Skaginn Fólki í bænum hefur fjölgað verulega síðustu árin, mikið er byggt og fasteignamarkaðurinn er líflegur svo meira vantar á söluskrárnar.
Skaginn Fólki í bænum hefur fjölgað verulega síðustu árin, mikið er byggt og fasteignamarkaðurinn er líflegur svo meira vantar á söluskrárnar. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Akranesmarkaður hefur komið sterkt inn á síðustu tveimur árum,“ segir Bogi Molby Pétursson, löggiltur fasteignasali hjá Lind – fasteignasölu í Kópavogi. Sjálfur býr hann á Skaganum og sinnir sölu eigna þar í bæ jafnhliða verkefnum á höfuðborgarsvæðinu og Snæfellsnesi. Hann segir talsverða eftirspurn vera eftir eignum á Akranesi um þessar mundir enda þótt framboðið mætti vera meira. Verðbilið milli Akraness og höfuðborgarsvæðisins sé heilt yfir á bilinu 20-25%. Nærri lagi láti að slíkt sé sá munur sem geri fólki sem býr í borginni mögulegt til dæmis að flytjast í sérbýli.

„Á Akranesi eru margar sérbýliseignir og ef maður fer um bæinn má eiginlega lesa sig í gegnum sveiflur í atvinnulífinu og hagsöguna alla. Á hátindi hvers hagvaxtarskeiðs var farið í miklar framkvæmdir og eins og víða úti á landi var á Skaganum mjög ríkt í fólki að vilja reisa eða eignast sérbýli með bílskúr. Mörg slík voru byggð á árunum milli 1965-1990,“ segir Bogi. Hús þessi segir hann mörg hafa komið í sölu á síðustu árum, þar sem fólk sem farið er að reskjast vill minnka við sig og komast í hentugra húsnæði. Þá sé alltaf nokkuð um að fólk flytjist til dæmis vestan af Snæfellsnesi á Skagann, vegna góðs aðgengis að þjónustu þar.

Borðstofupláss og barnabörn

„Dæmigerð eign á höfuðborgarsvæðinu gæti verið 100 fermetra íbúð í fjölbýli, þriggja herbergja með góðu miðrými, og lyftu niður í bílakjallara. Slíkar eignir eru vissulega til hér á Akranesi en kröfurnar eru þó á margan hátt aðrar,“ segir Bogi. „Hér er mjög ríkt í fólki, til dæmis því eldra, að vilja íbúð með rúmgóðu borðstofuplássi til að geta tekið á móti barnabörnum og verið með heimboð. Fjölskyldutengslin eru sterk og mjög rík í fólki. Og svo leggja karlarnir, sem eru orðnir kannski sextugir og þaðan af eldri, mikið upp úr því að hafa bílskúr. Fyrir þeim er slíkt á stundum nánast alveg heilagur staður; fullur af garðverkfærum, útilegudóti og bíllinn er vel bónaður. Dæmigerð ný eign á Akranesi, sem hentar öllum, gæti því verið raðhús, 130-160 fermetrar að flatarmáli og auðvitað skúrinn.“

Svigrúm unga fólksins

Síðasta haust henti í fyrsta sinn að algengar eignir í sérbýli á Akranesi væru verðlagðar og seldust á meira en 100 milljónir króna. „Með því má segja að rofinn hafi verið ákveðinn múr í eignaverði í bænum, sem samt er vel undir Reykjavíkurverðinu. Og einmitt í því liggur galdurinn, að ungt fólk í borginni sem á sér draum um sérbýli með lóð hefur svigrúm á Skaganum þá með því að losa um eign í borginni og bæta síðan einhverju við sig í lánum. Ég þekki til nokkurra slíkra mála frá síðustu misserum,“ segir Bogi.

Nú í vikunni var ný húsnæðisáætlun Akraneskaupstaðar birt. Þar segir að umtalsverð eftirspurn hafi verið eftir öllum tegundum íbúðarhúsnæðis á Akranesi og hefur bærinn átt fullt í fangi með að mæta þeirri eftirspurn. Í dag sé metfjöldi íbúða í byggingu og fram undan er að úthluta eða selja lóðir á Sementsreit, Dalbrautarreit og Skógarhverfi sem mæta betur uppsafnaðri þörf. Einnig er fram undan mikil uppbygging íbúða við Smiðjuvelli. Mikilli eftirspurn eftir húsnæði á höfuðborgarsvæðinu hafi ekki verið mætt og því sæki margir í nágrannabæi, s.s. á Skagann, sem sé í færum til að mæta fólksfjölgun. Þannig eru Skagamenn í dag rétt tæplega 8.000 og samkvæmt miðspá sem svo er kölluð, má búast við fjölgun um 160 íbúa á næsta ári. Halda þurfi því vel á spöðunum í byggingaframkvæmdum.