Þóranna Jónsdóttir fæddist 10. febrúar 1955 í Reykjavík. Hún lést á Heilbrigðisstofnun Norðurlands á Akureyri 1. janúar 2023.

Foreldrar Þórönnu voru Svanborg Guðbrandsdóttir, f. 16. júlí 1933 á Hólmavík, d. 29. júlí 1993 og Jón Ólafur Hermannsson, f. 26. mars 1934 í Reykjavík, d. 27. nóvember 1985.

Bróðir Þórönnu er Hermann Rannver Jónsson, f. 12. desember árið 1961. Hálfbróðir Þórönnu var Grétar G. Vilmundarson, f. 13. janúar 1950, d. 14. júní 2010.

Þóranna hóf sambúð með Jóni Ægi Jónssyni frá Akranesi árið 1976 en þau skildu árið 1979. Þau fluttu úr Reykjavík 1976 norður í Mývatnssveit og bjuggu þar árin 1976 til 1979. Með Jóni Ægi átti Þóranna stúlku, Elísu Rún, fædda á Akranesi 14. janúar 1977. Eiginmaður hennar er Jón Höskuldsson frá Húsavík og þar hafa þau búsetu. Þau eiga þrjú börn: a) Anna Karen, f. 18. október 2001. b) Jóna Björg, f. 17. október 2003. c) Höskuldur Ægir, f. 24. júní 2008.

Þóranna hóf sambúð með Ævari Ákasyni, Húsavík, um haust árið 1979 og þau giftu sig 10. apríl 1982.

Eiga þau 2 börn saman: Ævar Þór, f. 14.2. 1982, nú búsettur í Hafnarfirði og Guðrúnu Maríu, f. 18.8. 1984 d. 5.8. 2020.

Maki Ævars Þórs er Anna Kleinszmidt-Ævarsson, f. 16. desember 1978 í Ustka í Póllandi og eiga þau saman Maríu, f. 9.4. 2008.

Fósturdóttir Ævars Þórs er Alicja Kapusta, f. 15. apríl 2002 í Ustka, Póllandi.

Börn Guðrúnar Maríu með Valdimar Óskarssyni, nú búsett á Akureyri, eru: a) Olga María, f. 9.5. 2005, b) Rakel Eva, f. 16.11. 2007, c) Elísa Lind, f. 10.6. 2010, d) Aron Freyr, f. 17. febrúar 2006, andvana.

Útför fór fram frá Akureyrarkirkju 17. janúar 2023.

Jarðsett var í kirkjugarðinum á Naustahöfða.

Þá hefur hún Anna mín kvatt þennan heim. Önnu kynntist ég þegar hún flutti í Mývatnssveit 1976 þegar þáverandi maður hennar Jón Ægir hóf störf í Kísiliðjunni. Í raun voru þau þrjú því lítill bumbubúi var með í för sem kom í heiminn í janúar 1977, hún Elísa mín litla Rún.

Anna var hárgreiðslukona að mennt, kom sér upp aðstöðu þar sem þau bjuggu í Lynghrauninu og passaði ég Elísu á meðan hún var að klippa.

Margar stundirnar áttu við saman í Lynghrauninu, einnig á Grímsstöðum. Drukkum ómælt kaffi (Anna svart að sjálfsögðu) og súkkulaði með, grænt Capri með hnetum.

Eftir að Anna flutti til Húsavíkur lágu leiðir okkar ekki eins mikið saman en þegar við hittumst var það eins og við hefðum hist fyrir skömmu.

Með þessum vísum eftir bróður minn vil ég þakka þér Anna mín fyrir allar góðu stundirnar okkar.

Þau sem hvíld og friðinn fá

frjáls við himintjöldin,

meitla sínar myndir á

minninganna spjöldin.

Mjög svo hugljúf mynd þín er

minningarnar gleðja,

það er margt sem þakka ber

þegar vinir kveðja.

(Friðrik Steingrímsson)

Innilegar samúðarkveðjur til ykkur allra kæra fjölskylda.

Fyrir hönd okkar systkinanna á Grímsstöðum,

Herdís

(Dísa Steingríms).