Sókn Keflvíkingurinn Eric Ayala sækir í átt að Hafnfirðingum í Ólafssal á meðan Haukamaðurinn Daníel Ágúst Halldórsson reynir að verjast.
Sókn Keflvíkingurinn Eric Ayala sækir í átt að Hafnfirðingum í Ólafssal á meðan Haukamaðurinn Daníel Ágúst Halldórsson reynir að verjast. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Norbertas Giga fór mikinn fyrir nýliða Hauka þegar liðið tók á móti Keflavík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Ólafssal í Hafnarfirði í 16. umferð deildarinnar í gærkvöld. Leiknum lauk með stórsigri Hauka, 83:67, en Giga…

Körfuboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Norbertas Giga fór mikinn fyrir nýliða Hauka þegar liðið tók á móti Keflavík í úrvalsdeild karla í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Ólafssal í Hafnarfirði í 16. umferð deildarinnar í gærkvöld.

Leiknum lauk með stórsigri Hauka, 83:67, en Giga skoraði 21 stig, tók 9 fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Haukar eru því komnir aftur á beinu brautina í deildinni eftir tap gegn Íslandsmeisturum Vals í síðustu umferð en liðið er með 22 stig í fjórða sætinu, líkt og Njarðvík sem mætir Grindavík á morgun. Hafnfirðingar eru í afar vænlegri stöðu þegar kemur að því að tryggja sér heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

Keflvíkingar höfðu unnið fjóra leiki í röð áður en kom að leik gærdagsins en þetta var fjórða tap liðsins á tímabilinu. Keflavík heyr harða baráttu við Íslandsmeistara Vals um deildarmeistaratitilinn og það gerir tapið í Ólafssal í gær þeim mun meira svekkjandi fyrir Keflvíkinga.

Hilmar Smári Henningsson og Daniel Mortensen skoruðu 20 stig hvor fyrir Hauka en David Okeke var stigahæstur Keflvíkinga með 18 stig og ellefu fráköst.

 Armani Moore var stigahæstur hjá Stjörnunni þegar liðið tók á móti Tindastóli í Umhyggjuhöllinni í Garðabæ.

Leiknum lauk með sigri Stjörnunnar, 79:68, en Moore skoraði 20 stig, tók átta fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Með sigrinum fór Stjarnan upp fyrir Tindastól í sjötta sæti deildarinnar en bæði lið eru með 14 stig. Stjarnan er hins vegar með betri innbyrðis viðureign á Tindastól.

Þetta var annað tap Tindastóls í röð í deildinni en liðið hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum. Tindastóll er með jafn mörg stig og Grindavík en bæði Tindastóll og Grindavík eiga leik til góða á Stjörnuna.

Adama Darbo skoraði 16 stig fyrir Stjörnuna, tók fjögur fráköst og gaf sex stoðsendingar en Sigtryggur Arnar Björnsson var stigahæstur hjá Tindastóli með 16 stig, tvö fráköst og fjórar stoðsendingar.

 Hákon Örn Hjálmarsson átti mjög góðan leik fyrir ÍR þegar liðið heimsótti Breiðablik í Smárann í Kópavogi.

Leiknum lauk með óvæntum sigri ÍR-inga, 104:91, en Hákon Örn skoraði 20 stig, tók fjögur fráköst og gaf tvær stoðsendingar.

Þetta var annar sigur ÍR-inga í röð í deildinni og fóru Breiðhyltingar upp úr fallsæti með sigri gærdagsins. Liðið er með 10 stig, líkt og Þór frá Þorlákshöfn, en Þórsarar geta sent ÍR-inga aftur í fallsæti með sigri gegn Íslandsmeisturum Vals á heimavelli í kvöld.

Breiðabliki, sem byrjaði tímabilið af miklum krafti og vann fimm af fyrstu sex leikjum sínum, hefur ekki gengið vel að undanförnu og hefur aðeins unnið einn af síðustu fimm leikjum sínum en liðið er með 16 stig í fimmta sætinu og í harðri baráttu um heimavallarréttinn í úrslitakeppninni.

Taylor Johns átti stórleik fyrir ÍR, skoraði 18 stig, tók 17 fráköst og gaf sjö stoðsendingar en Everage Richardson var stigahæstur hjá Blikum með 22 stig, fimm fráköst og tvær stoðsendingar.

 Þá vann Höttur dramatískan sigur gegn KR þegar liðin mættust í MVA-höllinni á Egilsstöðum, 82:81.

Með sigrinum fjarlægðust Hattarmenn, sem eru nýliðar í deildinni, botnsvæðið og þá héldu þeir vonum sínum á lífi um sæti í úrslitakeppninni með sigrinum en Höttur er með 12 stig í níunda sætinu.

Þetta var þriðji ósigur KR í röð í deildinni og fjórtánda tapið á tímabilinu. KR á eftir að mæta Val, Keflavík, ÍR, Njarðvík, Tindastóli og Stjörnunni en þrjú af þessum liðum eru öll í harðri baráttu um deildarmeistaratitilinn. Það virðist því fátt geta komið í veg fyrir fall KR úr efstu deild.

Nemanja Knezevic og Bryan Alberts skoruðu báðir 14 stig fyrir Hött, en Knezevic tók einnig tíu fráköst og gaf þrjár stoðsendingar. Antonio Williams var stigahæstur hjá KR með 19 stig, átta fráköst og sjö stoðsendingar.