Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst: „Það virðist ekki vera neitt lát eins og er á þessari ótíð svo mér datt í hug að lauma að þér eins og tveimur vísum“: Hríðarkófið hylur slóð hækkar snjóabingur

Ingólfur Ómar sendi mér góðan póst: „Það virðist ekki vera neitt lát eins og er á þessari ótíð svo mér datt í hug að lauma að þér eins og tveimur vísum“:

Hríðarkófið hylur slóð

hækkar snjóabingur.

Kári napurt kuldaljóð

köldum rómi syngur.

Og á Boðnarmiði yrkir Ingólfur Ómar:

Kári æfur hvessir brá

kalda raust vill brýna.

Milli élja samt má sjá

sólarglætu skína.

Gunnar J. Strasumland
yrkir:

Hlána fannir vetrar vart

vonir manna dvína.

Mána skjanni blikar bjart

brimsins hrannir skína.

„Enn er þó von,“ segir Gunnar. „Ef við lesum vísuna afturábak er aldrei að vita nema það hláni:“

Skína hrannir brimsins bjart

blikar skjanni mána.

Dvína manna vonir vart

vetrar fannir hlána.

Bjarki Karlsson skrifar: „Við Nasi slógum saman í þessa þó að hún rími miður vel í Öxnadal og nærsveitum“:

Brósi drekkur brennivín

og brunar um á Lödu

en Sigga litla systir mín

situr útí götu.

Stefán Bogi Sveinsson skrifar: „Þetta fallega ljóð eftir Þorstein Bergsson má finna á útvegg á vallarhúsi Vilhjálmsvallar á Egilsstöðum.
Það var sett upp sem hluti af verkefninu Ljóð á vegg þar sem ljóð eru sett upp á húsveggi (eins og nafnið gefur vissulega til kynna!).
Þetta árið var verkefnið tengt við afmæli Menntaskólans á Egilsstöðum og öll skáldin því fyrrverandi nemendur skólans. Ég er hrifinn af þessu. Það tekur vel á móti manni eftir gönguferð á vellinum.“
„Þrá“ eftir Þorstein Bergsson (í ME 1979-1982):
Efld sem órætt fljótið
ísnum neðar bláa
þögul rennur þrá mín
þér við fætur smáa.

Orð sem öllu breyta
eiga fund við drauminn.
Hugans djásnin dýru
detta í kaldan strauminn.

Enginn veit hvað innsta
afdrep sálar geymir.
Enginn veit hvar áin
ísnum neðar streymir.
Friðrik Steingrímsson vísar í mbl: „Sagði farþega með „heimskulegt andlit“:

Illmælgin hún orðspor skaðar

ei má nokkurn styggja,

eins og segir einhversstaðar

„oft má satt kyrrt liggja“.“

Jóhannes Geir Einarsson hélt áfram:

Fyrir mörgu oft er fótur

fegurð rýrnar umtalsvert

Er því margur ansi ljótur

og ekki fær neitt við því gert.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson yrkir samhent:

Komdu núna karlinn inn,

káti Snati, vinur minn.

Eta skaltu, ef ég finn,

eitthvað gott á diskinn þinn.

Lúðvík Norðdal læknir orti um konu sína Ástu Jónsdóttur í ágúst 1926:

Hún hefur löngum líf mitt kætt

létt og jafnað skrefin.

Erfiðleika upp mér bætt.

Afbrot? – Fyrirgefin.