Snorri Jónsson fæddist á Siglufirði 14. nóvember 1943. Hann lést á HSU í Vestmannaeyjum 4. febrúar 2023.

Snorri var sonur hjónanna Jóns Kristins Jónssonar bifreiðastjóra úr Reykjavík, f. 24. september 1918, d. 17. júní 2001, og Ólínu Hjálmarsdóttur fiskverkakonu frá Húsabakka í Aðaldal, f. 4. ágúst 1923, d. 13. nóvember 1987.

Systkini Snorra eru Kristrún (Dúrra), f. 1942, Kristján Óli, f. 1948, Þórður, f. 1957, og Jón Kristinn, f. 1960, d. 2022.

Eiginkona Snorra er Þyrí Ólafsdóttir frá Vestmannaeyjum, f. 16. nóvember 1949, og giftu þau sig 14. september 1968. Þau eignuðust fimm börn: 1) Ólafur Þór, f. 23.8. 1968, maki Þórunn Júlía Jörgensdóttir, f. 1965, og eiga þau tvö börn, Örnu Þyrí (f. 1997), unnusti Hlynur Freyr Ómarsson, og Jörgen Frey, f. 1999, unnusta er Sigrún Jóhannsdóttir. Fyrir átti Ólafur dótturina Þórunni Dís, f. 1993. 2) Jón Kristinn, f. 13.3. 1970, maki Lilja Harðardóttir, f. 1971, og eiga þau tvö börn, Gauta, f. 1998, og Kristínu, f. 2004. 3) Hafdís, f. 21.12. 1973, maki Friðrik Þór Steindórsson, f. 1973, og eiga þau þrjú börn, Rebekku Rut, f. 1999, unnusti Matthías Benediktsson, Sindra Þór, f. 2003, og Rakel Rut, f. 2005, unnusti Gunnar Hrafn Gíslason. 4) Hafþór, f. 21.12. 1973, maki Dagrún Sigurgeirsdóttir, f. 1972, og eiga þau tvö börn, Söru Dís, f. 1997, unnusti Hreggviður Óli Ingibergsson, og Snorra Geir, f. 2001. 5) Bryndís, f. 18.5. 1980, maki Davíð Friðgeirsson, f. 1978, og eiga þau tvö börn, Önnu Brynju, f. 2004, og Snorra Þór, f. 2007.

Snorri ólst upp á Siglufirði og lærði rafvirkjun hjá Síldarverksmiðjum ríkisins og vann hjá þeim til ársins 1969, m.a. um borð í síldarflutningaskipinu Haferninum. Þá fluttu Snorri og Þyrí til Vestmannaeyja þar sem hann starfaði sem rafvirki. Í gosinu 1973 fluttu þau í Mosfellssveit en snemma árs 1975 fluttu þau aftur til Vestmannaeyja. Eftir gos vann Snorri ýmis störf auk rafvirkjunar en lengst af hjá Gámavinum við fiskútflutning. Heimili þeirra eftir gos var á Boðaslóð 18 og síðar í Foldahrauni 7.

Útför Snorra fer fram frá Landakirkju í Vestmannaeyjum í dag, 10. febrúar 2023, klukkan 13.

Streymt verður frá athöfninni á vef Landakirkju,

https://www.landakirkja.is/

Ég reyni en get ekki sofið. Pabbi dó í gær. Elsku besti og fallegi pabbi minn. Minningar hrannast upp en samt of fáar. Við vorum sammála um að þinn tími væri kominn en það er samt sárt að sitja eftir. Ég og þú vorum saman í liði, trúnaðarvinir og þú minn klettur. Ævi þín var stórbrotin, þú varst gleðigjafi og stjarna hvar sem þú komst. Þú hafðir svör við öllu, hvort sem þau voru rétt eða röng, og mikill mannvinur. Þú naust þín meðal fólks, sagðir sögur og ortir ljóð.

Elsku pabbi, minningin um þig mun lifa með mér og ótal öðrum.

Þín

Bryndís.

Ég held ég sé búinn að byrja hundrað sinnum á þessari grein. Hvernig á ég að skrifa um hann pabba sem var svo margþættur karakter? Vestmannaeyingur, Siglfirðingur, rafvirki, sjómaður, ritstjóri, verslunarmaður, lyftarakall, fiskútflytjandi, húsvörður, skáld, sagnamaður, ljósmyndari, safnari, ferðalangur, tónlistarmaður, kvikmyndatökumaður, bókaútgefandi og margt fleira.

Ég held að flestir minnist pabba sem mikils sagnamanns og ljóðskálds. Fljótur til svara og húmoristi af guðs náð sem var mjög oft fenginn til að flytja gamanmál eða vera leiðsögumaður. Hann var í essinu sínu ef einhver mjög trúgjarn var í hópnum og þá urðu til ýmsar sögur. Hann sagði eitt sinn í rútuferð með hópi aðkomufólks að Helgafellið væri átta þúsund og fjögurra ára. Það sló þögn á hópinn og svo sagði einn aðkomumanna: „Átta þúsund og fjögurra ára, hvernig færðu það út?“ „Sko, ég hitti jarðfræðing fyrir fjórum árum sem sagði mér að Helgafellið væri átta þúsund ára gamalt þannig að það hlýtur að vera átta þúsund og fjögurra ára núna.“

Pabbi var mjög úrræðagóður maður og hann bað sjaldnast um ráð, heldur rak sig bara á og leysti sjálfur úr hlutunum. Hann treysti okkur systkinum líka alltaf til að leysa sjálf úr hlutunum á uppvaxtarárum okkar. Tók aldrei fram fyrir hendurnar á okkur ef við vorum eitthvað að brasa en var tilbúinn að hjálpa ef leitað var eftir því. Sýndi öllu (eða flestöllu) sem við gerðum áhuga og sama átti við um barnabörnin þegar þau uxu úr grasi. Spjallaði við alla á jafningjagrundvelli og hans bestu stundir voru í góðum hópi fjölskyldu og vina að segja gamansögur eða fara með vísur.

Við vorum alin upp við að vera sjálfstæð. Þegar ég var 11 ára og vildi fá vinnu í fiski sagði hann: „Talaðu bara við verkstjórann“ en ég ætlaði aldrei að þora að hringja. En viti menn, ég fékk vinnuna. Ég hef nú reyndar grun um að hann hafi verið búinn að undirbúa jarðveginn, en sjálfur skyldi ég sækja um vinnuna. Hann hafði það mottó að ef það er vinna, þá mætir maður í vinnu. Þegar hann var kominn á sjúkrahúsið og fyrirséð var í hvað stefndi spurði hann lækninn. „Hvað eru þau að gera hér?“ og átti þá við okkur systkinin. „Eiga þau ekki að vera í vinnu?“

Við pabbi gátum talað um allt milli himins og jarðar en við gátum líka bara þagað ef þannig lá á okkur. Til hvers að vera að tala ef ekkert var að segja? Margar stundir áttum við í spjalli um handbolta, bátana og fiskeríið, framkvæmdir bæjarins, sögu Vestmannaeyja, gamla tíma á Siglufirði, Lúðrasveitina og svo ég tali nú ekki um hvað fjölskyldan og vinir voru að bardúsa. Hann fylgdist vel með vinum mínum og var stoltur af því sem þeir voru að gera, enda voru vinir mínir líka vinir hans.

Elsku pabbi. Ég mun sakna þín en jafnframt vera glaður yfir því að þú hefur fengið hvíldina sem þú óskaðir eftir. Ég mun minnast þín við barnabörnin og sögurnar þínar verða sagðar áfram þótt erfitt verði að feta í fótspor þín á þeim vettvangi.

Við systkinin munum passa upp á mömmu fyrir þig og ég bið að heilsa Nonna.

Ólafur Þór (Óli).

Jæja elsku pabbi minn. Nú ertu laus undan veikindum þínum sem þú þoldir ekki. Þú hótaðir okkur systkinunum að verða 107 ára og baðst okkur að velja öll sama elliheimilið svo þú gætir heimsótt okkur öll í einu. Þú varst alltaf boðinn og búinn og varst úrræðagóður. Þú vissir allt eða laugst þig alla vega út úr öllu. Þú varst alltaf til staðar fyrir okkur og þú elskaðir að horfa yfir hópinn þinn. Æðruleysið var ótrúlegt, húmorinn einstakur, þolinmæðin upp á tíu og tryggðin og traustið sem þú barst til okkar er okkur gott veganesti í lífinu. Þú varst vinsæll maður og alls staðar hópaðist fólk í kringum þig. Elsku pabbi minn, þú kvaddir okkur sáttur, óhræddur og sagðist hafa átt gott líf og góða fjölskyldu og vini. Kveðjustundin okkar var einstök, falleg, fáránlega fyndin og lærdómsrík, allt í þínum anda. Áfram göngum við í takt og pössum vel upp á hvert annað og hafðu engar áhyggjur af mömmu, við sjáum um hana.

Þín stelpa,

Hafdís.

Ástkæran bróður minn kveð ég nú hinsta sinni. Hann lést eftir löng og oft og tíðum ströng veikindi. Snorri fæddist og ólst upp á Siglufirði, en fluttist um 1970 til Vestmannaeyja með ástinni sinni, henni Þyrí, og bjó þar síðan, ef frá eru talin 2-3 ár eftir gos.

Þegar ég fór að muna eftir mér var Snorri um og yfir tvítugt. Örugglega aðaltöffarinn í bænum og ég leit ákaflega mikið upp til hans. Hann var vinmargur og nutum við yngri bræður þess. Hann spilaði í lúðrasveitinni og ég fékk þann starfa að pússa básúnuna hans þegar eitthvað stóð til. Það var vel borgað starf. Hann sigldi á síldarflutningaskipinu Haferninum um heimsins höf og það var ætíð hátíð í bæ þegar hann kom heim úr siglingum. Þau Þyrí reyndust mér alltaf einstaklega vel og hjálpsöm.

Ég veit ekki alveg hvort hægt er að kalla Snorra sagnaþul, eftir ströngustu orðabókaskilgreiningum þess orðs. En víst gat hann setið tímum saman, alveg undir það síðasta, og þulið upp brandara, sögur, vísur og ljóð svo eftir var hlustað. Hann hélt salnum eins og sagt er og var hrókur alls fagnaðar á samkomum. Þær voru að vísu ekki alltaf alveg dagsannar, sögurnar sem sagðar voru, en yfirleitt var einhvers staðar að finna í þeim örlítinn sannleiksvott. Eins og t.d. í einni af víðfrægari sögum hans, sögunni af skeytasendingum kjötiðnaðarmannsins á Siglufirði og fyrsta sovéska geimfarans. Má með sanni segja að hjá Snorra hafi sannast, að góð saga á ekki að þurfa að gjalda sannleikans. Og hverjum nema honum hefði dottið í hug að auglýsa skíðakennslu á Stakkagerðistúninu með „siglfirskum skíðakennurum“ þegar snjó festi í fyrsta skipti í Eyjum eftir að hann flutti þangað. Þá eru margar sögurnar af tímanum sem hann var á Haferninum og komust jafnvel á prent „í blaði allra landsmanna“. Snorri var hagmæltur, skáldmæltur, og átti auðvelt með að fella hugsanir sínar í skorður ríms, ljóð- og höfuðstafa. Hann samdi fjölda söngtexta fyrir tónlistarmenn, átti í einhver skipti texta þjóðhátíðarlagsins og gaf út ljóðabók, svo fátt eitt sé talið. Hann var prakkari, hrekkjóttur en ekki meiðandi. Á gosnóttina náði hann að hringja og segja móður okkar, að farið væri að gjósa við húsgaflinn og fjölskyldan færi sennilega með fiskibát upp á land. Hún sat drjúgan tíma við símann og beið eftir að hann hringdi aftur til segja að um hrekk væri að ræða. Endaði hún með að hringja í háttsettan mann í lögreglunni í Reykjavík, um miðja nótt, til að fá staðfestingu á að að í alvöru væri farið að gjósa á Heimaey.

Það eru ekki nema tíu mánuðir síðan Nonni, yngsti bróðir okkar, féll frá, og 22 mánuðir síðan Benni mágur okkar fór. Í haust lést svo annar mágur minn, Hjalti, bróðir Möggu, konunnar minnar. Það eru því stór skörð hoggin í fjölskylduna á skömmum tíma. En mig langar að trúa því, að þeir sitji allir á góðum stað, þar sem Siglufjarðarsannleikurinn fær að njóta sín og hljóma af vörum og að mikið sé hlegið.

Elsku besta Þyrí, börnin ykkar, tengdabörn og barnabörn. Innilegustu samúðarkveðjur, nú þegar við kveðjum góðan dreng.

Doddi,

Þórður Jónsson.