Haukur Ágústsson
Haukur Ágústsson
Haukur Ágústsson: "Evrópa situr uppi með vanda sem getur tortímt menningu hennar."

Eftir seinni heimsstyrjöldina var Evrópa í rúst en Sovétríkin, undir stjórn Stalíns, tóku upp útþenslu- og heimsvaldastefnu. Bandarísk stjórnvöld töldu þá að illa stödd ríki Evrópu yrðu kommúnismanum auðveld bráð. Því var það að 5. júní 1947 kynnti George C. Marshall utanríkisráðherra Bandaríkjanna áætlun um aðstoð við uppbyggingu Evrópu. Bandaríkin hugðust kosta hana og koma með henni í veg fyrir að Evrópuríki lentu í klóm kommúnista. Áætlunin hlaut nafnið the European Recovery Program (Endurreisnaráætlun Evrópu); betur þekkt sem Marshalláætlunin. Harry S. Truman Bandaríkjaforseti staðfesti lög um hana 3. apríl 1948.

Sem næst öllum ríkjum Evrópu var boðin þátttaka en Sovétríkin höfnuðu henni og hið sama gerðu ríki á áhrifasvæði þeirra í Austur-Evrópu. Ríkin sem þátt tóku urðu því 16: Austurríki, Belgía, Danmörk, Grikkland, Ísland, Írland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Noregur, Portúgal, Svíþjóð, Sviss, Tyrkland, Bretland og Vestur-Þýskaland. Þessi ríki, undir forystu Bretlands og Frakklands, settu á fót the Committee of European Economic Cooperation (Samvinnuráð Evrópu um efnahagsmál), sem setti saman fjögurra ára endurreisnaráætlun.

Fyrstu árin

Marshalláætlunin bar mikinn árangur – einkum í Belgíu, Frakklandi, Þýskalandi, Lúxemborg, Hollandi, Svíþjóð og Sviss. Í vaxandi mæli aflaði fólk í þessum löndum sér menntunar. Það með öðru olli því að skortur varð á vinnuafli í greinum þar sem ekki var krafist skólagöngu. Atvinnurekendur leituðu þá út fyrir þjóðir sínar eftir fólki til vinnu í t.d. námum, landbúnaði, verksmiðjum og við byggingar. Framan af var leitað til landa innan Evrópu og einkum til Suður-Evrópulanda. Fram á áttunda áratuginn voru því flestir innflytjendur til Norðvestur-Evrópu frá Grikklandi, Júgóslavíu, Ítalíu, Portúgal, Spáni, Marokkó, Alsír, Túnis og Tyrklandi. Nálægð skipti tíðum máli. Þannig voru margir Finnar við störf í Svíþjóð og Írar margir á Bretlandi.

Á þessum tíma var viðhorfið til þessara fólksflutninga almennt jákvætt. Viðtökulöndin nutu góðs af vinnufúsum höndum og fólksflutningarnir léttu á þrýstingi innan upprunalandanna. Auk þess komu langflestir frá löndum sem voru og eru innan sviðs kristinnar evrópskrar menningar. Þeir féllu því átakalítið að menningu viðtökuþjóðanna. Upp úr 1970 var fjöldi þessara farandverkamanna orðinn verulegur. Hann skiptist þó engan veginn jafnt á löndin. Þannig voru árið 1975 80% þeirra í einungis fjórum löndum: Frakklandi, Þýskalandi, Sviss og Bretlandi.

Nýlendubúar

Eftir lok síðari heimsstyrjaldarinnar fengu nýlendur Evrópuríkja hver af annarri sjálfstæði. Lögfræðilega var svo á litið að íbúar nýlendnanna væru þegnar þeirra Evrópuþjóða sem höfðu ráðið þeim. Fólk frá fyrrverandi nýlendum átti því rétt til búsetu í fyrrverandi nýlenduveldum Evrópu, s.s. í Frakklandi, Belgíu, Þýskalandi, Hollandi og Bretlandi. Mjög margir nýttu sér þetta og miklir fólksflutningar hófust til Evrópu frá heimssvæðum sem mörg hver bjuggu að menningu, trú og siðum mjög ólíkum ríkjandi hefðum og viðhorfum á Vesturlöndum.

Í mörgum tilfellum olli þetta litlum vandræðum. Svo var til að mynda með flesta sem komu frá Indlandi eða Suðaustur-Asíu. Annað var hins vegar tíðum raunin með það fólk sem kom frá öðrum svæðum og þá einkum ríkjum íslams eftir að innflytjendum þaðan tók verulega að fjölga. Þetta fólk hélt gjarnan kirfilega í trú sína og siði og hafnaði nokkuð almennt aðlögun. Fljótlega urðu því til hverfi í evrópskum borgum þar sem þessir innflytjendur flykktust saman, héldu fast í trú sína og siði, aðlöguðust lítið eða ekki samfélögum viðtökulandanna og höfðu oft takmarkað samneyti við aðra íbúa þeirra.

Síðari tímar

Eftir andlát Múhameðs árið 632 kom fljótlega upp ágreiningur um eftirmann hans. Óróinn jókst á 7. öldinni og náði hámarki eftir að kalífinn Ali var drepinn í bardaga árið 661. Til urðu tvær höfuðfylkingar innan íslams: súnní- og sjía-múslímar. Fylkingarnar líta hvor á aðra sem villutrúarmenn og hafa tíðum borist á banaspjót. Innan höfuðfylkinganna eru sértrúarstefnur sem gjarnan telja þá sem utan þeirra standa villutrúarmenn og jafnvel réttdræpa. Því hafa átök innan íslams verið nokkuð sífelld um langa hríð.

Á nýlendutímanum héldu nýlenduveldin átökunum nokkuð í skefjum en eftir tilurð sjálfstæðra ríkja múslima hófust átök bæði innan ríkjanna og þeirra á milli. Dæmi úr samtímanum er tilurð ISIS og borgarastríðið í Sýrlandi. Grimmd ISIS-liða og fjöldadráp á þeim sem þeir töldu vantrúarmenn ollu upplausn í þeim ríkjum sem hernaður þeirra náði til, s.s. í Sýrlandi. Almennir borgarar flýðu hundruðum þúsunda saman og stefndu margir á Evrópu. Einnig efndu múslímar til átaka í Afríku sem ollu flótta fjölmargra og þá líka til Evrópu. Við flóttamannastrauminn hefur bæst grúi manna (mikið ungir karlar) í leit að betri kjörum í velferðarríkjum Evrópu. Álfan situr nú uppi með vanda sem ef svo fer fram sem horfir mun geta tortímt menningu hennar og velferð á fáum áratugum – jafnvel innan þessarar aldar.

Höfundur er fyrrverandi kennari.