Uppbygging Svona eiga byggingarnar í Jöfursbási 7, til hægri, og Jöfursbási 5 í Gufunesi að líta út. Formleg sala á íbúðum í Jöfursbási 7 hófst í gær og verða fyrstu íbúðirnar afhentar í næsta mánuði. Mikill áhugi er á svæðinu.
Uppbygging Svona eiga byggingarnar í Jöfursbási 7, til hægri, og Jöfursbási 5 í Gufunesi að líta út. Formleg sala á íbúðum í Jöfursbási 7 hófst í gær og verða fyrstu íbúðirnar afhentar í næsta mánuði. Mikill áhugi er á svæðinu.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga. Þar spilar inn ávinningurinn af því að búa nálægt strandlengjunni og geta séð yfir Esjuna, Viðey og miðborgina,“ segir Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Spildu

Höskuldur Daði Magnússon

hdm@mbl.is

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga. Þar spilar inn ávinningurinn af því að búa nálægt strandlengjunni og geta séð yfir Esjuna, Viðey og miðborgina,“ segir Anna Sigríður Arnardóttir, framkvæmdastjóri fasteignaþróunarfélagsins Spildu.

Félagið hóf í gær formlega sölu á 73 íbúðum í fjölbýlishúsum við Jöfursbás 7 í Gufunesi. Forsala á þessum íbúðum fór fram í október og nóvember í fyrra og gekk mjög vel, að sögn Önnu Sigríðar. Kveðst hún ætla að um 35% íbúðanna hafi selst í forsölu. „Þetta er einstök útsýnislóð við hafið og þarna myndast tækifæri fyrir marga borgarbúa til að geta búið í fjölbýli og notið þeirra gæða sem staðsetningin býður upp á. Þarna er góður aðgangur að allri þjónustu og engar götur sem skilja byggðina frá náttúrunni, einungis hjóla- og göngustígar meðfram sjávarsíðunni.“

Fyrstu íbúðirnar verða afhentar í mars og er þessi áfangi sá fyrsti af mörgum sem Spilda hyggst reisa í Gufunesi. Alls áformar félagið að byggja 700 íbúðir þar á næstu sex árum. Á lóðinni við hliðina, Jöfursbási 5, er verið að byggja 75 íbúðir og fara þær í sölu í haust. Líkt og kom fram í ViðskiptaMogganum í október síðastliðnum eru íbúðirnar allt frá 50 fermetrum og upp í 120-130 fermetra og því hannaðar fyrir fjölbreyttan markhóp. Nokkrar íbúðir eru með glæsilegum þaksvölum og fimm metra lofthæð, en flestar eru hins vegar þriggja herbergja íbúðir í kringum 85 fermetra, að sögn Önnu Sigríðar. „Við erum búin að greina markaðinn og sjáum að það er stærð sem hentar mörgum vel, bæði þeim sem vilja stækka við sig og þeim sem eru að minnka við sig,“ segir hún. „Flestar íbúðir eru með sjávarsýn, aukna lofthæð um 2,8 metra, gólfsíða glugga, gólfhita og sérbílastæði í bílakjallara,“ bætir hún við.

Anna Sigríður segir að nýverið hafi Spilda tryggt fjármögnun þriðja hluta verkefnisins í Gufunesi. Það er á svæði sem félagið kallar Sjávargarða og verða íbúðirnar í kringum 180 talsins. Hönnun er hafin og uppbygging á að hefjast um mitt þetta ár. Einnig liggur fyrir deiliskipulag fyrir fjórða áfanga sem mun telja um 70 íbúðir.

Eins og kom fram í Morgunblaðinu í gær hafnaði skipulagsfulltrúinn í Reykjavík fyrirspurn félags á vegum Spildu um heimild til að breyta deiliskipulagi í fimmta áfanga verkefnisins, lóðinni Þengilsbási 8 í Gufunesi. Anna Sigríður segir að félagið hafi eftir sem áður metnaðarfull áform um uppbyggingu á umræddum lóðum. Hugmyndirnar hafi verið settar fram til að „efna til samtals“ við borgaryfirvöld um nýtingu lóðanna og nú haldi sú vinna áfram.

Höf.: Höskuldur Daði Magnússon