Skeinuhætt Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 19 stig fyrir Ísland og var stigahæst allra í 49:89-tapi liðsins gegn Ungverjalandi í Miskolc í gær.
Skeinuhætt Sara Rún Hinriksdóttir skoraði 19 stig fyrir Ísland og var stigahæst allra í 49:89-tapi liðsins gegn Ungverjalandi í Miskolc í gær. — Ljósmynd/FIBA
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ísland mátti sætta sig við stórt tap, 49:89, fyrir Ungverjalandi þegar liðin áttust við í undankeppni EM 2023 í körfuknattleik kvenna í DVTK-höllinni í Miskolc í Ungverjalandi í gær. Eftir að hafa hafið leikinn vel þar sem staðan var 22:16,…

Undankeppni EM

Gunnar Egill Daníelsson

gunnaregill@mbl.is

Ísland mátti sætta sig við stórt tap, 49:89, fyrir Ungverjalandi þegar liðin áttust við í undankeppni EM 2023 í körfuknattleik kvenna í DVTK-höllinni í Miskolc í Ungverjalandi í gær.

Eftir að hafa hafið leikinn vel þar sem staðan var 22:16, Ungverjum í vil, að loknum fyrsta leikhluta og 22:20 strax í upphafi annars leikhluta, hófu heimakonur að keyra yfir íslenska liðið og leiddu með tuttugu stigum, 49:29, í hálfleik.

Síðari hálfleikur reyndist því nokkurs konar formsatriði þar sem forysta Ungverjalands jókst jafnt og þétt. Mestur varð munurinn 43 stig og niðurstaðan að lokum þægilegur 40 stiga sigur.

Með sigrinum er Ungverjaland langt komið með að tryggja sér sæti á EM í sumar, enda með sex stig í öðru sæti C-riðils, fjórum stigum á eftir Spáni, sem vann 75:32-stórsigur á Rúmeníu í gær.

Spánn hefur þegar tryggt sér sæti á EM ásamt Ítalíu, Ísrael, Slóveníu og Lettlandi. Ísland er úr leik.

Sara Rún Hinriksdóttir var stigahæst í leiknum með 19 stig og tók hún auk þess sex fráköst. Þóra Kristín Jónsdóttir kom næst á eftir með sjö stig, fimm fráköst og sex stoðsendingar.

Stigahæst hjá Ungverjalandi var Virag Kiss með 17 stig. Tók hún auk þess níu fráköst og gaf fimm stoðsendingar. Cyesha Goree bætti við 16 stigum og tók þar að auki níu fráköst.

Vantar framlag frá fleirum

Góður kafli Íslands í leiknum varði illu heilli í of skamman tíma en þó var hughreystandi að sjá liðið standa einkar vel í ógnarsterku liði Ungverjalands um skeið; síðari hluta fyrsta leikhluta og strax í upphafi annars leikhluta.

Bæði lið róteruðu byrjunarliðum sínum mikið og er óhætt að segja að þar hafi Ungverjar staðið betur að vígi þar sem framlag fékkst frá flestum leikmönnum.

Íslenska liðið þurfti aftur á móti, líkt og oft áður, að reiða sig afar mikið á Söru Rún í sóknarleiknum. Hún bregst ávallt vel við þeirri áskorun en aukið framlag verður að fást frá fleiri leikmönnum.

Ýmislegt sem fór úrskeiðis

Ungverjaland átti í raun ekki sinn besta leik þrátt fyrir stóran sigur. Til dæmis hitti liðið illa úr þriggja stiga skotum sínum lengi vel en sú nýting batnaði þó þegar líða tók á leikinn.

Skotnýting íslenska liðsins var eins og gefur að skilja sömuleiðis ekki sem best og afleit fyrir utan þriggja stiga línuna; aðeins 14 prósent þar sem tvö af fjórtán skotum fóru ofan í körfuna.

Ísland varð undir í frákastabaráttunni þar sem áðurnefnd Kiss, sem er 194 sentímetrar á hæð, reyndist íslenska liðinu sérlega erfiður ljár í þúfu. Goree, sem tók loks við sér í fjórða leikhluta, er sömuleiðis hávaxinn og öflugur leikmaður og velgdi Íslandi undir uggum.

Afar snemma leiks lenti Ísland þá í villuvandræðum þar sem fjöldi leikmanna var kominn með tvær villur og Eva Margrét Kristjánsdóttir var til að mynda komin með þrjár slíkar snemma í öðrum leikhluta.

Ungt lið lærir af reynslunni

Íslenska liðið er ungt og reynslulítið og fer þessi leikur rakleitt í reynslubankann.

Flesta eða alla framangreinda þætti er hægt að laga og ekkert því til fyrirstöðu að unnið verði hörðum höndum að því að gera það í náinni framtíð.

Höf.: Gunnar Egill Daníelsson