Eitruð Leikritið Samdrættir er skólabókardæmi um eitraða vinnustaðamenningu og hvernig á ekki að stjórna fyrirtæki, að sögn leikstjórans, Þóru Karítasar Árnadóttur. Verkið er það fyrsta sem hún leikstýrir í leikhúsi.
Eitruð Leikritið Samdrættir er skólabókardæmi um eitraða vinnustaðamenningu og hvernig á ekki að stjórna fyrirtæki, að sögn leikstjórans, Þóru Karítasar Árnadóttur. Verkið er það fyrsta sem hún leikstýrir í leikhúsi. — Ljósmynd/Dóra Dúna
Leikritið Samdrættir verður frumsýnt í kvöld í Tjarnarbíói og er því lýst sem flugbeittri ádeilu eftir eitt vinsælasta leikskáld og handritshöfund Breta, Mike Bartlett, en þýðandi þess er rithöfundurinn Kristín Eiríksdóttir

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Leikritið Samdrættir verður frumsýnt í kvöld í Tjarnarbíói og er því lýst sem flugbeittri ádeilu eftir eitt vinsælasta leikskáld og handritshöfund Breta, Mike Bartlett, en þýðandi þess er rithöfundurinn Kristín Eiríksdóttir. Leikkonur í verkinu eru tvær, Þórunn Lárusdóttir og Íris Tanja Flygenring. Þórunn leikur nafnlausan framkvæmdastjóra fyrirtækis og Íris undirmann hennar, Emmu. Þegar Emma telur sig vera ástfangna af Darren nokkrum, starfsmanni fyrirtækisins, sakar framkvæmdastjórinn hana um brot á starfsmannareglum því ekkert rómantískt eða kynferðislegt megi eiga sér stað milli samstarfsmanna. Emma verður ólétt og er þá komin upp mikil krísa sem þarf að leysa, eins og því er lýst í tilkynningu.

Leikaraverk

Þóra Karítas Árnadóttir, leikstjóri sýningarinnar, segir leikrit Bartletts frekar kassalaga að því leyti að allar senur gerist á sömu skrifstofu og byrji eins en þó ekki alveg eins og endi allar eins en þó ekki alveg eins, eins og hún orðar það. „Þetta er mikið leikaraverk og mikil leikaravinna og þær standa sig rosalega vel, stelpurnar,“ segir Þóra.

Þórunn er í hlutverki framkvæmdastjórans og jafnframt fulltrúi stjórnsýslunnar en Emma, undirmaðurinn, fulltrúi manneskjunnar, sem áhorfendur tengja líklega betur við. „Hún er við öll og þarf að glíma við kerfið sem er ekki mjög manneskjulegt og fer ekki mjúkum höndum um hana. Þetta er ádeila, í rauninni,“ útskýrir Þóra.

En ádeila á hvað þá? „Á kerfið, þegar verið er að fela sig á bak við reglugerðir og stefnu. Ef við förum í ýktustu myndina þá er það einræðið, skrifræðið og bókstafstrúin á öllum stigum. Bókstafstrú sem er trúarleg eða á Excel-skjöl fyrirtækja og reglur, þessi svarthvíti heimur sem við finnum stundum fyrir þar sem auðvelt er að gera mistök og upplifa skömm,“ svarar Þóra. Hinn nafnlausi framkvæmdastjóri skýli sér á bak við reglurnar sem hún breyti eins og henni hentar.

„Samviskusami embættismaðurinn getur orðið svo hættulegur þegar hann fer að fylgja ákveðnum stefnum blint,“ heldur Þóra áfram og segir að mjög margir kannist við að vera með – eða hafa verið með – yfirmann sem er dálítið óþægilegur í samskiptum og erfitt að átta sig á. „Við höfum einmitt verið að hlæja að því að það sé gott fyrir yfirmenn að fara með starfsfólk sitt á þetta verk því þú getur eiginlega ekki verið asnalegri, erfiðari eða leiðinlegri en þessi kona í þessu fyrirtæki,“ segir Þóra kímin. Verkið muni vonandi minna fólk á að það sem mestu skipti sé hlýja í mannlegum samskiptum, að vera manneskjuleg frekar en að fylgja í blindni ákveðnum gildum eða reglum. Verkið sé skólabókardæmi um eitraða vinnustaðamenningu og hvernig eigi ekki að stjórna fyrirtæki.

Mikil nálægð

En er húmor í leikritinu? „Já, það er óþægilegur húmor. Sumir hafa sagt að þeim hafi fundist óviðeigandi að hlæja að einhverju og því hafi þeir ekki hlegið og stundum hlær fólk á ólíkum stöðum. Þú veist eiginlega ekki hvað þér á að finnast og við setjum þetta líka upp eins og skrifstofu, opið vinnurými, þannig að fólk er rosalega nálægt hvert öðru og leikurunum og það er meira að segja hægt að snúa sér á stólunum. Þetta eru svolítið skrítnar aðstæður og við gerum ekki mikið til að láta þetta vera þægilegra en þetta er. En vonandi er þetta bara skrítið og skemmtilegt,“ svarar Þóra.

Kristín Eiríksdóttir þýddi leikritið og segir Þóra þýðingu hennar svakalega góða. „Þýðingin er mjög mikið nákvæmnisverk af því verkið leynir á sér, er marglaga og til að þýða það þarf mjög mikla nákvæmni. Þær fara orðrétt með textann og þetta er svolítið Pinter að því leyti til, krefst nákvæmni, eins og framkvæmdastjórinn vill hafa það,“ segir Þóra sposk.

Frekari upplýsingar um verkið og sýningartíma má finna á vef Tjarnarbíós, tjarnarbio.is.

Höf.: Helgi Snær Sigurðsson