Óðinn Gamla varðskipið var tekið í slipp í gær. Það verður svo brátt aftur til sýnis við Sjóminjasafnið.
Óðinn Gamla varðskipið var tekið í slipp í gær. Það verður svo brátt aftur til sýnis við Sjóminjasafnið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Gamla varðskipið Óðinn var tekið í slipp í Reykjavíkurhöfn í gær. Um er að ræða reglubundna skoðun, sem tekur um viku til tíu daga, þar sem skipið er m.a. botnhreinsað og farið yfir ýmsan búnað. Skipið er hið fyrsta til að komast á skrá yfir…

Guðmundur Magnússon

gudmundur@mbl.is

Gamla varðskipið Óðinn var tekið í slipp í Reykjavíkurhöfn í gær. Um er að ræða reglubundna skoðun, sem tekur um viku til tíu daga, þar sem skipið er m.a. botnhreinsað og farið yfir ýmsan búnað. Skipið er hið fyrsta til að komast á skrá yfir siglandi safnskip, samkvæmt reglugerð sem sett var í fyrrahaust, um skip 50 ára og eldri sem rekin eru í menningarlegum tilgangi.

„Við beittum okkur fyrir þessari reglugerð og erum mjög ánægðir með að hún skuli nú komin til framkvæmda,“ segir Egill Þórðarson, einn forystumanna Hollvinasamtaka Óðins. „Við vonumst til þess að geta farið eitthvað með skipið í sumar,“ segir hann. Siglt var til Grindavíkur í fyrrasumar og fékk skipið þar konunglegar móttökur.

Óðinn hefur frá 2008 verið hluti af sýningum Sjóminjasafnsins og legið við safnhúsið við Óðinsbryggju í Vesturbugt. Undanfarið eitt og hálft ár hefur staðið yfir endurbygging á bryggjunni og á meðan hefur Óðinn legið steinsnar frá. „Okkur skilst að verið sé að leggja lokahönd á þessar framkvæmdir,“ segir Egill. Talsvert var um heimsóknir í skipið á meðan ferðaþjónustan stóð í blóma fyrir Covid-faraldurinn. Vonast hollvinirnir til þess að Óðinn njóti sama áhuga þegar hann snýr aftur í safnið.

Óðinn var smíðaður í Álaborg í Danmörku árið 1959 og kom til landsins í lok janúar 1960. Skipið á glæsilega sögu að baki við björgunarstörf og í landhelgisvörslu, m.a. í þorskastríðunum.
gudmundur@mbl.is

Höf.: Guðmundur Magnússon