Rebekka Hnikarsdóttir er glæsileg með fallega árshátíðarförðun.
Rebekka Hnikarsdóttir er glæsileg með fallega árshátíðarförðun. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eins og alltaf finnst mér mikilvægt að undirbúa húðina vel fyrir förðunarvörur sem á eftir koma. Hreinsaðu húðina með mildum hreinsi og gefðu henni svo góðan raka. Heilbrigð og rakafyllt húð jafngildir jafnri og fallegri áferð á farðanum

Eins og alltaf finnst mér mikilvægt að undirbúa húðina vel fyrir förðunarvörur sem á eftir koma. Hreinsaðu húðina með mildum hreinsi og gefðu henni svo góðan raka. Heilbrigð og rakafyllt húð jafngildir jafnri og fallegri áferð á farðanum. Ég nota gjarnan farðagrunn þegar þau sem ég farða eru með opnar svitaholur og/eða blandaða húð og gríp ég þá yfirleitt í All Nighter Face Primer frá Urban Decay sem nærir húðina og fyllir upp í ójöfnur í húð,“ segir Elín Hanna.

Farði sem endist alla nóttina

Þegar fólk ætlar sér að djamma langt fram á kvöld skiptir máli að vera með endingargóða förðun. Elín Hanna mælir með að nota All Hours-farðann frá YSL sem gefur ekki bara góða þekju og jafna áferð heldur nærir og mýkir húðina. Þau sem ætla í eftirpartí eftir bæinn eða finna sér lífsförunaut á árshátíðinni og bóka hótelherbergi þegar gleðskapnum lýkur geta andað léttar þar sem farðinn endist í allt að 24 klukkustundir.

„Farðann bar ég á húðina með þéttum farðabursta en sleppti augnsvæðinu. Þar nota ég alltaf léttari hyljara og uppáhaldið mitt í augnablikinu er Teint Idole Ultra Wear-hyljarinn frá Lancôme. Ég vil alls ekki að hyljarinn sé of ljós svo ég vel að hafa hann yfirleitt hálfum litatóni ljósari en liturinn á farðanum sem ég nota. Til að skyggja og móta andlitsfallið nota ég kremkinnalit og -skyggingarstifti frá Lancôme en mér finnst mikilvægt að nota minna en meira af þessum vörum. Mér finnst lykillinn að fallegri förðun vera mjúkar línur og skyggingar þar sem vörunum er blandað vel saman. Ég byrja alltaf á því að setja kremvörurnar á handarbakið eða blöndunardisk, tek svo smá upp í bursta og dúmpa létt á húðina. Með þessu móti lendir maður ekki í því að setja of mikið á húðina. Ég enda svo á að nota mjög fíngert silkipúður frá IT, Bye Bye Pores, til að festa kremvörurnar á húðinni,“ segir Elín Hanna.

Einfaldara en fólk heldur

Dökk og dramatísk augnförðun þarf ekki að vera flókin að sögn Elínar Hönnu. „Ég notaði fáa liti í fáum skrefum sem öll ættu að geta haft eftir. Ég byrjaði á því að nota mjúkan augnblýant og nudda við augnháralínu, svo tók ég millistífan bursta og dreifði úr vörunni upp á augnlok. Þessi blöndun þarf alls ekki að vera fullkomin! Blýantinn nota ég meira sem grunn og fyrir meiri dýpt í skygginguna. Næst tók ég dökkbrúnan lit úr Born to Run-pallettunni frá Urban Decay og blandaði yfir augnblýantinn við augnhárarót og upp á neðra augnlok. Því næst valdi ég aðeins ljósari brúnan úr sömu pallettu og blandaði dekkri litnum og upp í glóbuslínu. Ef fólk er óöruggt um hversu langt upp á að vinna augnskuggann finnst mér gott að taka reglulega hlé og líta í spegil til að sjá hvar skyggingin lendir og halda svo áfram þar til ég er orðin ánægð. Það er alltaf auðveldara að bæta við en að fara til baka. Að lokum tók ég svo þriðja litinn sem var sanseraður og aðeins ljósari og setti yfir augnlokið til að fá meiri ljóma og hreyfingu í augnförðunina. Ég notaði svo sömu liti undir augun og blandaði vel. Til að fullkomna augnförðunina tók ég sama blýant og ég notaði sem augnskuggagrunn og setti í efri og neðri vatnslínu. Ég notaði dökkbrúnan Drama Liquid-blýant frá Lancôme í lit nr. 02. Með þessu verður augnsvæðið skarpara og seiðandi, sem mér finnst fara einstaklega vel með dekkri „smokey“-förðunum. Lash Idôle-maskarinn frá Lancôme setti svo punktinn yfir i-ið!“

Þegar augnförðunin er dökk er tilvalið að velja léttari lit með fallegum glans á varirnar eins og Elín Hanna gerði. „Ég notaði 24/7-varablýant frá Urban Decay í litnum Stark Naked, rammaði inn og teiknaði inn á varirnar, og setti svo Vice Plumping-gloss í litnum Cruisin’. Ef þú vilt innsigla förðunina 120% mæli ég með að lokaskrefið sé alltaf All Nighter Setting Spray frá Urban Decay en úðinn gefur allt að 16 klst. endingu,“ segir Elín Hanna.

Ráð

Stjórnaðu þykktinni á farðanum með því að blanda farðagrunni eða rakakremi við farðann. Þá geturðu notað sama farðann í létt litað dagkrem og fyrir fínni tilefni. Notaðu ljómapúður (e. highlighter) eða sanseraðan augnskugga á mitt augnlokið og í augnkrók fyrir meiri birtu og opnara augnaráð. Bleyttu augnskuggann þinn með All Nighter setting.