Gunnar Óli Jónsson fæddist í Reykjavík 25. mars 1957. Hann andaðist 28. janúar 2023.

Foreldrar Gunnars eru Unnur Ólafsdóttir, f. 18. mars 1934, og Jón Theodór Hansson Meyvantsson, f. 4. apríl 1928, d. 9. nóvember 1998. Fósturpabbi Sveinn Auðunn Kristvinsson, f. 21. júlí 1923, d. 20. maí 1984.

Albræður eru Víglundur Rúnar Jónsson, f. 1. desember 1953, og Kristján Meyvant Jónsson, f. 20. september 1955. Sammæðra bræður eru þeir Kristvin Jóhannes Sveinsson, f. 21. október 1959, Sigurður Þór Sveinsson, f. 20. nóvember 1963, d. 4. júlí 2004, og Jón Tryggvi Sveinsson, f. 27. maí 1966.

Eiginkona Gunnars er Ólöf Guðmundsdóttir, f. 18. október 1961. Foreldrar hennar voru Þuríður Kristín Hjálmtýsdóttir, f. 5. október 1920, d. 22. ágúst 2001, og Guðmundur Steindórsson, f. 6. ágúst 1911, d. 14. apríl 1992.

Börn Gunnars og Ólafar eru: 1) Berglind Unnur, f. 27. nóvember 1982. Börn hennar eru Alex, f. 2005, Emma, f. 2012, Maya, f. 2014, Viggo, f. 2016, og Emil, f. 2018. 2) Guðmundur Þór, f. 10. apríl 1987. Unnusta hans er Hera Fjölnisdóttir, f. 20. júní 1989. Barn þeirra er Kría, f. 2019.

Gunnar starfaði lengst af hjá Vatnsveitu Reykjavíkur sem síðar varð Orkuveita Reykjavíkur.

Gunnar verður jarðsunginn frá Grafarvogskirkju í dag, 10. febrúar 2023, klukkan 10.30.

Ég hef staðið við gluggann,

Heyrt hann tala um komandi harðæri, nístandi él.

Aldrei fyrr séð hann svo hryggan stara.

Þegar þú kvaddir, hvað ég skildi hann vel.

(Bubbi Morthens)

Þessar línur úr lagi eftir tónlistarmann sem við höfðum báðir mætur á lýsa betur en mörg orð tilfinningunni síðustu daga, eða frá því að ég frétti að góður og einlægur vinur, Gunni, væri lagður af stað í sitt hinsta ferðalag.

Gunni var órjúfanlegur partur af minni lífsgöngu og þegar hrukkunum fjölgaði og maður komst meira til vits og ára óx með okkur Gunna mikill vinskapur sem fól í sér mikla virðingu, skemmtilegheit og síðast en ekki síst tónlistarsköpun í orði og á borði. Gunni elskaði að slá taktinn og voru þær ófáar stundirnar sem við tveir, ásamt Gumma syni Gunna, vörðum saman í spilerí, fyrst í herberginu hans Gumma þar sem ég hóf má segja mína tónlistarsköpun og seinna meir í bílskúrnum þar sem blóð, sviti og tár fóru í að slá takinn og dansa við hrynjandann. Gunni sá alltaf eitthvað í glamri og gauli mínu sem hann taldi eiga erindi á stóra sviðið, hvatti mig til að finna mína köllun í tónlistinni, semja og koma fram sem ég hef núna gert í hartnær 20 ár og á honum það að þakka að mörgu leytinu.

Gunni sýndi ótrúlega elju og æðruleysi í veikindum sínum sem hann barðist við allt til brottfarardags, og ljóst er að heimurinn hefur misst einn af sínum dáðustu mönnum.

Ég kveð þig elsku vinur með þessum fátæklegum orðum og hlýja mér við fjölmargar og góðar minningar.

Hef misst styrkinn minn og stoð

lífið mitt og von.

Allt sem áður var, horfið er á braut

inn í tímans skaut.

Það er sárt og tekur mikið á

það reynist mér um megn.

Að sjá á eftir þér, hverfa burt frá mér

það sem eftir er.

(JS)

Elsku Ollu, Beggu, Gumma og öðrum fjölskyldumeðlimum votta ég innilega samúð og vona að margar og bjartar minningar um hjartahreinan, einlægan og góðan mann veiti ykkur styrk og yl þegar fram í sækir.

Jón Sig.