Aðstoð Ragna Sif Árnadóttir, læknir íslenska hópsins, veitti fólki á hamfarasvæðunum fyrstu hjálp í gær.
Aðstoð Ragna Sif Árnadóttir, læknir íslenska hópsins, veitti fólki á hamfarasvæðunum fyrstu hjálp í gær. — Ljósmynd/Landsbjörg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Ástandið er náttúrlega ömurlegt en í aðgerðastjórn er fólk bara að vinna sína vinnu,“ segir Sólveig Þorvaldsdóttir, sem fer fyrir hópi ellefu Íslendinga á vegum Landsbjargar með liðsinni frá séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar sem er kominn til starfa í Hatay í austurhluta Tyrklands

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

„Ástandið er náttúrlega ömurlegt en í aðgerðastjórn er fólk bara að vinna sína vinnu,“ segir Sólveig Þorvaldsdóttir, sem fer fyrir hópi ellefu Íslendinga á vegum Landsbjargar með liðsinni frá séraðgerðasveit Landhelgisgæslunnar sem er kominn til starfa í Hatay í austurhluta Tyrklands. Hópurinn aðstoðar við björgun fólks á hamfarasvæðinu í Tyrklandi. Sem kunnugt er gengu stórir jarðskjálftar þar yfir í byrjun vikunnar.

Alþjóðlega hópnum sem íslenska teymið er hluti af hefur lánast að finna tugi einstaklinga á lífi í rústum í Hatay-héraði í austurhluta Tyrklands. Hún segir að hópurinn fái þó aðeins nauðsynlegustu upplýsingar. „Við fáum ekkert að vita um það hversu margir finnast á lífi fyrr en undir lok dags,“ segir Sólveig.

Verkfræðingar úr hópnum voru í vettvangsferð ásamt aðgerðastjóra alþjóðlega teymisins sem Hollendingar stýra þegar Morgunblaðið ræddi við Sólveigu í gær. Á sama tíma var hluti hópsins í aðgerðastjórnstöð í Hatay. „Þá er læknir okkar í samstarfi við aðra lækna, eins erum við að huga að hugbúnaði sem heldur utan um aðgerðirnar og svo erum við að efla ýmsar samhæfingaraðgerðir,“ segir Sólveig.

Verkfræðingar hópsins vinna alls kyns verkefni og ekki hægt að vita fyrir fram hvers kyns verkefni fólk fær í hendurnar. „Verkfræðingarnir gætu farið í rústabjörgun en eru núna í gagnasöfnun og öðru tilfallandi,“ segir hópstjórinn.

Hún segir að aðgerðastjórnbúðirnar séu aðeins fyrir utan þéttbýli en í fyrradag fóru Íslendingarnir inn á svæði þar sem mikil eyðilegging blasti við. „Borgin er nánast rafmagnslaus og þar mátti sjá fólk kveikja elda og ylja sér. Það er mjög kalt á nóttunni en sem betur fer gott veður á daginn.“

Höf.: Viðar Guðjónsson