling Árnason trommuleikari og Sigurjón Árni Egilsson saxófónleikari. „Bandið þroskaðist með náminu mínu og við höfum skemmt okkur saman,“ segir Steingerður, en þau hafi meðal annars oft spilað á Rosenberg og í einkasamkvæmum. „Okkur langar til þess að gera eitthvað skemmtilegt áfram og verðum næst með tónleika í maí,“ upplýsir hún.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson